Tvöföldun í fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna í lífskjarakrísunni í fyrra

Gríðarleg aukning varð í fjöldi þeirra sem leituðu til sveitarfélaganna í fyrra. Og þau sem þurftu aðstoð þurftu að þiggja hana lengur. Þetta er skýrt merki um að velferðarkerfin halda ekki í dýrtíðinni, fólk nær ekki endum saman og verður að leita til sveitarfélaganna. Sem er aðstoð til þrautavara, þegar allt annað bregst.

Hér má sjá súlurit yfir heildarframlög sveitarfélaganna vegna fjárhagsaðstoðar frá 1997 til 2022 á verðlagi október 2023:

Þarna sést hvernig fótunum er kippt undan þeim sem standa verst. Frá 2021 til 2022 fjölgaði þeim sem fengu aðstoð úr 6.297 manns í 8.523. Þetta er 35% aukning. En þau sem þurftu aðstoð þurftu hana líka lengur, Meðaltalið var 4,8 mánuðir 2021 en 6,9 mánuðir á árinu 2022. Niðurstaðan var 95% aukin framlög sveitarfélaganna á föstu verðlagi. Annað eins hefur aldrei gerst, eins og sjá má á grafinu. Hrunið 2008 og eftirköst þess er barnaleikur í samanburði.

Ástæðan fyrir þessari aukningu eru margar. Í fyrsta lagi eru stjórnvöld í afneitun gagnvart áhrifum lífskjarakrísunnar. Þau telja pólitíska framtíð sína ráðast af af því hvort þeim takist að sannfæra almenning um að hann hafi það víst fínt, að heimilin hafi aldrei staðið betur og að við séum í miðju góðæri. Stjórnvöld hafa því kosið að mæta ekki þörfum þeirra sem verða undir lífskjarakrísunni. Þetta er mikil breyting frá árunum eftir Hrun þar sem það var þó viðurkennt sem hlutverk stjórnvalda að grípa þau sem féllu gegnum öryggisnet samfélagsins. Það var kannski ekki gert, en það var viðurkennt sem hlutverk stjórnvalda að grípa þau sem féllu.

Í öðru lagi eru grunnkerfin orðin götóttari. Fólk sem hefur verið á endurhæfingarlífeyri lendir í tómarúmi á eftir, þarf að bíða tekjulaust eftir örorkumati. Ef það fær höfnun fær það ekki atvinnuleysisbætur. Fólk fellur á milli kerfa, er skilið eftir.

Þau sem leita til sveitarfélaga fá lægri framlög en duga fyrir framfærslu. Það þarf þá að leita til hjálparsamtaka, bíða í langri röð eftir matargjöfum. Í fyrra var meðalgreiðslan til heimila um 201 þús. kr. á mánuði á núvirði, 11.500 kr. lægri en hún var tveimur árum fyrr. Þessi framlög eru miklu lægri en örorku- og ellilífeyrir eða lágmarkslaun, sem þó er almennt viðurkennt að enginn geti lifað af.

Miðað við tölu Hagstofunnar þáðu 8.523 heimili aðstoð sveitarfélaga í fyrra sem gerir um 4900 hverju sinni, það er þegar fjöldanum er deilt í þann tíma sem fólk þiggur aðstoð að meðaltali. Ári fyrr var sambærilegur fjöldi um 2500. Sá hópur sem hverju sinni er á fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna hefur því næstum tvöfaldast milli ára. Árið í fyrra var því svart ár að þessu leyti og ekkert bendir til annars en að ástandið í ár hafi enn versnað.

Börn búa á tæplega 2600 heimila sem fengu fjárhagsaðstoð í fyrra.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí