Spænska samkeppniseftirlitið leggur metháa sekt á Booking.com vegna einokunarstöðu

Spænska samkeppniseftirlitið hefur sektað fyrirtækið Booking.com um metháa upphæð eða 413 milljónir evra, sem jafngildir 62 milljörðum króna. Fyrirtækið var sektað þar sem það þótti hafa misnotað markaðsstöðu sína á Spáni og drekkt samkeppnisaðilum. Borgaryfirvöld í Barselóna bönnuðu nýverið skammtímaleigu til ferðamanna innan næstu fimm ára, þar með talið fyrirtæki eins og AirBnB. Velta má því upp hvort ekki sé tilefni til svipaðra aðgerða hér á landi.

„Þess­ir viðskipta­hætt­ir hafa haft áhrif á hót­el á Spáni og aðrar ferðaskrif­stof­ur á net­inu sem keppa við fyr­ir­tækið. Skil­mál­ar og skil­yrði [Book­ing.com] skapa órétt­látt ójafn­vægi í viðskipta­samn­ing­um við hót­el á Spáni,“ seg­ir í yf­ir­lýs­ingu sam­keppnis­eft­ir­lits­ins hins spænska. Þetta kemur fram í frétt á mbl.is.

Booking.com er talið hafa allt frá 70-90% markaðshlutdeild á Spáni og því í gríðarlegri einokunarstöðu, sem fyrirtækið er einmitt sakað um að hafa misnotað sér í hag og því er það sektað.

Nú má velta fyrir sér útfrá samkeppnislögum og eftirliti hér á landi, hvort ekki sé talin ástæða til að beita álíka refsingum til að draga úr vægi fyrirtækja eins og AirBnB.

Skammtímaleigumarkaðurinn hér á landi hefur verið títt ræddur, enda gríðarlega eyðileggjandi afl fyrir innlendan leigumarkað, þar sem fasteignaeigendur og fjárfestar geta grætt langtum meira á skemmri tíma við útleigu til skamms tíma í senn til ferðamanna, heldur en til almennra leigjenda. Þá ýtir sá markaður leiguverðum upp, bæði með tilliti til aukins skorts sem hann býr til, en líka þar sem leigjendur þurfa að borga hærri verð til að réttlæta skynjaðan tekjumissi leigusala á því að vera ekki með eignir sínar í skammtímaleigu.

Vangaveltan er þó sú hvort að fyrirtækið AirBnB sem vettvangur fyrir slíka skammtímaleigu hafi nær allsráðandi markaðsstöðu og hlutdeild hér á landi, enda fáir ef nokkrir aðrir slíkir vettvangar til fyrir almennt íbúðahúsnæði. Það er meðal annars vegna þess að auðveldara er að svindla á lögum með því að skrá eignir sínar á AirBnB, enda lítið sem ekkert eftirlit með því hér á landi. HMS hefur meðal annars lýst því að allt að þúsund íbúðir sem skráðar eru á AirBnB hér á landi gerist brotlegar við lög þar sem þær leigja í lengur en 90 daga samtals á ári.

Í það minnsta er AirBnB sýnilega vinsælasti vettvangurinn fyrir skammtímaleigu. Því er spurning hvort Samkeppniseftirlitið þurfi ekki að fara að fordæmi hins spænska og skoða hvort að hlutdeild og einokunarstaða AirBnB sé með álíka móti og fyrirtækisins Booking.com á Spáni hvað varðar hefðbundnari bókanir á hótelum og gististöðum. Sömuleiðis mættu borgar- og bæjaryfirvöld hér á landi huga að fordæmi borgaryfirvalda í Barselóna og hugað að banni á markaðinum yfirhöfuð í ljósi skaðans sem hann veldur íbúum landsins.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí