„Nú koma samningamenn atvinnurekenda að samningaborðinu og segja að ef launafólk sætti sig ekki við kaupmáttarrýrnun þá muni Seðlabankinn hækka stýrivexti enn meira! Seðlabankinn er þarna kominn í hlutverk eins konar „launalöggu“ sem bannar eðlilegar launahækkanir,“ skrifar Stefán Ólafsson prófessor og sérfræðingur Eflingar í Kjarnann.
Stefán gagnrýnir vaxtahækkanir Seðlabankans. Og hann hvetur Seðlabankann til að draga til baka umtalsverðan hluta af stýrivaxtahækkuninni til að greiða fyrir gerð kjarasamninga í anda Lífskjarasamningsins sem vel reyndist. Viðeigandi væri að mati Stefáns að fara með stýrivextina niður á svipað ról og nú er í grannríkjum okkar.
Stefán spyr hver sé árangurinn af vaxtahækkunum Seðlabankans. „Verðbólgan var farin að aukast lítillega á seinni hluta síðasta árs en tók svo stökk eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst í febrúar á þessu ári,“ skrifar Stefán. „Mánaðarlegar hækkanir verðlags tvöfölduðust og voru á því róli fram til júlí. Þá dró úr þeim en nú í október jókst verðbólgan á ný um 0,7%. Verðbólgan fór hæst í 9,9% í júlí en er nú í 9,4%. Er það mikill árangur? Nei, varla.“
„Til að skilja hvers vegna aðgerðir Seðlabankans hafa skipt svona litlu við að ná verðbólgunni niður er nauðsynlegt að horfa til þess hverjar helstu orsakir hennar eru,“ skrifar Stefán. „Þær eru einkum tvær: innflutt verðbólga (vegna innrásarinnar í Úkraínu og vegna truflana í aðfangakeðjum í heimshagkerfinu í kjölfar Kóvid) og óvenju miklar hækkanir á íbúðaverði innanlands.“
„Aðgerðir Seðlabanka Íslands hafa engin áhrif á innflutta verðbólgu, hvorki á hernað Rússa né á virkni heimshagkerfisins,“ skrifar Stefán. En hugsanlegt er að þær hafi áhrif á húsnæðismarkaðinn hér heima, og Stefán skoðar það.
„Hugsunin með stýrivaxtahækkun er að hún slái á þenslu í innlenda hagkerfinu með rýrnun kaupgetu sem hægi á umsvifum og létti á þrýstingi á verðlagið,“ skrifar hann. „Ef stærsti hluti innlenda vandans er of mikil eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði (sem hefur hækkað of mikið) þá verður vonin sú að aukinn kostnaður við lántöku fækki þeim sem geta keypt íbúðir. En virkar það?“ spyr Stefán.
Og svarar að svo sé ekki. Þótt greina megi örlítið minni hækkun húsnæðis síðla sumars eftir að framboð húsnæðis jókst þá hefur verðið hækkað á ný síðustu tvo tvo mánuði, en þó minna en áður.
„Ef markmiðið með stýrivaxtahækkun yfir línuna var að fækka mögulegum kaupendum íbúða þá er það eitt og sér mjög ómarkviss aðgerð sem almennt er ekki líkleg til að virka,“ skrifar Stefán. „Það er vegna þess að vaxtakostnaður allra þeirra heimila sem skulda íbúðalán hækkar, en einungis mjög lítill hluti þeirra eru væntanlegir íbúðakaupendur til skemmri tíma. Verulega auknar byrðar eru lagðar á mikinn fjölda fólks sem ekki er að fara að hafa nein áhrif á eftirspurn eftir íbúðum.
Ég hef áður líkt þessum aðgerðum við það að fara á rjúpnaveiðar á skriðdreka. Stór landsvæði eru sprengd og rústuð í þeirri von að tína upp nokkra fugla. Miklu er fórnað fyrir lítið. Fyrst þetta hefur skilað svona litlum árangri hefði mátt sleppa vaxtahækkuninni að hluta eða jafnvel mestu leyti,“ skrifar Stefán.
Grein hans má lesa hér: Seðlabanki á villigötum.