Ætla að einkavæða Fríhöfnina – Starfsmenn verði reknir og fólk afgreiði sig sjálft

Í nálægri framtíð verður hægt að láta okra á sér í Leifsstöð, án allrar aðkomu kaupmanns. Það virðist í það minnsta draumur þeirra sem stýra ríkisfyrirtækinu Isavia. Fyrirtækið, sem er alfarið í eigu ríkisins, hefur þann tilgang að sjá um rekstur flugvalla á Íslandi. Þrátt fyrir það virðist Isavia vera rekið sem harðasta einkafyrirtæki.

Skýrasta merki þess er vafalaust sú staðreynd að Isavia okrar sérstaklega á þeim sem koma til Íslands, vörur eru helmingi dýrari þá en við brottför. Okrið beinist þannig sérstaklega að Íslendingum, sem versla yfirleitt meira í Fríhöfninni á leiðinni heim.

En betur má ef duga skal. Því vilja yfirmenn Isavia einkavæða Fríhöfnina í heild sinni. Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, fullyrðir í viðtali við Viðskiptablaðið að ríkisfyrirtækið væri að „stíga sitt fyrsta ákveðna skref í átt að því að bjóða út Fríhöfnina“. Raunar er búið að ákveða það og eigendur fyrirtækisins, skattgreiðendur, virðast lítið hafa um það að segja. Vinna við útboð sé þegar hafin. Guðmundur Daði segir að eftir ríflega ár muni koma í ljós hvaða einkafyrirtæki muni svo sjá um rekstur Fríhafnarinnar. Þetta er þó ekki kallað einkavæðing heldur að nýr aðili muni taka við rekstrinum.

„Við sáum að það er mikill áhugi meðal aðila á markaðnum að koma að rekstri fríhafnar á Íslandi. Núna erum við að stíga næsta skrefið með forvali til að kanna hvort þessir aðilar uppfylli það hæfi sem við teljum nauðsynlegt og hvort þeir séu tilbúnir að skuldbinda sig til þátttöku í útboðinu,“ segir Guðmundur Daði í Viðskiptablaðinu.

Svo er fullyrt, óháð niðurstöðu útboðsins, að það fyrirtæki muni svo reka stóran hluta þeirra ríflega 200 starfsmanna sem starfa í Fríhöfninni og láta ferðalanga afgreiða sig mest sjálfa. Óljóst er af hverju stjórnendur Isavia framkvæma þetta ekki strax ef þetta er svo hagkvæmt.

Ekki er sennilegt að okrið minnki við þetta. Ekki lækkaði verð í matvörubúðum á Íslandi þó að fólk færi að afgreiða sig sjálft. Gífurlegt okur í Leifsstöð, sem verðkannanir ASÍ votta um, heldur vafalaust áfram. Nema að nú rennur gróðinn ekki eingöngu til ríkissjóðs. Eftir útboð munu eigendur einkafyrirtækisins taka sinn skerf.

Það verður að koma í ljós hvort þessi áform muni skila meiri hagnaði til eigenda Isavia, sem er íslenska þjóðinni. Og svo kemur einnig í ljós hvort sá hagnaður sé þess virði að gera ferðalög flesta aðeins verri en ella.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí