Vilja sérstakt greiðslumat fyrir lágtekjufólk

Húsnæðismál 16. nóv 2022

„Einn möguleiki til að tryggja fólki öruggt húsnæði væri að útbúa sértækt greiðslumat fyrir fólk með allra lægstu tekjurnar,“ segir í umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um tillögu til þingsályktunar um að greiðslumat taki mið af greiddri húsaleigu.

Þingsályktunartillagan er lögð fram af þingflokki Viðreisnar. Lagt er til að Alþingi álykti að fela fjármála- og efnahagsráðherra að gera nauðsynlegar breytingar á reglugerð um lánshæfis- og greiðslumat til að auðvelda fólki á leigumarkaði að kaupa sér íbúðarhúsnæði til eigin nota.

ÖBÍ fagna því að fram sé komin tillaga sem miðar að því að tekjulágt fólk geti staðist greiðslumat til að kaupa húsnæði. „Það greiðslumat sem flestar fjármálastofnanir bjóða, gerir lágtekjufólki ómögulegt að standast það,“ segir í umsögn ÖBÍ. „Fólk sem á til að mynda eignir en er með litla framfærslu kemst ekki í gegnum greiðslumat fjármálastofnana. Það er því mikilvægt að tekið sé tillit til greiðslusögu fólks á leigumarkaði við gerð greiðslumats.“

Síðan er bent á að húsnæðiskostnaður er stór hluti útgjalda fatlaðs fólks. Og að samkvæmt 11. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna eigi allir að hafa kost á fullnægjandi og öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði.

„Einn möguleiki til að tryggja fólki öruggt húsnæði væri að útbúa sértækt greiðslumat fyrir fólk með allra lægstu tekjurnar,“ segir í umsögninni. „Slíkt greiðslumat yrði að vera byggt á öðrum sjónarmiðum en byggt er á í núverandi kerfi. Finna yrði út greiðslugetu lántakanda heildstætt og gæti einn liður í því verið að taka tillit til greiddrar húsaleigu undanfarið ár. Lánið yrði að vera til lengri tíma með lægri eignamyndun en um leið veitti það öryggi sem fæst með því að búa í eigin húsnæði. Hlutdeildarlánin hafa sýnt sig að henta ekki lágtekjufólki heldur eru frekar hugsuð fyrir fólk sem á von um bættari hag.“

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí