Efling segir ráðherra beita blekkingum til að fegra og ýkja framlag sitt

Verkalýðsmál 15. des 2022

Yfirferð Eflingar á kjarapakka ríkisstjórnarinnar sýnir að þar er fátt sem sýnist. Ráðherrarnir kynntu eðlilegar verðbætur sem raunhækkun bóta, í sumum tilfellum duga þær ekki til að verja bæturnar fyrir verðbólgu. Efling segir sorglegt að sjá að ríkisstjórnin beiti blekkingum til að fegra og ýkja framlag sitt.

Ríkisstjórnin kynnti aðgerðir til að greiða fyrir kjarasamningum á almennum markaði í kjölfar undirritunar verslunar- og iðnaðarmanna á samningi við Samtök atvinnulífsins, sem gerður var innan þess ramma sem varð til eftir að Starfsgreinasambandið samdi við SA. Þessar aðgerðir snúast einkum um hækkun barnabóta og aukinn húsnæðisstuðning, eins og raunar hafði verið boðað er ríkisstjórnin lagði fram tillögu að fjárlögum fyrir næsta ár.

Þessar aðgerðir eru kynntar sem mikilvægar kjarabætur, sem einkum muni gagnast tekjulágum og millitekjuhópum. „Ekki er þó allt sem sýnist,“ segir í greinargerð Eflingar. „Hækkun barnabóta dugar ekki til að halda verðgildi barnabóta eins og þær voru við undirritun Lífskjarasamningsins árið 2019. Aukin framlög til húsnæðisstuðnings eru lítil í samanburði við hversu mikið ríkið hefur tekið út úr húsnæðisstuðningi á síðustu árum. Þetta verður sýnt nánar í því sem hér á eftir fylgir.“

„Á heildina litið valda þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar vonbrigðum,“ segir í greinargerð Eflingar. „Stærðargráðan er hvergi nærri fullnægjandi í ljósi undanhalds velferðarkerfisins á síðustu árum og vaxandi þrenginga láglaunafólks. Sorglegt er að sjá að ríkisstjórnin beitir blekkingum til að fegra og ýkja framlag sitt.“

Hér er greinargerð Eflingar:

Barnabætur rýrna að verðgildi – þrátt fyrir boðaða hækkun

Í tengslum við undirritun Lífskjarasamningsins voru barnabætur hækkaðar um 5% samhliða því að skerðingar hjá lægri millitekjuhópum voru auknar. Síðan lét fjármálaráðuneytið ógert að láta barnabætur fylgja verðlagi árin 2020 og 2021 og loks fyrr á þessu ári voru þær hækkaðar um 5,8%, sem þó dugði hvergi nærri til að verðbæta þær að fullu fyrir árin 2020 til 2022. Þetta má sjá á myndinni hér að neðan.

Hækkun grunns barnabóta og verðlags frá 2019 til 2022.

Verðlag hækkaði um 21,4% á tíma Lífskjarasamningsins en á sama tíma hækkuðu barnabætur um minna en helming af því, eða um 10,8%. Þær rýrnuðu því umtalsvert að raungildi. Kaupmáttur þeirra minnkaði.

Áætlað er að sú hækkun sem nú er kynnt sem framlag til kjarasamninga komi að fullu fram á tveimur árum, þ.e. taki ekki gildi að fullu fyrr en á árinu 2024. Þó að sú hækkun kæmi að fullu til greiðslu í janúar næstkomandi (2023) þá myndi hún í flestum tilvikum samt ekki duga til að halda verðgildi barnabótanna frá því sem var árið 2019. Þetta kemur fram í meðfylgjandi töflu.

Þar er sýnt hversu mikið er greitt nú í barnabætur með hverju barni, hjá hjónum og einstæðum foreldrum og viðbætur sem greiddar eru með börnum yngri en 7 ára. Þá er sýnt hversu mikið fólk væri að fá nú ef bæturnar hefðu verið verðbættar að fullu á síðustu árum og loks er það borið saman við boðaða hækkun frá og með árinu 2024. Útkoman sýnir að þrátt fyrir boðaða hækkun mun kaupmáttur barnabótanna rýrna en ekki aukast frá því sem var við undirritun Lífskjarasamningsins árið 2019.

