Umsagnartími um tilraunaverkefni Carbfix, að koma mengandi efnum fyrir í jörð og uppræta þau í Hafnarfirði rann út í gær.
Sjötíu umsagnir bárust og má lesa í athugasemdum kröfu um borgarafund og íbúakosningu svo dæmi séu tekin. Hluti íbúa hefur miklar áhyggjur af því að verkefni, sem kynnt var sem umhverfisvænt, kunni að hafa mjög vondar umhverfislegar afleiðingar og ekki síst á neysluvatn Hafnfirðinga. Margir vilja meira samtal og meiri rannsóknir áður en látið verður vaða.
Skipulagsstofnun auglýsti eftir viðbrögðum íbúa vegna umhverfismats og má greina mikla óánægju og tortryggni í athugasemdum þeirra sem mótmæla.
Meira en fimnm þúsund manns hafa nú skrifað undir mótmælaskjal þar sem þess er krafist að verkefninu verði fundinn nýr staður, eða að íbúakosning fari fram um staðsetninguna.
Áætlarnir ganga út á að flytja inn milljónir tonna af koldíoxíði og dæla ofan í jörðina í Straumsvík, innan við kílómetra frá Völlunum.
Carbfix hefur komist á forsíðu National Geographic vegna vonar sem bundin hefur verið við umhverfisvænar lausnir fyrirtækisins út úr mengunarvanda samtímans. Í viðbrögðum frá Carbfix vegna óánægjunnar nú segir:
„Eftir að vinnu lýkur við umsagnir heldur eðlilegt ferli áfram við að kynna niðurstöður og í samvinnu með fulltrúum Hafnarfjarðarbæjar heldur samtalið áfram við samfélagið,“ eftir því sem kemur fram hjá fréttastofu Rúv sem fjallar um málið.