Forréttindablinda á eigin stöðu getur gert það að verkum að fólk sem fékk mun betri skilyrði til uppvaxtar telur sig eiga stöðu sína algerlega skilið vegna eigin ágætis frekar en að líta til umhverfisþátta, segir Vilhjálmur Árnason prófessor en hann ræddi um verðleikasamfélagið við Rauða borðið. Hugmyndir um verðleika geta þannig snúist upp í ákveðinn ofmetnað og forréttindablindu.
Og svo gildir það sama um þau sem „tapa“ í lífskapphlaupinu. „Þau geta sjálfum sér um kennt,“ gæti sigursæli viðskiptajöfurinn sagt um fátækt fólk en hann gerir sér kannski ekki grein fyrir forréttindum sínum og þeirri erfiðu stöðu sem margt þetta fátæka fólk fæddist inn í. Í sömu aðstæðum hefði líklega það sama orðið úr honum, segir Vilhjálmur.
Á hinn boginn geta þau „sem ekki komust áfram“ í lífsgæðakapphlaupinu upplifað niðurlægingu og skömm, ekki síst vegna þess að verðleika hugmyndirnar segja þeim að þau séu ábyrg fyrir stöðu sinni.
Vilhjálmur skrifaði nýlega grein sem nefnist Harðstjórn verðleikanna og jafnaðarstefnan. Í greininni segir hann að hugmyndin um verðleika, að hver sé sinnar eigin gæfu smiður, hafi gegn afar tvíbentu hlutverki í samfélaginu.
Sögulega séð hefur einstaklingshyggjan og hugmyndin um að hver og einn eigi að njóta verðleika sinna verið framþróun frá ættartengdum forréttindum, þar sem félagslega staða þín og efnahagsstaða réðst fyrst og fremst af ætterni þínu.
Þessar hugmyndir eru orðnar að nokkuð djúpstæðum parti af menningarlegri hugsun okkar í dag. „Hver og einn ætti að komast eins hátt eða langt í lífinu og hæfileikar þeirra og framlag stóðu undir.“ Og þar af leiðandi eiga þau sem leggja mikið til, mikið skilið. En er þetta svo einfalt?
Vilhjálmur bendir á að verðleikahugmyndirnar hafa ekki alltaf átt upp á pallborð í hugmyndum fræðimanna. Hann vitnar í réttlætiskenningu John Rawls:
„Það verðskuldar enginn þær gáfur sem hann hlýtur í vöggugjöf, ekki frekar en maður verðskuldar þá stöðu í samfélagi sem hann er fæddur til. Við getum ekki heldur sagt að maður eigi þann dug skilinn sem gerir honum kleift að leggja rækt við hæfileika sína, því að dugur manns veltur að mestu á slembiláni um fjölskyldu hans og félagsskap sem hann getur ekki þakkað sjálfum sér. Hér er hvergi fótfesta fyrir hugmyndina um verðleika.“
Hér er vísað til að það umhverfi og þær félagslegu aðstæður sem við fæðumst inní séu mjög handahófskenndar og hafi gríðarleg áhrif á hvers konar fólk við verðum. Hvers konar líkama við fæðumst í, hversu heilbrigður hann er o.s.frv., má líka segja að sé mjög handahófskennt en hefur gríðarleg áhrif á hvernig lífið okkar fer og hvers við verðum megnug. Fólk sem fæðist inn í stöðuga og efnaða fjölskyldu á að öllu jöfnu betri möguleika á því að gera sem mest úr hæfileikum sínum.
Ameríski draumurinn um að hver sem er eigi að geta komist til auðs og valda með dugnaði og hæfileikum hefur verið tengdur við félagslegan hreyfanleika, það að fólk á að geta færst upp í þjóðfélagsstiganum eftir dugnaði og verðleikum. Heimspekingurinn Michael Sandel bendir hins vegar á í bók sinni The Tyranny of Merit. What’s Become of the Common Good? að félagslegur hreyfanleiki er mun minni í Bandaríkjunum en á Norðurlöndunum. Sandel segir að Ameríski draumurinn sé í raun goðsögn sem eigi ekki við rök að styðjast.
Vilhjálmur talar í greininni um mikilvægi þess að við virðum framlag hvers og eins, burtséð frá stöðu, og um þann sannleik að framlag allra vinnandi stétta myndar í raun samofinn vef sem er í raun forsenda þess að nokkur njóti afraksturs dugnaðar síns og hæfileika.
„Samfélagið er líkt og samofinn vefur þar sem engin leið er að greina framtak einstaklinga algjörlega frá því umhverfi sem hefur fóstrað þá. Jafnvel hinir öflugustu athafnamenn hafa þegið fjölmargt frá samfélaginu sem hefur gert afrek þeirra möguleg. Þessa vegna var það til að mynda ranglátt þegar kvótakerfið var tekið upp að einskorða úthlutun veiðiheimilda við útgerðarmenn og rjúfa þannig tengsl þeirra við íslenskar sjávarbyggðir sem skópu þeim skilyrði til framkvæmda og verðmætasköpunar,“ skrifaði Vilhjálmur í bók sína Farsælt líf, réttlátt samfélag.“
Vilhjálmur settist við Rauða borðið og sagði okkur betur frá þessum hugmyndum. Hlýða má á viðtalið í spilarnum hér að ofan.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga