Héraðsdómur kvað upp dóm í dag í máli fatlaðst manns Hussein Hussein sem og komst að þeirri niðurstöðu að brottvísun hans væri ólögleg. Álit umboðsmanns Alþingis hefur ekki skilað sér inn í stjórnkerfið.
Þann 3. nóvember sl. var fimmtán einstaklingum sem hér höfðu sótt um alþjóðlega vernd vísað frá landi og þeim komið í flug til Grikklands í lögreglufylgd. Aðfarir lögreglunnar við handtökur og flutning var gagnrýndur harkalega en til stóð að senda 28 manns aftur til Grikklands. Fólkið kom upphaflega frá stríðshrjáðum löndum svo sem Afganistan, Írak, Palestínu eða Sýrlandi en lögreglan fann ekki hátt í helming hópsins. Hussein og fjölskylda hans ásamt mörgum öðrum úr þessum hópi biðu enn eftir niðurstöðu kærunefndar útlendingamála og héraðsdóms þegar brottvísunin átti sér stað en 15 manns fóru um borð í vélina ásamt 41 lögreglumanni.
Myndbandsupptaka af handtöku Hussein þar sem hann var tekinn með valdi úr hjólastól og færður á lögreglustöð vakti mikil viðbrögð og gagnrýndu samtök fatlaðs fólks m.a. aðfarirnar. Systur hans voru sóttar í fjölbrautaskólann við Ármúla þar sem þær stunduðu nám en móðir hans og þrjú systkyn voru einnig send til Grikklands.
Hafa þau dvalist við óboðlegar aðstæður á Grikklandi síðan þá en þar hafa þau glímt við húsnæðisskort og skort á almennum nauðsynjum ásamt því að vera synjað ítrekað um heilbrigðisþjónustu.
Um helgina kom fjölskyldan aftur til Íslands en eftir úrskurðinn í máli Husseins í dag féll einnig dómur í máli móður hans Maysoon Al Saedi, systranna, Zahraa og Yasameen og bróður hans, Sajjad og var var niðurstaðan í þeirra málum sú sama: Gagnstætt yfirlýsingum útlendingastofnunar og lögreglunnar var stjórnvöldum óheimilt að vísa þeim úr landi.
Fjölskyldan kom aftur hingað til lands um helgina en Claudia Wilson lögmaður fjölskyldunnar sagði í viðtali við Kjarnann í dag að forsendur dómanna væru þær að íslenska ríkinu hafi verið óheimilt að gera fjölskyldurnar ábyrgar fyrir því að hafa valdið töfum á flutningi þeirra frá Íslandi. Málið hafi einnig mikið fordæmisgildi fyrir sambærileg mál.
„Forsendur dómanna er sú að umbjóðendur mínir báru ekki ábyrgð á töfum í máli þeirra, annars vegar þar sem ósannað var að þau hafi stuðlað að töfum og jafnvel þó fallist hefði verið á slíkt hafi þær tafir hins vegar verið óverulegar, þar sem stjórnvald hafi þegar tafið mál þeirra sjálf í 11 mánuði og 16 daga,“ segir Claudia.
Úrskurðir kærunefndar útlendingamála falla úr gildi með dómunum en það á eftir að koma í ljós hvort Útlendingastofnun áfrýi þeim eða uni niðurstöðunum og taki málin til efnislegrar meðferðar.
Í áliti umboðsmanns Alþingis vegna máls nr. 9722/2018 má finna sambærilega niðurstöðu vegna synjunar um alþjóðlega vernd á þeim forsendum að viðkomandi hafi borið ábyrgð á töfum á afgreiðslu synjunarinnar.
Í niðurstöðu álits umboðsmanns segir: „Það eru tilmæli mín til kærunefndar útlendingamála að hún taki mál A til meðferðar að nýju, komi fram beiðni þess efnis frá honum, og leysi þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem hafa verið rakin í álitinu. Jafnframt beini ég því til nefndarinnar að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem koma fram í álitinu.”
Slík tilmæli umboðsmanns hafa augljóslega ekki ratað inn í stjórnkerfið með þeim afleiðingum að fjölskyldan ásamt öðrum ótöldum umsækjendum um alþjóðlega vernd hafa verið sendir aftur til upprunalands á forsendum Dyflinarreglugerðar.
Solaris-hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi hafa fylgst með stöðu Hussein fjölskyldunnar og málarekstursins hér heima og hefur Sema Erla Serdar flutt reglulegar fregnir af afdrifum hennar á FB síðu sinni en málsmeðferð vegna brottrekstrarins hófst þann 18. nóvember. Til stóð að flytja Hussein aftur hingað til lands á þeim tíma til þess að bera vitni í málinu en að endingu fór slíkt fram í gegnum fjarfundarbúnað.
Vegna þeirrar miklu gagnrýni sem yfirvöld, dómsmálaráðherra, Útlendingastofnun og lögreglan hlaut í kjölfar málsins var ákveðið að stofna ráðherranefnd um flóttamannamál þar sem fulltrúar þessara stofnana ásamt fulltrúum ÖBÍ réttindasamtaka og Þroskahjálpar myndu hittast og ræða stöðu fatlaðs fólks á flótta. Nefndin hefur átt tvo fundi síðan hún kom saman fyrst þann 11. nóvember.
Myndin er af handtöku Hussein Hussein í aðdraganda þess að hann var fluttur nauðugur úr landi með fjölskyldu sinni.