„Ljósin virka ekki öll. Flesta glugga í rýmum barnanna er ekki hægt að opna. Það er ekki hiti á gólfhitakerfinu. Sum baðherbergi og skiptiaðstaða eru ónothæf vegna mistaka við uppsetningu. Garðurinn okkar (sem er vissulega fallegur) er ekki hannaður fyrir yngstu börn leikskólans og er á mörgum stöðum bein slysahætta. Aðstaða starfsfólks er ókláruð og leikskólastjórinn okkar vinnur á skrifstofu sem er líka geymsla. Til að geta komið öllum börnunum fyrir í matartímum höfum við þurft að bera húsgögn milli deilda á meðan börnin eru að matast til þess eins að bera húsgögnin strax til baka því að það þarf líka að nýta þau inni á deildum.“
Svona lýsir Georg Atli Hallsson starfsmaður á Brákarborg leikskólanum í Facebook-færslu sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tók við verðlaunum fyrir í gær.
„Þessi viðurkenning staðfestir allt það sem lá til grundvallar ákvörðun okkar á sínum tíma, og sýnir vel hvernig hægt er að endurbyggja gömul hús og veita þeim nýtt hlutverk – og það á umhverfisvænan hátt!” segir Dagur þegar hann tók við Grænu skóflunni, viðurkenningu félagssamtakanna Grænni byggðar.
Það er lítill samhljómur með lýsingu Georgs Atla og Dags. Dagur heldur áfram: „Með andlitslyftingu þessa gamla hverfiskjarna við Kleppsveg og innréttingu nýs 120 barna leikskóla fyrir Laugardal og hina nýju Voga-byggðar náðum við sannarlega að slá ótrúlega margar flugur í einu höggi!“ sagði Dagur.
Og hélt áfram: „Við erum stolt af því að hafa með samvinnu þessa frábæra hóps sem er hér í dag náð að lágmarka kolefnisspor borgarinnar með þessu verkefni – og skila af okkur stórglæsilegri byggingu sem er prýði hverfisins og bætir úr gríðarlegri þörf á leikskólaplássum í Reykjavík! Mikill umhverfislegur ávinningur felst í því að endurgera bygginguna við Kleppsveg 150-152 í stað þess að reisa nýja byggingu.“
En Georg Atli heldur líka áfram með sína lýsingu: „Í kringum stórar og smáar vinnuvélar, rafvirkja, pípara, málara, almenna verktaka, forritara, allskonar úttektaraðila, arkitekta, flutningsfólk, sölufólk, aðstoðarfólk, gesti, gangandi, ýmiskonar eftirlitsaðila og eflaust allskonar fleira fólk sem ég er að gleyma, höfum við starfsfólkið þurft að þræða beina flutninga inn í húsið, tvær fullar aðlaganir nýrra og yngri barna og núna daglegt starf.“
Georg Atli er orðinn langþreyttur á hrörnun leikskólanna í borginni og bætir við: .Ég gleymdi næstum að við erum að sjálfsögðu ekki búin að manna allar stöður leikskólans. Ekki einu sinni grunnstöður allra deilda. Það þýðir að starfsfólki er smurt allt of þunnt og þarf að hlaupa allt of hratt. Leikskólastjórinn okkar er til dæmis að sinna stöðu aðstoðarleikskólastjóra, húsvarðar og er í veikindaafleysingum ofan á sína 100% stöðu. Mér finnst þetta alls ekki hljóma eins og að margar flugur hafi verið slegnar.
Mönnunarvandinn er reyndar víðtækur því það er líklega í hverri viku sem einhvers staðar þarf að loka vegna manneklu og á gríðarlega mörgum stöðum gengur illa að ráða inn starfsfólk. Um daginn bárust fréttir af því að það vanti að fylla 90 stöður í Reykjavík (Fyrir utan það að samkvæmt lögum á um 67% (2/3) starfsfólks hvers leikskóla að vera fagmenntað en hlutfallið er frekar í kringum 25% á landsvísu en það er líklega einhver önnur umræða).
Ég sé ekki hvernig það að bæta við börnum inn á þegar yfirfullar deildar, á að hjálpa okkur að leysa þessi vandamál. Ekki heldur það að slíta út því starfsfólki sem nú þegar hefur ráðið sig til vinnu með fullkomlega óviðunandi starfsaðstæðum, að því fólki þarf að hlúa ef það á ekki að brenna upp og hverfa frá leikskólunum.
Þessi sértæka upptalning sem er hér fyrir ofan er rituð með Brákarborg í huga en það að leikskólar borgarinnar (og landsins) búi við vanbúnað er alls ekki ný saga. Nánast í hverjum mánuði fréttist af nýjum leikskóla sem þarf að loka vegna raka eða myglu vandamála.
Þrátt fyrir álagið, augljósa vankanta á húsnæði og ráðningum er stöðug pressa á að taka inn fleiri og yngri börn og fermetra talan sem hvert barn fær í leikskólum fer hratt lækkandi. Aðbúnaður barna og starfsfólks á fyrsta skólastiginu er heilt yfir skammarlegur,“ skrifar Georg Atli.
Hann vísar í barnasáttmála Sameinu þjóðanna þar sem segir að stjórnvöld eiga að sjá til þess að fólk sem ábyrgt er fyrir börnum hafi hagsmuni þeirra alltaf að leiðarljósi og staðir sem ætlaðir eru börnum uppfylli einnig þær skyldur.
„Hvenær ætla stjórnvöld að standa við þetta og hvenær ætlum við sem „fólk sem er ábyrgt” að draga þau til ábyrgðar?“ spyr Georg Atli. „Á hverjum degi bognar bak starfsfólks leikskóla aðeins meira og á hverjum degi kæfist eldmóður leikskólakennara enn frekar. Það er brunalykt í loftinu.“
Færslu Georgs Atla á Facebook má lesa hér.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga