Meðal annars vegna framboðs Guðlaugs Þórs Þórðarsonar til formanns Sjálfstæðisflokksins var mikið rætt um vægi flokksins í samfélaginu á landsfundi. Heyra mátti ljúfsáran söknuð eftir þeim tíma að flokkurinn var ráðandi í umræðu meðal almennings. Ætla má að það sé aðeins um þriðjungur þess sem var fyrir 40 árum.
Við getum búið til einfalt reikningsdæmi til að lýsa þessari þróun.
Fyrir fjörutíu árum voru 155 þúsund manns á kosningaaldri, þar af um 2% ekki með íslenskan ríkisborgararétt og þar af leiðandi ekki með kosningarétt. Í kosningunum fyrir og eftir þann tíma var kosningaþátttaka um 89%. Virkir pólitískt voru því 135 þúsund manns og af þeim sögðust iðulega um 50% styðja Sjálfstæðisflokkinn í skoðanakönnunum, um 67.600 manns, 44% fullorðins fólks á landinu.
Í dag eru um 295 þúsund manns á kosningaaldri, þar af um 20% ekki með kosningarétt. Kosningaþátttaka hefur verið um 80% undanfarið. Virkir pólitískt er því um 189 þúsund manns og af þeim segjast í könnunum um 23% styðja Sjálfstæðisflokkinn í skoðanakönnunum, rúmlega 43.400 manns, tæplega 15% fólks á kosningaaldri.
Það er mikill munur á afli flokksins í kaffitímum og fermingarveislum þegar 44% sem þar eru stödd styðja flokkinn eða hvort hlutfallið er 15%.