Fötluðu fólki gert að lifa á 25% lægri tekjum en lágmarkslaunum

Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður ÖBÍ réttindasamtaka fagnar í dag en frítekjumark örorku- og endurhæfingarlífeyristaka vegna atvinnutekna hefur ekki verið hækkað í 14 ár þar til nú þegar frítekjumarkið hækkaði úr 110 þúsundum í 200 þúsund krónur á mánuði. Telur hún það vera hvata fyrir fólk sem hefur tækifæri og getur farið á vinnumarkað að hluta til, til þess að reyna fyrir sér þar en um 28% örorkulífeyrisþega stundar einhverja atvinnu.. Þuríður minnir jafnframt á að það þurfi að gæta þess að örorkulífeyrir haldi í við lágmarkslaun.

Þá sé eingreiðsla til fatlaðs fólks nú í höfn. Sextíu þúsund króna skattfrjáls eingreiðsla til öryrkja var samþykkt í gær en henni var upphaflega ætlað að bæta hag öryrkja í faraldrinum.

Í fyrra var hún 53 þúsund og átti hún fyrst að vera 28 þúsund í ár samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga en var hækkuð í gær á þinginu. Þá var eingreiðslan ekki greidd út fyrr en í lok desember í fyrra en verður nú greidd um eða eftir helgi.

„Þannig að núna nýtist þetta fólki miklu betur” segir Þuríður í viðtali við RUV. „Það er öruggt um að það fær þessa eingreiðslu og það getur þá raunverulega gert ráð fyrir henni.“

Þá fagnar hún einnig því að bráðabirgðarákvæði vegna NPA hafi verið framlengt með 172 fjármögnuðum samningum til ársloka 2024.

Þuríður telur jákvæðar breytingar á barnabótum, vaxtabótum og uppfærðum tekju og eignarmörkum skipta miklu máli, auk aðgerða í húsnæðismálum.

Um leið og hún hrósar félags- og vinnumarkaðsráðherra á FB síðu sinni fyrir vasklega framgöngu í málefnum fatlaðs fólks minnir hún á að í umsögn ÖBÍ réttindasamtaka við drög að fjárlagafrumvarpi ársins 2023 var lögð áherslu á að hækkun örorku- og endurhæfingarlífeyris þann 1. janúar yrði 10% en ekki 6%. Töldu samtökin að þannig myndi nást að halda í við verðbólgu svo bilið milli lífeyris og lágmarkslauna breikkaði ekki strax aftur.

„Við lögðum áherslu á að skerðingu frá fyrstu krónu yrði hætt, þannig að fatlað fólk þurfi ekki að byrja á að borga sig inn á vinnumarkaðinn hafi það tækifæri til að vinna. Í þriðja lagi lögðum við áherslu á að frítekjumark yrði hækkað úr 109.600 kr. í 200.000 kr. Auk þessa lögðum við áherslu á fjármögnun NPA og að bráðabirgðaákvæðið yrði framlengt til tveggja ára. Við lögðum einnig áherslu á mörg önnur mál svo sem húsnæðismál, málefni barna og fjölskyldna, aðgengismál, heilbrigðismál og atvinnu- og menntamál.”

Þuríður segir samtökin fagna þeim aðgerðum sem Alþingi hefur samþykkt til hagsbóta fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyristaka en hvetur um leið stjórnvöld og ríkisstjórnina alla til að endurskoða hækkun örorku-og endurhæfingarlífeyris þannig að hann hækki að minnsta kosti til samræmis öðrum kjarahækknumum sem þegar hefur verið samið um.

„Í dag lifir engin af lágmarkslaunum, Fötluðu fólki er gert að lifa á 25% lægri upphæð! Stjórnvöld eru viðsemjendurnir, þeirra er mátturinn og þeirra verður dýrðin!”

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí