Vilhjálmur Vilhjálmsson lögmaður sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að Sigríður Björk Guðjónsdóttir þyrfti að segja af sér sem ríkislögreglustjóri þar sem rannsókn hefði ekki verið hafin á refsiverðum brotum föður hennar. Brotin lágu ljós fyrir, komu fram í málaferlum gegn öðrum manni vegna brota á vopnalögum.
Sigríður Björk sagði sig frá rannsókn á meintum ráðagerðum tveggja ungra manna um hryðjuverk. Ástæðan er að rannsóknin beindist að Guðjóni Valdimarssyni vopnasala, sem er faðir Sigríðar. Gerð var húsleit á heimili hans og vinnustað og hald lagt á ólögleg vopn.
Komið hefur fram að Guðjón hefur lengi verið umsvifamikill byssusali. Hann útvegar meðal annars vopn erlendis frá. Í Kveik Ríkissjónvarpsins í gær kom fram að hann hefði útvegað manni ólöglegt vopn, hálfsjálfvirkan riffil, og það hefði komið fram í málaferlum gegn manninum.
Vilhjálmur segir að ríkislögreglustjóri beri að hefja rannsókn á refsiverðri háttsemi ef embættinu berst vísbending um slíkt. Þegar slíkt er skjalfest í dómsskjölum er augljóst að hefja eigi rannsókn. Það hafi ekki verið gert í tilfelli Guðjóns, sem svo vill til að er faðir ríkislögreglustjóra. Þess vegna verði Sigríður Björk að segja af sér.