Skrifað með stórum rauðum stöfum þvert yfir vegg IKEA dreifingarmiðstöðvarinnar í Spanaway í Washington fylki segir: „Betra daglegt líf fyrir hin mörgu”. En fyrir marga starfsmenn miðstöðvarinnar, á annað hundrað meðlimi Teamsters verkalýðsfélagsins sem sér svæðinu fyrir sænskum húsgögnum, eru þetta aðeins innantóm orð. Í nóvember samþykkti starfsfólkið einróma að fara í verkfall til að bregðast við ákvörðun fyrirtækisins sem mun án efa halda mörgum þeirra föstum í viðjum fátæktar.
IKEA er sannkallaður Golíat á heimsvísu og fyrirtækið vill gjarnan koma fram sem framsækinn atvinnurekandi gagnvart almenningi á meðan það heldur launum starfsmanna sinna niðri. Þetta er ekki eitthvað sem fyrirtækið gerir í heimalandinu Svíþjóð, þar sem yfirgnæfandi meirihluti vinnuaflsins er skipulagður í verkalýðsfélögum.
En í Spanaway, sem staðsett er í bakgarði Seattle borgar, vill IKEA hins vegar draga úr rauntekjum starfsmanna sinna með því að leggja til „hækkanir“ sem eru innan við helmingur af verðbólgu. Hækkun sem er í raun ígildi launalækkunar vegna hárrar verðbólgu sem ríkir í Bandaríkjunum líkt og í Evrópu.
Tvær vinnur til að greiða reikningana
„Ég hætti í betur launuðu starfi til að vinna hér vegna þess að ég vildi vera í öðru umhverfi og þeirri fjölskylduvænu menningar sem IKEA segist standa fyrir,“ sagði Nichoelas Pederson, sem hefur starfað sem þjálfari hjá fyrirtækinu í yfir 10 ár. „Í raun og veru standa þeir ekki undir eigin áróðri. Ég vinn aðra vinnu bara til að borga reikningana. Hérna snýst allt um tölurnar og þeim er sama um fólk.“
Með hagnað upp á tæplega 13 milljarða evra árið 2021 hefur IKEA gnótt fjármuna til að fjárfesta í verkefnum sem fyrirtækið trúir á. Í samstarfi við Rockefeller Foundation hafa fyrirtækin fjárfest milljarði til að byggja upp endurnýtanleg orkukerfi í löndum eins og Indlandi og Eþíópíu. Þrátt fyrir orðin sem prýða veggi IKEA virðist fyrirtækið ekki trúa á að borga starfsmönnum sínum, sem skapa hinn gríðarlega hagnað, mannsæmandi laun.
Afstaða IKEA ætti ekki að koma algjörlega á óvart. Í gegnum árin hafa komið upp mörg hneykslismál tengd grænþvotti, verðmismunun, og ólöglegri timburvinnslu í Úkraínu svo dæmi sé tekið. Kjaradeila fyrirtækisins í Kanada árið 2012 gefur líka nokkrar vísbendingar. Í stað þess að hækka laun starfsmenn í verslun í Bresku Kólumbíu, lokaði IKEA meðlimi Teamsters Local 231 verkalýðsfélagsins úti í nærri tvö ár og fékk afleysingarstarfsmenn til að brjóta stéttarfélagið á bak aftur. Verkbannið stóð í 527 daga. Að lokum sigruðu starfsmennirnir og IKEA neyddist til að greiða skaðabætur.
Að fara í verkfall
Verkafólkið sem rekur Spanaway vöruhúsið hefur fengið nóg og neitar að beygja sig undir vilja stórfyrirtækisins. Atkvæðagreiðsla um verkfallsheimild kemur í kjölfar margra mánaða tímabils á útrunnum samningi og samningaviðræðna sem hafa skilað litlum sem engum árangri.
„Félagsmenn okkar hafa sent skýr skilaboð til IKEA um að þeir muni ekki lengur sætta sig við tillögur um fátæktarlauna,“ sagði John Scearcy, gjaldkeri Teamsters 117. „Verkfall er yfirvofandi ef fyrirtækið heldur áfram á sömu braut og neitar að viðurkenna mikilvægi vinnuaflsins.“
Fyrir vöruhúsastarfsmenn í Washington fylki er auglýsingaherferð IKEA um fátækt aðeins til að strá salti í sárið . „Þetta er kjaftshögg,“ sagði David Foster, starfsmaður í Spanaway miðstöðunni sem býr í húsnæði niðurgreiddu af fylkinu . „Þeir segjast vilja binda enda á fátækt, en launin sem þeir leggja til munu ekki einu sinni dekka bensínið sem ég þarf til að komast í vinnuna.“