Menningin á Íslandi er stéttskipt og er óhætt að tala um menningarelítu þeirra sem njóta velgengni sem oft eru annarar eða þriðju kynslóða listamenn sem hampa hvorir öðrum í jólavertíðinni.
Rithöfundurinn Berglind Ósk bendir á þetta í bloggi um jólabókaflóðið á vefsíðu sinni berglindosk.is en hún segir „Þetta blasti svo augljóslega við þegar ég las síðasta bókablað Stundarinnar, það var einhvern veginn ekki einu sinni verið að reyna að fela þetta. Í fyrsta lagi er mjög skrýtið að rithöfundur ritstýri bókablaðinu (hagsmunaárekstur, einhver?) en svo sem mjög íslenskt.”
Berglind segir jafnframt að kúltúrbörnin geri sér ekki grein fyrir forréttindunum sem þau fæðast inni í „…að fá leiðsögn frá einhverjum sem þekkir geirann, vera umkringdur „réttu” bókmenntunum (og skoðunum á þeim), tengslin og reddingarnar.”
Þá bendir hún á að Auður Jónsdóttir sem ritstýrir bókablaði Stundarinnar í ár sé barnabarn Halldórs Laxness og að aðalviðtalið í blaðinu sé við Halldór teiknara sem var að gefa út bókina Hvað nú – myndasaga um menntun. Henni finnst spes að gefa þessari bók stærsta plássið og veltir fyrir sér hvort það spili eitthvað inn í að Halldór sé besti vinur fyrrverandi manns Auðar. Þá bendir hún á að að Kamilla Einars gefi pabba sínum, Einari Kárasyni, pláss í bókakokteilnum sínum og hrósar aðalfyrirmynd sinni í lífinu, sjálfri Auði, í pistlinum sínum. Þær fái auk þess báðar mikla athygli í bókmenntaheiminum almennt. Þá bendir Berglind á þriðja viðtalið í blaðinu sem er við þá Ragnar Helga og Kjartan Örn Ólafssyni, en það er um minningu foreldra þeirra sem voru bókaútgefendur. „fallegt viðtal við fólk sem er fætt inn í geirann” segir hún.
Athugasemdir Berglindar eru ekki úr lausu lofti gripnar og eiga við um allar listgreinar sem víxlast oft milli kynslóðanna en eru erfð menningarverðmæti engu að síður. Því til stuðnings má nefna myndlistarmanninn Ragnar Kjartansson en hann er sonur tveggja landsfrægra leikara Guðrúnar Ásmundsdóttur og Kjartans Ragnarssonar og yngri bróðir Sigrúnar Eddu Björnsdóttur leikkonu. Þá má nefna Birtu Guðjónsdóttir myndlistarmann og sýningarstjóra sem er dóttir Guðjóns Ketilssonar myndlistarmanns, feðgana Hring Jóhannesson og Þorra Hringsson myndilstarmenn. Einnig úr hópi myndlistarmanna þá Tuma og Pétur Magnússyni sem báðir eru synir Magnúsar Pálssonar myndlistarmanns og Lord Pusswhip sem er listamannsnafn Þórðar Inga Jónssonar, rappara og pródúsent en hann er sonur myndlistakonunnar Steinunnar Þórðardóttur og sjónvarpsmannsins Jóns Ársæls. Leikarana og leikstjórabörnin Baltasar Breka Samper sem er sonur Baltasars Kormáks og barnabarn myndlistarmannsins Baltasars Samper og Heru Hilmarsdóttir dóttur leikstjórans Hilmars Oddssonar og leikkonunnar Þóreyjar Sigþórsdóttur. Ólaf Egilsson leikara og leikstjóra sem er sonur tónlistarmannsins Egils Ólafssonar og Tinnu Gunnlaugsdóttur leikkonu og fyrrum þjóðleikhússtjóra. Einnig má nefna Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttir leikkonu og rithöfund og dóttur Bríetar Héðinsdóttur, leikkonu en einnig Esther Talíu Casey barnabarn Bríetar Héðinsdóttur og eiginkona Ólafs Egilssonar. Þá eru það Steiney Skúladóttir leik- og tónlistakona dóttir leikaranna og tónlistafólksins Halldóru Geirharðsdóttur og Skúla Gautasonar. Einnig má nefna rithöfundana og listafólkið Þórarinn Eldjárn og Sigrúnu Eldjárn sem bæði eru börn Kristjáns Eldjárns sem einnig gaf út bækur og var forseti þjóðarinnar. Þá eru það þau Krummi og Svala börn Björgvins Halldórssonar stórstjörnu og þær Systur dætur Ellenar Kristjánsdóttur og Eyþórs Gunnarssonar tónlistafólks að ógleymdri leikkonunni Anítu Briem sem er dóttir tónlistarmannsins Gunnlaugs Briem. Björk Guðmundsdóttir okkar skærasta stjarna er auk þess alin upp af tónlistarmanninum Sævari Árnasyni sem gerði með henni plötu sem gerði hana að barnastjörnu á Íslandi á árum áður en í dag eru hennar eigin börn að vinna með henni tónlist.
Hægt væri að telja upp lengri lista en þessi menningarverðmæti sem fylgja afkomendum listafólks eru sjálfsagt að einhverju leyti óhjákvæmileg en engu að síður er það augljós krafa listafólks eins og Berglindar að fjölmiðlar hafi stéttagleraugun á sér þegar fjallað er um listir þrátt fyrir að fólkið sem fætt er inn í svokallaða listaelítu selji smelli og auki lestur.
Í bloggi sínu vísar Berglind Ósk í grein á Guardian þar sem vitnað er í rannsókn sem gerð er af Edinborgarháskóla, Háskólanum í Manchester og Sheffield og birtist í tímaritinu Sociology en þar kemur fram að í Bretlandi hafi hlutfall listamanna sem koma úr verkamannastétt skoppið saman um helming frá árinu 1970 til dagsins í dag. Niðurstöður rannsóknarinnar vekja upp spurningar um hvers vegna þessi fækkun sé að eiga sér stað á sama tíma og tilraunir hafa verið uppi í áraraðir til að opna listaheiminn, inngilda hann og gera hann fjölbreyttari. Fólk sem hafði alist upp í fjölskyldum innan listaheimsins voru fjórum sinnum líklegri til að starfa við listir en þau sem komu úr verkamannastétt og höfðu ekki þennan bakgrunn. Með færri leikstjórum, rithöfundum, lagahöfundum og myndlistarmönnum til að lýsa reynsluheimi þeirra efnaminni virtist fólk fara að óttast stimpilinn „fátæktarklám”
The Guardian hefur einnig eftir Dave O’Brien, prófessor við háskólann í Sheffield sem er einn af höfundum rannsóknarinnar, að þetta sé langvarandi vandamál og að það sé klárlega samhengi milli þeirra sem taka ákvarðanirnar og veita styrkina og þeirra frásagna sem eiga upp á pallborðið hjá þeim. Kvikmynda- og sjónvarpsframleiðendur í Bretlandi eru til dæmis úr frekar einsleitri elítu segir Obrien og birtist slíkt í því efni sem er valið til sýningar hjá BBC. Það veldur því einnig að sigursælir leikarar úr verkamannstétt eins og sjómannssonurinn Gary Oldman, fá færri tækifæri. Hann leikstýrði einni kvikmynd Nil by Mouth sem hlaut einróma lof og þó nokkur verðlaun svo sem Bafta 1997 en hefur þó ekki hlotið fleiri tækifæri til að leikstýra. Sjálfur segir Oldman það ekki stafa af áhugaleysi heldur að elítan vilji ekki aðra mynd í anda Nil by Mouth heldur aðra Four Weddings and a Funeral.
Natasha Carthew, rithöfundur ávarpar þetta vandamál með því að stofna „The Working Class Writers festival” á síðasta ári en hún segir fólk fyrst og fremst vilja heyra heiðarlegar raddir.
Útgefendur verði að muna að bækur sem segja frá lífi efnaminna fólks úr verkamannastétt sé ekki „fátæktarklám” heldur séu þetta fjölbreyttar frásagnir af seiglu, fegurð og húmor.
Þá segir Carthew möguleika efnaminna fólks til að taka fjárhagslega áhættu vera vandamál en sumir þurfi að vinna tvær vinnur til að sjá fyrir sér og sínum og geti ekki leyft sér að mæta í partýin til að byggja upp tengslanet hvað þá greitt fyrir gistingu í stórborgum til að gerast starfsnemi.
Útgefendur séu að reyna að sýna lit en breytingarnar séu of hægfara. Þá séu sumir einungis að hvítþvo sig með því að styrkja eitt og eitt verkefni sem lýsir meiri fjölbreytileika svo hægt sé að tikka í boxið.
Berglind Ósk segir eina af ástæðum þess að henni fannst hún eiga erindi sem rithöfundur vera einmitt það að hún kæmi ekki af menningar- eða listafólki, hún væri hreinræktað verkalýðsbarn og það var ein af ástæðum þess að hún fór í ritlist. Bók Berglindar Breytt ástand hefur fengið príðilega dóma og því finnst henni það sæta furðu að hana sé ekki að finna í bókatíðindum fyrir jólin.
Hægt er að lesa blogg Berglindar Óskar hér: Jólabókaflóðakvíði (og kisur).
Myndin er hluti forsíðu af einu af jólabókablöðum Stundarinnar, en þau voru kveikan að skrifum Berglindar Óskar. Forsíðurnar voru teiknaðar af Hlíf Unu.