Hópur bílstjóra hjá Uber-farveitunni á Nýja-Sjálandi hefur unnið dómsmál þar sem þess var krafist að vinnuveitendur þeirra teldu þá til starfsmanna en ekki sjálfstæðra verktaka. Dómurinn kann að hafa fordæmisgildi í landinu og jafnvel víðar.
Félagsdómur Nýja-Sjálands felldi úrskurðinn þriðjudaginn 25. október að því er fram kemur í frétt breska dagblaðsins Guardian. Dómurinn þýðir að bílstjórarnir munu njóta sömu réttinda og verndar og annað launafólk í föstum ráðningarsamböndum.
Í úrskurði dómsins segir að hann eigi aðeins við um þá fjóra bílstjóra Uber sem höfðuðu málið en jafnframt er greint frá því að hann kunni að hafa fordæmisgildi fyrir alla ökumenn Uber-farveitunnar á Nýja-Sjálandi.
Tvö stéttarfélög höfðuðu málið og fögnuðu talsmenn þeirra niðurstöðunni með þeim orðum að hún markaði þáttaskil. Dómurinn kynni einnig að hafa áhrif á alþjóðavettvangi.
Bílstjórarnir verða nú félagar í First Union-stéttarfélaginu sem hyggst taka upp samningagerð fyrir þá. Einn bílstjóranna fagnaði niðurstöðunni og sagði: „Loksins fá Uber-bílstjórar notið réttlætis. Þetta þýðir að bílstjórar munu hafa áhrif og verða ekki lengur ofurseldir valdi Uber. Við erum starfsmenn.“
Talsmaður Uber sagði niðurstöðuna „vonbrigði“ og boðaði áfrýjun.
Mjög hefur færst í vöxt að fyrirtæki sem starfa í svonefndu „hark-hagkerfi“ (e. gig economy) séu dregin fyrir félagsdóm vegna brota gegn réttindum starfsfólks. Í frétt Guardian kemur fram að rannsókn frá 2021 hafi leitt í ljós að minnsta kosti 40 málshöfðanir í 20 ríkjum vegna brota gegn réttindum fyrirtækja á borð við Uber og Deliveroo. Sama ár voru fyrirtækin UberEats, Glovo, Just Eat og Deliveroo dæmd til að greiða rúmlega 730 milljónir evra í sekt fyrir að hafa ekki skilgreint 60.000 sendla sem starfsfólk. Þá hefur Hæstiréttur Bretlands staðfest niðurstöðu félagsdóms þess efnis að bílstjórar á vegum Uber skuli teljast starfsmenn en ekki sjálfstæðir verktakar.
Fréttin er af vef ASÍ.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga