„Lögreglan mætir fyrirvaralaust heim til fólks og frelsissviptir það, setur hluta fjölskyldunnar í gæsluvarðhald og heldur öðrum fjölskyldumeðlimum nauðugum, fyrst á heimilinu, síðan á felustað sem fannst, og núna á flugvellinum!“ skrifar Sema Erla Serdar á Facebook síðu sína í kvöld en fréttir herma að lögreglan hafi nú ítrekað haft afskipti af fólki allt niður í barnsaldur sem fær synjun á umsóknir sínar um alþjóðlega vernd.
„Allt til þess að brottvísa þeim á götuna í Grikklandi áður en aðalmeðferð í máli þeirra gegn íslenska ríkinu á að fara fram þann 18. nóvember næstkomandi,“ skrifar Sema áfram. „Með brottvísuninni kemur íslenska ríkið í veg fyrir að Hussein, sem er bundinn við hjólastól og þarf aðstoð við allar daglegar athafnir, geti sótt þingstað og sagt skýrt og satt frá sinni upplifun. Það vilja íslensk stjórnvöld alls ekki að gerist og því er Hussein sendur til Grikklands, án hjólastóls, þar sem hann mun enga heilbrigðisþjónustu fá. Þetta er meðferð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur á flóttafólki í sérstaklega viðkvæmri stöðu!”
Í dag eru þrír skjólstæðingar Helga Þorsteinssonar Silva lögmanns í gæsluvarðhaldi á Hólmsheiði en niðurstaða endurupptökunefndar í málum þeirra er handan við hornið að sögn lögmannsins. Annar skjólstæðingur Helga hafði betur í sínu máli fyrir Héraðsdómi þann 13. október og er endurupptökunefnd gert að taka upp mál hans. Telur Helgi það mál vera fordæmisgefandi sambærilegt við mál þeirra sem sitja nú inni á Hólmsheiði ásamt málum hundruð annara.
Þá hefur kærunefnd útlendingamála staðfest synjun á efnismeðferð og ákvörðun á brottvísun 18 barna til Grikklands frá því í maí á þessu ár og var lögregla kölluð til í sextán tilfella. Þetta kom fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um brottvísanir barna til Grikklands á Alþingi nýverið.
Í svarinu kom einnig fram að dómstólar á Íslandi hafi þegar staðfest mat Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála á því að aðstæður flóttamanna á Grikklandi séu viðunandi og því sé ekkert því til fyrirstöðu að senda börn sem áður hafa hlotið alþjóðlega vernd þar í landi til baka.
Rauði krossinn hefur ítrekað gagnrýnt aðstæður flóttafólks á Grikklandi og að þær séu ekki viðunandi fyrir börn og fólk í viðkvæmri stöðu. Útlendingastofnun sendi ekki fólk aftur til Grikklands árin 2020 og 2021 vegna Covid faraldursins en hefur nú snúið af þeirri ráðstöfun þar sem opnað var fyrir flestar landamærahindranir í maí. Þá hefði mátt ætla að í málum þeirra sem hér hafa dvalið til langs tíma á Íslandi sökum ferðahindrana í faraldrinum yrði brottvísun felld alfarið niður eða að um það mikla breytingu væri að ræða á málum þeirra að endurupptökunefnd tæki málin til efnislegrar umfjöllunar.
Þá hefur Margrét Gauja Magnúsdóttir, deildarstjóri ungmennahúsa Hafnarfjarðar sagt frá því í viðtali við RÚV að lögregla hafi mætt þangað snemma í gærmorgun í leit að ungum manni. „Við opnum hérna klukkan níu, þeir voru mættir hérna 9:30 og þeir voru greinilega í einhverjum eltingaleik,“ hefur fréttastofan eftir Margréti.
Hún segir mörgum hafi verið brugðið þegar lögreglan kom en maðurinn sem leitað var af sé 21 árs gamall fastagestur í húsinu sem sé virkur í starfinu, dýrkaður og dáður. Margrét Gauja segist ekki hafa boðið í það hefði hann verið í húsinu því þá hefði þurft að veita ansi mörgum börnum áfallahjálp. Óvíst er enn hvort ungi maðurinn hafi verið handtekinn og settur í gæsluvarðhald á Hólmsheiði en það lítur út fyrir að um einhverskonar rassíu sé að ræða hjá lögreglunni.
Myndin er af Facebook-síðu Semu Erlu Serder, sýnir þegar lögreglan handtók Hussein, sem bundinn er við hjólastól.