Velferðarsvið Reykjavíkur hefur skorið niður heimilisþrif hjá öryrkjum og eldra fólki. Þau sem fengu þrif hálfsmánaðarlega fá þau nú aðeins mánaðarlega. Fötluð kona sem Samstöðin ræddi við sagði að sér hafi verið boðið upp á að einhver heimsótti hana í staðinn eða færi með henni á kaffihús, en hún sagði að sig vantaði ekkert slíkt. Hún gæti ekki beygt sig og til dæmis ekki þrifið í kringum klósett.
Þau sem Samstöðin ræddi við sögðu að þetta væri ekki kynnt sem niðurskurður heldur breyting á þjónustu. Það kæmi hins vegar út sem niðurskurður gagnvart fólkinu, það fengi helmingi minni þrif en áður. Það væri alltof lítið að fá aðeins þrif einu sinni í mánuði.
Samstöðin hefur rætt við öryrkja og eftirlaunafólk sem stendur frammi fyrir þessari aðgerð og er ósátt. Og myndi gjarnan vilja heyra í fleirum. Vinsamlegast sendið ábendingu á samstodin@samstodin.is