FjölskyldaBætur
í dag
Bætur frá 2019Boðuð hækkunRaun-breyting
Hjón með barn248.000301.072310.0008.928
Hjón með >1 barn295.000358.130310.000-48.130
Einstæðir með barn413.000501.382460.000-41.382
Einstæðir með >1 barn423.000513.522460.000-53.522
Viðbót með <7 ára148.000179.672130.000-49.672

Upphæð barnabóta nú, verðbættar bætur frá 2019 og boðuð hækkun frá og með 2024

Raunlækkanir upp á tugi þúsunda – enn meiri rýrnun í kortunum

Jafnvel þótt boðuð hækkun kæmi strax til greiðslu þá myndi hún ekki duga til að halda verðgildi bótanna í flestum tilvikum. Vegna kerfisbreytingar (einföldunar) verður framvegis greitt minna með hverju barni umfram eitt og einnig verður viðbót sem greidd hefur verið með yngri börnum lækkuð.

Þetta þýðir að raungildi (kaupmáttur) barnabótanna lækkar um 48.000 krónur á ári fyrir hvert barn hjóna umfram eitt og hjá einstæðum foreldrum lækka bætur allra barna að raungildi um 41.382 til 53.552 kr. á ári (dálkur 4 í töflunni). Þau sem eru með börn undir 7 ára ári fá raunlækkun fyrir hvert barn sem nemur 49.672 krónum á ári.

Þetta væri útkoman ef boðuð hækkun kæmi til framkvæmda í janúar næstkomandi. En hún kemur ekki að fullu fram fyrr en í janúar 2024. Þá mun þessi boðaða hækkun hafa rýrnað enn frekar um það sem nemur væntri verðbólgu á næsta ári (6% samkvæmt flestum spám). Útkoman verður því enn verri en sýnt er í töflunni.

Skerðingar auknar hjá þeim tekjulægstu

Skerðingar barnabóta munu áfram hefjast við lágmarkslaun á vinnumarkaði, sem er óvenjulegt meðal OECD-ríkja. Því munu fáir fullvinnandi foreldrar fá ofangreindar óskertar bætur til fulls. Sú breyting sem er boðuð á skerðingarhlutföllum felur hins vegar í sér að skerðingar aukast hjá fólki sem er með laun frá lágmarkslaunum og upp í 500.000 kr. á mánuði, en skerðingar hjá fólki sem er með meira en 500.000 kr. í tekjur minnka. Sú aukning skerðinga sem kom á þann hóp árið 2019 er því dregin til baka nú. Greiðslur munu því aukast aðeins til þeirra hópa (einkum lægri millitekjuhópa). Hjón sem eru með eitt eða fleiri börn munu þó fá aukna skerðingu þegar laun þeirra fara upp fyrir lágmarkslaun.

Skerðingin hjá þeim fer úr 4% í 5%. Þetta er því ekki raunveruleg kjarabót fyrir lágtekjuhjón frá því sem var við undirritun Lífskjarasamningsins, né heldur fyrir einstæða foreldra eða foreldra barna undir 7 ára aldri.

Sagt er að barnabætur muni verða 5 milljörðum hærri „en fengjust úr óbreyttu kerfi árið 2024”. Núverandi kerfi hefur að stórum hluta verið óverðbætt svo þarna er verið að mæla boðaðar hækkanir á móti því sem orðið hefði ef rýrnun hefði haldið áfram óhindrað til ársins 2024. Þetta þýðir því ekki raunverulega hækkun útgjalda til barnabóta um 5 milljarða, heldur talsvert minna. Þetta mun sýna sig í endanlegum fjárlögum fyrir árið 2023 og síðan í fjármálaáætlun næsta vor.

Brellur í stað kjarabóta

Það munu því einhverjir fá hækkun barnabóta, einkum lægri millitekjuhópar (fólk á meðaltekjum fær sjaldnast barnabætur hér á landi), en sú hækkun dugir þó í fæstum tilvikum til að verðbæta barnabæturnar að fullu frá 2019 – og flestir munu fá lækkun á kaupmætti barnabótanna. Verðbólga á næsta ári mun rýra boðaða hækkun enn frekar. Að kynna þetta sem kjarabætandi framlag til kjarasamninga fyrir lágtekjufólk er því blekkingarbrella.

