„Hvers konar stjórnarfar er þetta?,“ spyr Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi, í pistli sem hún birtir á Facebook. Þar vísar hún til þess hvernig meirihlutinn hefur staðið að útvistun á rekstri Salarsins,sem er í raun einkavæðing menningarhúsins.
„Fyrir rúmu ári síðan samþykkti bæjarstjórn að skipaður yrði starfshópur um fjölgun viðburða og gesta í Salinn, tónlistarhúsið okkar Kópavogsbúa. Starfshópurinn skyldi meðal annars skoða kosti og galla þess að útvista rekstri Salarins, og skila tillögum sínum til bæjarstjóra. Hingað til, þegar bæjarstjórn hefur ákveðið að skipa starfshóp, hefur tillaga að erindisbréfi komið til umræðu í bæjarráði og lokahönd lögð á það þar, ásamt því að tilnefning í starfshópinn hefur verið á lýðræðislegum grundvelli,“ lýsir Sigurbjörg Erla.
Hún segir að í þetta skiptið hafi verið farið á svig við venjur. „Í þetta sinn tók bæjarstjóri sig aftur á móti til og skrifaði ein síns liðs erindisbréf fyrir starfshópinn, undirritaði það og stimplaði áður en það var lagt fram „til kynningar“ í Lista- og menningarráði og síðan bæjarráði. Þá var hún jafnframt búin að skipa í starfshópinn, ein síns liðs, annars vegar fjárfesti og hins vegar miðlunarstjóra Samtaka atvinnulífsins, án nokkurs rökstuðnings fyrir því hvers vegna fólk úr þessum áttum á erindi í starfshópinn okkar. Þar að auki er þriðji fulltrúinn sagður „tilnefndur af FÍH“ en þegar við spurðumst fyrir um með hvaða hætti það hefði farið fram þá var það þannig að forstöðumaður menningarmála í Kópavogi hringdi í einhvern hjá FÍH og spurði hvort þau féllust ekki á það að viðkomandi yrði þarna í þeirra nafni,“ segir Sigurbjörg Erla.
Hún segir að skiljanlega hafa allar hugmyndir um einkavæðingur Salarins verið umdeildar innan bæjarins. „Lista- og menningarráði Kópavogs er samkvæmt erindisbréfi falið að fara með málefni Salarins, ásamt því að sinna stefnumörkun í menningarmálum og vera ráðgefandi til bæjarráðs um þau mál. Málefni Salarins og hugmyndir bæjarstjóra um breytingar á rekstrinum hafa verið ákaflega umdeildar bæði innan lista- og menningarráðs, bæjarstjórnar og hjá tónlistarfólki og samtökum þeirra,“ segir Sigurbjörg Erla.
Hún segist einfaldlega velta því fyrir sér á hvaða vegferð bæjarstjórinn sé eiginlega en óhætt er að segja að Ásdís Kristjánsdóttir hafi verið umdeild í starfi. „Bæjarstjóra hefur hvorki verið falið umboð til þess að samþykkja erindisbréf né skipa í starfshópinn og það er í raun fjarstæðukennt að hún eigi að semja erindisbréf, tilnefna og skipa í starfshóp sem gera á tillögur til hennar sjálfrar. Málatilbúnaðurinn er enn langsóttari í ljósi þess að allt lista- og menningarráð hefur ítrekað bókað (í einingu) um að í starfshópnum skuli eiga sæti fulltrúar meiri- og minnihluta í lista- og menningarráði, ásamt fulltrúa frá Tónlistarskóla Kópavogs, sem deilir eignarhaldi á tónlistarhúsinu með Kópavogsbæ. Ég velti fyrir mér á hvaða vegferð bæjarstjóri er eiginlega með Salinn okkar.“