„Þetta er gott dæmi um þá ömurlegu stöðu sem sveitastjórnir um allt land hafa þegar kemur að því að vera eitthvað sem kalla mætti alvöru stjórnvald. Vissulega hafa þau lögformlega stöðu sem stjórnvald, en öll þessi smáveitarféög um allt land, oftast skipuð einhverjum smásálum, sem sjá aldrei lengra en að næstu krónu og stundum að sveitarfélagamörkum, virðast fullkomlega í óhæf til þess að stjórna í anda lýðræðis, þar sem aðkoma íbúana að ákvörðunartöku er hluti af stjórnarfarinu.“
Þetta segir Þór Saari, fyrrverandi þingmaður, um íbúakosninguna í Ölfusi sem skyndilega var frestað á síðustu stundu í gær. Íbúar áttu að kjósa um hvort reisa ætti mölunarverksmiðju þýska fyrirtækisins Heidelberg við Þórshöfn í Ölfus. Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, hefur fullyrt að nauðsynlegt hafi verið að fresta kosingunni eftir að bæjarstjórn barst bréf frá landeldisfyrirtækinu First Water. Í því bréfi var lýst yfir áhyggjum að verksmiðjan væri of nálægt eldisstöðvunum.
Þór segir á hinn boginn að þessi uppákoma afhjúpi hve vafasamt þetta verkefni sé í raun og veru. „Í Þorlákshöfn ríkir einræðisherra, einræðisherran Elliði Vignissson, sem fyrst og fremst lítur á íbúa samfélagsins í Þorlákshöfn, að ekki sé talað um minnihlutan í sveitarstjórninni, sem fyrirstöðu fyrir hans eigin skýjaborgum um gereyðingu umhverfis og náttúru, fyrirstöðu sem ber að valta yfir vegna þess að hann sjálfur lítur á fyrirætlanir þýska risanámafyrirtækisins Heidelberg sem einhvers konar guðspjall og köllun Elliða er að sú mengandi stóriðja sem þetta fyrirtæki mun standa fyrir sé bráðnauðsynleg fyrir íbúa svæðisins,“ segir Þór og heldur áfram:
„Farsakendara getur þetta eiginlega ekki verið og það virðist augljóst öllum að einhversstaðar hljóta brún umsög að hafa skipt um hendur, hvort sem um er að ræða hjá smásveitastjórninni, þar sem aðeins fjórir menn í Sjálfstæðisflokknum ráða öllu um framgang þessa risamáls, hjá Elliða sjálfum hvers framganga er alveg með ólíkindum og/eða hjá stjórn Sjöunda Dags Aðventista sem „eiga“ landið og fjallið sem á að flytja til Þýskalands.“
Þór segir þetta mál allt sýna að sérfræðingar hjá Skipulagsstofnun ættu frekar að hafa skipulagsvaldið en sveitarstjórnir, líkt og áður fyrr. „Það er fyrir löngu kominn tími til að taka skipulagsvaldið frá sveitarstjórnunum og bera endanlega ákvörðunartöku um allt skipulag undir sérfræðingana hjá Skipulagsstofnun sem þarf að fá aftur það vald sem hún hafði áður en Sif Friðleifsdóttir fyrrv. ráðherra eyðilagði það. Skipulagsstofnun þarf líka að hafa völd til að ákveða hvort eigi að vísa skipulagsmálum í alvöru kynningu og íbúakosningu í sveitarfélögunum. Smásálirnar í þessum smásveitarfélögum, og þá er Reykjavík ekki undanskilin, ráða bara ekki við verkefnið eins og lögskipað stjórnvald á að gera í alvöru landi.“