Stjórn Rithöfundasambands Íslands lýsir yfir stuðningi við leikara og dansara hjá Leikfélagi Reykjavíkur, og þá kröfu að störf þeirra verði metin að verðleikum.
Athygli vakti á dögunum þegar leikarar komust að því að fólk á skrifstofum leikfélagsins með excel-skjöl væri á mun hærri launum en fólkið á fjölunum.
„Stjórn RSÍ álítur með öllu ólíðandi að fagfólkið sem stendur bókstaflega í fremstu línu hins listræna starfs Borgarleikhússins skuli vera á lægri launum en sem nemur meðallaunum starfsfólks á skrifstofu Borgarleikhússins, enda er það í hróplegu ósamræmi við þann grundvöll sem starfsemi Leikfélags Reykjavíkur hefur byggst á frá upphafi,“ segir í ályktun frá rithöfundum.
Í ályktun rithöfunda segir einnig að fólk sem starfi við listir og skapandi greinar eigi sífellt erfiðara með að fá störf sín metin til launa.
„Mörg okkar hafa þurft að sjá á eftir stórum hluta tekjumöguleikanna í hendur milliliða og streymisveitna. Rithöfundar þekkja þetta af eigin raun, þar sem hljóðbækur hafa tekið yfir stóran hluta bókamarkaðarins. Höfundarréttargreiðslur af prentuðum bókum dragast saman á meðan streymisveitur á borð við Storytel eru reknar með stórgróða, en greiðslur til höfunda af hljóðbókahlustun eru skammarlega lágar.
Stjórn RSÍ álítur að allar skapandi stéttir standi frammi fyrir sömu áskoruninni; að berjast fyrir tilvist sinni og afkomu gagnvart milliliðum, hvort sem þeir starfa hjá alþjóðlegum streymisveitum eða á skrifstofu Borgarleikhússins. Þjóðin fer ekki í leikhús til að sjá bókhaldið, hversu vel sem það kann að vera fært.
Stjórn RSÍ hvetur stjórn Leikfélags Reykjavíkur til að rifja upp til hvers leikfélagið er starfrækt, og í hvaða tilgangi Borgarleikhúsið var byggt. Án listamanna væri þar lítið að sjá,“ segir í ályktun Rithöfundasambands Íslands.