„Bókasöfn borgarinnar standa öllum opin alltaf. Þar er hægt að fá kaffi, setjast og hafa það gott,“ sagði Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkur, í viðtali við Stöð 2 í síðustu viku. Þar vísaði hún til bókasafnanna sem hugsanlegs úrræðis fyrir heimilislausa karlmenn sem vantar samverustað á daginn þegar neyðarskýlin eru lokuð.
Pálína Magnúsdóttir borgarbókavörður frábiður sér að bókasöfn borgarinnar verði notuð sem úrræði í vanda sem velferðarkerfi borgarinnar ætti að sinna. „Mér fannst þetta ekki maklegt. Þetta sló mig eins og það væri verið að setja safninu nýja stefnu,“ sagði Pálína í samtali við RÚV. Pálína segir alveg skýrt að bókasöfn séu ekki úrræði velferðarkerfisins og að óheppilegt sé að tala um þau á þeim nótum. Heiða Björg segir fréttastofu RÚV í sömu frétt að hún hafi ekki vísað til bókasafna sem velferðarúrræða. Starfsfólk almenningssafna á höfuðborgarsvæðinu hefur látið í sér heyra á samfélagsmiðlum varðandi málið og meðal annars bent á að starfsfólk safnanna hefur hvorki reynslu né þekkingu til þess að mæta þörfum heimilislausra safngesta sem sumir glími við fjölþættan vanda. Engum sé því greiði gerður, hvorki notendum né starfsfólki, með því að ætla almenningsbókasöfnum að takast á við húsnæðisvandann á höfuðborgarsvæðinu, meðfram öðrum hefðbundnari bókasafnsverkefnum.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga