Tíu ár frá þjóðaratkvæðagreiðslu sem stjórnvöld hafa hunsað

Stjórnmál 20. okt 2022

Í dag eru tíu ár frá því meirihluti kjósenda samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Síðan hefur Alþingi og stjórnvöld hunsað þessa niðurstöðu.

Niðurstaðan varð sú að 64,2% kjósenda sögðu já en 31,7% nei. Meira en tvöfalt fleiri svöruðu játandi. Mestur var munurinn í Reykjavík norður en minnstur í Norðvesturkjördæmi.

Kjósendur voru spurðir fimm annarra spurningar.

74% svöruðu játandi að þau vildu að í nýrri stjórnarskrá yrðu náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign, en aðeins 15% voru því andsnúin.

68,5% samþykktu að í nýrri stjórnarskrá yrði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er en 18,9% vildu það ekki.

63,4% kjósenda vildu að í nýrri stjórnarskrá yrði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu en 23,1% höfnuðu því.

58,2% krossuðu við já þegar þau voru spurð hvort þau vildu að í nýrri stjórnarskrá yrði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt en 29,3% krossuðu við nei. Þetta er eina spurningin þar sem niðurstaðan var ólík eftir kjördæmum. Kjósendur í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi felldu þessa tillögu.

Halldór Baldursson lagði útfrá úrslitum atkvæðagreiðslunnar um þjóðkirkjuna í teikningu sinni í Fréttablaðinu eftir kosningarnar.

51% sögðu að þau vildu að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi en 38,3% svöruðu því neitandi. Þetta var eina spurningin sem meirihlutinn svaraði þvert á frumvarp stjórnlagaráð, en í því var ekki ákvæði um þjóðkirkju.

Fyrirsögn leiðara Fréttablaðsins var: Afdráttarlausar niðurstöður. Fyrirsögn leiðara Morgunblaðsins var: Engu nær. Og undir stóð: Það er ágætt að einn þáttur langdregins skrípaleiks sér frá. Þetta gaf fyrirheit um átök um túlkunina sem fylgdu.

„Það er tvennt sem mér finnst standa upp úr í þessu. Það er í fyrsta lagi að sjötíu prósent kjósenda annaðhvort sátu heima eða lögðust gegn fyrstu spurningunni. Hinsvegar er nokkuð afgerandi afstaða tekin af þeim sem mættu en það eru þó aðeins þrjátíu prósent kjósenda í landinu,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, þegar Morgunblaðið bar undir hann þessa niðurstöðu.

Bjarni vísar þarna til kosningaþátttökunnar en hún var 48,9%. Til samanburðar var kosningaþátttakan 62,7% í fyrri Icesave-kosningunum og 75,3% í þeirri síðari. Með rökum Bjarna mætti segja að í seinni kosningunum hafi 55% kjósenda annað hvort ekki mætt á kjörstað eða samþykkt Icesave-samninginn.

„Ef viljinn er fyrir hendi ættum við að geta náð viðunandi niðurstöðu fyrir vorið,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir þá forsætisráðherra þegar niðurstöður lágu fyrir.

Það gerðist ekki. Eftir málþóf var málið tekið af dagskrá þingsins og í kosningunum hrundi fylgið af stjórnarflokkunum og ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins tók við. Engin ríkisstjórn hefur síðan haft það á stefnuskrá sinni að taka upp nýja stjórnarskrá.

Lögfræðingar háskólans og dómstóla voru mjög andsnúnir nýrri stjórnaskrá. Það sást vel af viðbrögðum Sigurðar Líndal prófessors: „Um hvað snerist þá þessi atkvæðagreiðsla?“ spurði Sigurður í Fréttablaðið. Og svaraði sjálfum sér: „Um ófullburða plagg sem fullyrða má að landsmenn höfðu afar óljósa hugmynd um, hvað fæli í sér. Tæpitungulaust snerist atkvæðagreiðslan því ekki um neitt. Hér er unnið í anda sýndarlýðræðis sem er vísastur vegur til að rækta jarðveg fyrir pólitíska spillingu, þannig að hún verði stunduð í skjóli teygjanlegs lýðræðilegs umboðs sem túlka megi á hvaða veg sem er og réttlæta hvað sem er.“

Í spilaranum hér að ofan má hlýða á viðtal í tilefni dagsins við Katrínu Oddsdóttur formann Stjórnarskrárfélagsins um nýju stjórnarskrána, hvaða breytingar hún boðar og hvers vegna valdastéttin stendur í vegi fyrir að hún verði samþykkt.

Samstöðin er gjaldfrjáls vettvangur. Ef þér líkar efnið getur þú eflt Samstöðina með því að gerast félagi í Alþýðufélaginu og þá einskonar áskrifandi. Það kostar aðeins 1.250 kr. á mánuði, en þú mátt borga meira., Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí