„Öld alþýðunnar er 20. öldin réttilega nefnd. Aldrei fyrr né síðar í sögunni náði almenningur að setja slíkt mark á þróun samfélagsins. Alþýða til sjávar og sveita myndaði samtök til að bæta stöðu sína, tryggja réttindi sín og setja mark sitt á stjórnmál. Verkalýðshreyfingin og samvinnuhreyfingin voru tveir sterkustu þræðirnir í þeirri taug. Samfélagshreyfingar sem breyttu valdahlutföllum samfélagsins almenningi í hag. Hvernig er valdahlutföllum auðvalds og almennings háttað nú þegar fimmtungur nýrrar aldar er liðinn? Hvort verður 21. öldin tímabil auðmagnsins eða almennings?“ spyr Sigurður Pétursson sagnfræðingur í grein í jólablaði Sameykis.
Í greininni reynir hann að svara þessari spurningu. Greinin er svona:
Síðustu fjóra áratugi hefur vald fjármagns og fyrirtækja vaxið á kostnað almennings. Í iðnríkjum Vesturlanda hörfar verkalýðshreyfingin á öllum vígstöðvum, félagsaðild hrynur og áhrif hennar á löggjöf og efnahagsmál dvína stöðugt. Stofnanavæðing verkalýðshreyfingarinnar lamar virkni og möguleika hennar til að marka þróun þjóðfélagsins. Frá þessari þróun má finna undantekningar, sérstaklega í fátækari ríkjum í Rómönsku Ameríku, en oftar en ekki grípur almenningur til fálmkenndra viðbragða sem oft enda í uppgjöf og fylgi við öfgastefnur á hægri kantinum. Valkostir vinstri manna virka ekki. Stofnanabundin verkalýðsfélög og hægfara umbótaflokkar megna ekki að breyta valdahlutföllum í samfélaginu. Hvernig verður þessari öfugþróun snúið við? Getum við lært eitthvað af sögunni?
Samstaða og völd
Verkalýðshreyfingin varð til sem baráttutæki réttindalauss fólks. Vinnandi alþýðu sem ekkert vald hafði yfir lífi sínu, engin samtök til að semja fyrir sína hönd, engin lög sem tryggðu rétt þess. Fólkið hafði ekki einu sinni kosningarétt, nema eiga eignir.
Bændurnir voru fyrri til. Margir bændur fengu stjórnmálaréttindi þegar leið á 19. öld og kaupfélögin voru þeirra leið til efnalegs sjálfstæðis. Með samvinnuhreyfingunni náðu bændur að breyta valdahlutföllum til langs tíma. Kaupmenn og heildsalar réðu ekki lengur einir verðlagi á afurðum bænda og innkaupum. Samtök bænda og síðar kaupfélög bænda og neytenda urðu mikilvægt valdatæki í íslensku samfélagi alla síðustu öld. Samvinnuhreyfingin staðnaði, hætti að skera sig úr sem hagsmunaafl almennings eða neytenda. Kaupfélögin dagaði flest uppi – en hvað með verkalýðsfélögin?
Verkalýðsfélögin voru veikburða í fyrstu. Þau einbeittu kröftum sínum frekar að sjálfshjálp en að gera kröfur á atvinnurekendur um bætt kjör. Samtökin voru óreynd og félagsþroskinn fátækur. Samhjálp var lykilatriðið í sameiginlegum innkaupum á feitmeti og kolum eða koma upp sameiginlegum kartöflugörðum. Þannig var með Verkamannafélagið Dagsbrún og fleiri félög á fyrstu árum þeirra.
Félög sem vildu reyna á styrk sinn og samstöðu með kröfugerð og verkfalli voru oft á tíðum brotin niður með harkalegum hætti. Fólki var bægt frá vinnu, ófélagsbundið verkafólk ráðið í staðinn, körlum att gegn konum og jafnvel voru börn verkfallsmanna ráðin í þeirra störf. Þannig varð niðurstaðan á Ísafirði árið 1906 þegar fjölmennt félag karla og kvenna var brotið á bak aftur.
Neyðin kennir ekki aðeins naktri konu að spinna, hún kenndi líka alþýðunni að styrkja böndin. Með aukinni reynslu og það sem var ekki síður mikilvægt, með hugmyndafræði jafnaðarstefnunnar, náðu verkalýðsfélögin að treysta stöðu sína, mynda stjórnmálavettvang og sækja fram á tveim vígstöðvum samhliða. Verkalýðsstéttin varð efnahagsleg og pólitísk stærð, sem ekki var hægt að sniðganga. Í gegnum verkalýðshreyfinguna og stjórnmálaflokka sem henni tengdust náði almenningur að sækja ný og áður óþekkt réttindi: Kosningarétt til sveitarstjórna og Alþingis, meirihluta í nokkrum kaupstöðum landsins, löggjöf um vinnuvernd, verkamannabústaði, almannatryggingar, orlof og lífeyrissjóði. Einnig samningsstöðu gagnvart atvinnurekendum, bætt laun, styttri vinnutíma, matar- og kaffitíma, veikindarétt, sjúkrasjóði, sumarfrí, öryggi á vinnustað. Öll þessi réttindi náðust fram með baráttu verkalýðshreyfingarinnar í samningum við atvinnurekendur, en ekki síður með stjórnmálabaráttu jafnaðarflokka á Alþingi og þátttöku í ríkisstjórnum.
Velferðarþjóðfélagið dafnaði
Á árunum eftir 1945 var staða verkalýðshreyfingarinnar og stjórnmálaflokka sem henni tengdust mjög sterk um alla Evrópu. Verkamannaflokkar og sósíalistar voru í ríkisstjórn í flestum löndum þar sem lýðræði var tryggt eða var endurreist að lokinni styrjöld. Almannaþjónusta og lykilatvinnuvegir voru þjóðnýttir eða settir undir félagslegan rekstur. Réttindi allra til heilbrigðisþjónustu, lífeyris, atvinnuleysisbóta, húsnæðis og frístunda voru tryggð. Síðast en ekki síst var rétturinn til menntunar og fræðslu tekinn úr höndum forréttindastétta. Almenningi var tryggð skólaganga og aðgangur að æðri menntun. Öld alþýðunnar var gengin í garð og virtist geta sigrað heiminn.
Leið jafnaðar, lýðræðis og mannréttinda í iðnríkjum Vesturlanda átti blómaskeið eftir miðja síðustu öld. Auðmagnið virtist beislað í lög og reglugerðir og almannahagur tryggður með öflugri verkalýðshreyfingu og jafnaðarflokkum. Jafnrétti jókst með kvenréttindahreyfingunni og mannréttindasamtökum. Velferðarsamfélagið dafnaði í aldarfjórðung, en þá kom bakslagið.
Kapítalisminn var ekki sigraður. Hann fann nýjar leiðir til að tryggja framgang fjármagnsins. Auðmagnið lét ekki beisla sig til frambúðar. Það braut af sér ólarnar og reis upp sterkara en nokkru sinni fyrr, þegar velferðarkerfi Vesturlanda lenti í stöðnun og erfiðleikum með olíukrísu og stórfelldum ríkishalla eftir 1973.
Veikleikinn fólst ekki síst í að velferðin náði ekki til allra. Fátækar þjóðir, í fyrrum nýlendum í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku, voru skildar eftir. Í skjóli vestrænna stjórnvalda náðu alþjóðlegar fyrirtækjasamsteypur að hreiðra um sig, fitna og brjóta af sér alla fjötra. Auðhringar tryggðu sér ódýran aðgang að hráefnum og mjólkuðu auðlindir fátækra þjóða. Þeim var auðvelt að bæta kjör almennings á Vesturlöndum, með því að láta alþýðu fátækra landa borga brúsann og meira til. Auðfyrirtækin styrktu stöðu sína, þvert á landamæri einstakra ríkja. Togstreita kapítalísku lýðræðisríkjanna og kommúnistaríkjanna hjálpaði til að tryggja hernaðarlegan og stjórnmálalegan stuðning við auðfyrirtækin.
Bakslagið
Bakslagið kom með kreppu velferðarkerfanna og þar erum við enn. Verkalýðshreyfingin og stjórnmálaflokkar hennar tóku á sig ábyrgðina á rekstri samfélagsins. Í stað þess að berjast fyrir breyttum valdahlutföllum tóku vinstri öflin að sér að skera niður velferðina. Þannig var brautin rudd fyrir framgang nýfrjálshyggjunnar. Með alþjóðaauðmagnið sem bakhjarl náðu hægri öflin undirtökum í efnahags- og stjórnmálum eftir 1980. Niðurskurður velferðarkerfa þýðir minni almannaréttur. Auðhyggjan felldi burt lög og reglur sem vernduðu almenning, reglur um vinnuvernd, eftirlit, vinnumarkað og starfsemi verkalýðsfélaga. Sala almannafyrirtækja svo sem samgöngufyrirtækja, símafyrirtækja, raforkuvera, vatnsveitna, heilbrigðisþjónustu og menntunar breytti valdahlutföllum samfélagsins fjármagnseigendum í hag. Þessi þróun náði hámarki á fyrsta áratug nýrrar aldar, en endaði í hruni fjármagnsmarkaða og banka árið 2008. Ísland var þar fremst í flokki, flaug hæst og hrapaði mest.
Eftir hrun
Í kjölfar bankahruns mátti almenningur takast á við skert lífskjör, hrun íslensku krónunnar, verðbólgu og himinháar greiðslur af húsnæðislánum. Vinstri stjórnin náði ekki að koma í gegn sanngjörnum samfélagssáttmála, með nýrri stjórnarskrá og réttlátara kvótakerfi í sjávarútvegi. Uppgjöf og fálmkennd viðbrögð tóku við. Sjálfstæðisflokkurinn var aftur leiddur til valda, þrátt fyrir að kjörgengi hans sé aðeins um fjórðungur atkvæða. Flokkur fjármálaafla og kvótagreifa náði aftur lykilvöldum að auðlindum þjóðarinnar í samstarfi við miðflokka og jafnvel vinstri flokka. Einkavæðingin smaug aftur inn, forræði fárra á fiskveiðiauðlindinni festir sig í sessi, ný stjórnarskrá með auðlindaákvæði er hvergi í augsýn.
Árin eftir 2008 setti verkalýðshreyfingin sig á hliðarveg. Hún var ekki lengur mótandi afl í samfélaginu. Einblínt var á kjaramál, eina markmiðið var kaupmáttur. Á sama tíma var hægri flokkum leyft að veikja heilbrigðiskerfið og menntakerfið og eyða jöfnunaráhrifum skattkerfisins. Veikir stjórnmálaflokkar á vinstri vængnum máttu sín lítils og engin tenging á milli stjórnmála og verkalýðshreyfingar. Afleiðingin var minnkandi áhrif beggja aðila og viðvarandi valdasókn hægri aflanna.
Hvað nú?
Verkalýðshreyfingin var sköpuð til að breyta valdahlutföllum í samfélaginu. Á síðustu árum hefur nýr tónn heyrst úr herbúðum verkalýðsfélaga. Herskárri tónn, raddir sem vilja breyta valdahlutföllum. Staðnaðri samstöðu er hafnað. Hafnað er þeirri leið að láglaunafólk sætti sig við brauðmola af borði hinna hærra launuðu, hvort sem er utan eða innan stéttarfélaganna. Kröfur eru gerðar í nafni láglaunafólks til að breyta tekju- og eignaskiptingu þjóðfélagsins. Þessi baráttuleið varð ofan á í síðustu samningum. Krónutöluhækkun launa var lögð til grundvallar og ríkisstjórnin neydd til að lofa úrbótum í skatta- og húsnæðismálum. Reynslan sýnir að það var skref í rétta átt, en ekki nóg.
Innanbúðarátök um forystu fyrir ASÍ sýnir að verkalýðshreyfingin er afl sem skiptir máli. Ný forysta í fjölmennustu og í raun sterkustu verkalýðsfélögum landsins, VR og Eflingu, sýnir að enn er hægt að breyta valdahlutföllum, bæði innan verkalýðshreyfingarinnar og í samfélaginu. Þessi nýja forysta og bandamenn hennar geta sameinað launafólk og verkalýðshreyfinguna í sókn til meiri áhrifa. Kröfugerð verkalýðsfélaganna er komin fram. Framhaldið ræðst af virkni og vilja félagsmanna til að ná árangri.
Gleymum ekki að viðspyrna auðvaldsins er sterk. Stjórnmála- flokkar, fjölmiðlar og fleiri áhrifaöfl styðja atvinnurekendur. Sjálfstæðismenn hika ekki við að koma fram með frumvarp til laga sem myndi stórskaða verkalýðsfélögin. Í nafni frelsis skal samtakaréttur almennings skertur. Réttur vinnandi fólks og frelsi skal fórnað á altari fyrirtækja og auðmanna. Verkalýðsfélögin eru aftur sett í spor sem þau stóðu í þegar fátæku fólki var att hverju gegn öðru. Þannig vilja þeir að auðvaldið skuli ráða og máttur samtakanna lamaður.
Nú ríður á að stéttarfélög og stjórnmálaöfl sem vilja raunverulegar breytingar skynji sinn vitjunartíma. Barátta Eflingar, VR og félaga innan Starfsgreinasambandsins ræður því hvort launafólk í landinu nær aftur að endurheimta hluta af þeim áhrifum sem það náði á síðustu öld. Almenningur í landinu þarf tæki til að setja auðvaldinu skorður og breyta valdahlutföllum í landinu sér í hag. Til þess þarf sterka verkalýðshreyfingu og öfluga stjórnmálaflokka sem þora og vilja gera breytingar bæði á sviði efnahagsmála og stjórnmála. Breytingar sem leiða til raunverulegra valda almennings á nýrri öld.
Grein og myndir úr tímariti Samstöðu, sem var að koma út.