Benda má að auki á nýlegar upplýsingar um hversu ófullnægjandi barnabætur eru á Íslandi í samanburði við önnur OECD-ríki í Kjarafréttum Eflingar nr. 1 (sjá heimasíðu Eflingar), bæði fyrir hjónafólk og einstæða foreldra.

Verða fleiri íbúðir byggðar?

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru endurtekin loforð sem innviðaráðherra hefur áður gefið út um samkomulag við sveitarfélög um uppbyggingu 35.000 nýrra íbúða. Ekkert nýtt er í því og erfitt að meta hverju þetta muni skila í reynd. Útgjöld til stofnframlaga verða samkvæmt yfirlýsingunni aukin, umfram það sem var í fjárlögum, þannig að þar mun ekki koma til rýrnunar vegna verðbólgu (eins og áður virtist stefna í).

Hækkun húsaleigubóta – án leiguþaks eða leigubremsu

Húsaleigubætur (kallaðar húsnæðisbætur) eru hækkaðar um 13,8%, til viðbótar við 10% hækkun fyrr á árinu. Þær munu því halda verðgildi sínu og gott betur. Meðaltal greiddra húsaleigubóta var 36.800 krónur í október síðastliðnum. Það munu því hækka upp í 41.878 kr. sem er til bóta. Hins vegar eru húsaleigubætur enn alltof lágt hlutfall meðalleigu á höfuðborgarsvæðinu, eða innan við 20%.

Þá er ekkert sagt um innleiðingu leiguþaks eða leigubremsu. Hætt er við að hækkun húsaleigubóta án leiguþaks og leigubremsu muni auðvelda leigusölum frekari hækkun leigu, þannig að hækkun húsaleigubóta renni endanlega í vasa þeirra. Regluverk leigumarkaðarins verður því áfram verulega ófullnægjandi, sem bitnar einkum á tekjulægstu hópunum.

Óvíst um kjarabætur vegna hækkunar vaxtabóta

Vaxtabótakerfið hefur verið eyðilagt fyrir flesta íbúa höfuðborgarsvæðisins á síðasta áratug. Þeim sem hafa fengið einhverjar vaxtabætur hefur fækkað mikið á hverju ári og upphæðin lækkað verulega. Á sama tíma hefur þörfin fyrir þær stóraukist með hækkandi íbúðaverði, eins og meðfylgjandi mynd sýnir.

Lækkun vaxtabóta og hækkun íbúðaverðs 1998 til 2021. Heimild: Kjarafréttir Eflingar nr. 2.

Þetta gerðist einkum vegna þess að fjármálaráðuneytið hirti ekki um að uppfæra eignaskerðingarmörk í vaxtabótakerfinu, né önnur viðmið þess. Því hefur kerfið hrunið. Nú er boðað að hækka eignaskerðingarmörkin um 50%. Það virðist umtalsverð hækkun og stefnubreyting frá því sem verið hefur.

Hins vegar er óvíst hversu miklu þetta muni skila og til hverra. Reglur um hámark greiddra vaxtabóta eru í dag þær sömu og var árið 2019. Þær hafa því ekki verið verðbættar, eins og margt annað í velferðarkerfinu. Það er því óvíst hvaða kjarabætur muni fást af þessari hækkun eignaskerðingarmarka, en væntanlega munu þær þó færa kerfið skref í rétta átt.

Úttekt sparnaðar nýtist mest tekjuhærri

Heimild til nýtingar séreignasparnaðar til kaupa á íbúðarhúsnæði er framlengd til 2024. Þetta úrræði nýtist mest tekjuhærri hópum, eins og hagdeild ASÍ hefur sýnt. Lágtekjufólk býr áfram við ófullnægjandi stuðning til íbúðakaupa, enda hefur hlutfall Eflingarfélaga sem búa í leiguhúsnæði stóraukist á síðustu árum, úr 32% árið 2017 í 47% árið 2022.

Athugasemdir Eflingar eru á vef félagsins: Einstaklega léttvægt framlag ríkisstjórnarinnar til kjarasamninga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí