„Samkvæmt tölum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun var meðalupphæð greiddrar leigu á höfuðborgarsvæðinu 220.000 krónur í október síðastliðnum. Á landsbyggðinni er meðalleigan hins vegar einungis um 152.000 krónur á mánuði. Munurinn er 68.000 krónur. Leiga á höfuðborgarsvæðinu er að jafnaði um 45% hærri en leiga á landsbyggðinni. Þetta er risastór munur á kjörum verkafólks eftir landshlutum,“ segir Stefán Ólafsson sérfræðingur Eflingar í nýrri grein þar sem hann heldur því fram að Eflingarfélagar þurfi annað og meira en félagar í öðrum félögum Starfsgreinasambandsins hafa sætt sig við.
Talsmenn Samtaka atvinnulífsins (SA) hafa stefnt að því að kjarasamningur Starfsgreinasambandsins (SGS) verði fyrirmynd annarra samninga verkafólks á almenna vinnumarkaðinum. Í grein sinni útskýrir Stefán hvers vegna SGS-samningurinn er ófullnægjandi fyrir Eflingarfólk, en í viðtölum og skrifum hefur Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, sakað Eflingu um skemmdarverk og villandi upplýsingar fyrir að hafa sagt að samningur SGS sé ekki góður fyrir Eflingarfólk, dugi alls ekki.
„Efling er einkum stéttarfélag verkafólks á höfuðborgarsvæðinu en önnur aðildarfélög SGS eru einkum félög verkafólks á landsbyggðinni,“ útskýrir Stefán. „Aðstæður vinnu og kjara eru mjög ólíkar á þessum svæðum. Hjá Eflingu er meira af ungu fólki og innflytjendum sem staldra skemur við hjá einstökum atvinnurekendum en algengast er á landsbyggðinni. Þá er samsetning starfsgreina ólík hjá Eflingu og SGS-félögunum. Loks er framfærslukostnaður hærri á höfuðborgarsvæðinu, einkum húsnæðiskostnaður.
Þessar ólíku aðstæður gera það að verkum að nákvæmlega sami samningur skilar þessum hópum, Eflingu og öðrum SGS-félögunum, mjög mismiklum kjarabótum,“ segir Stefán.
Síðan skýrir hann þennan mun:
Mismunandi ábati af SGS-samningi
Í SGS-samningnum eru hækkanir meiri hjá þeim sem eru í hærri launaflokkum og mestar hjá þeim sem eru með langan starfsaldur hjá sama fyrirtæki (5 ár eða lengur). Hjá SGS-félögum á landsbyggðinni er stór meirihluti sem er í hæsta starfsaldursþrepi launatöflunnar og sem fær því mestu hækkunina. Hjá Eflingu er einungis um 17% félagsmanna sem fá greitt í hæsta starfsaldursþrepi (5 ár eða lengur hjá sama fyrirtæki). Um 55% Eflingarfólks er á byrjendataxta eða með eins árs starfsreynslu. Þetta skiptir mjög miklu máli fyrir ábata af þeirri leið sem farin var í SGS-samningnum.
Ef SGS-samningurinn væri látinn gilda óbreyttur fyrir Eflingu þá fengi verkafólk á höfuðborgarsvæðinu á milli 10.000 og 20.000 krónum minni hækkun launa en verkafólk á landsbyggðinni. Þá væri ekki gætt jafnræðis.
Annað sem er landsbyggðarfólki í hag er að starfsfólk við fiskvinnslu fær mikla hækkun á bónusgreiðslum í SGS-samningnum, sem sögð er skila því á milli 6.000 og 34.000 króna hækkun til viðbótar við taxtahækkanir. Miðgildi þessara hækkana er um 20.000 krónur á mánuði. Starfsfólk við fiskvinnslu er fyrst og fremst á landsbyggðinni, en það er hverfandi hluti verkafólks á höfuðborgarsvæðinu – aðeins um 400 einstaklingar af þeim 21 þúsund Eflingarfélögum sem starfa á almennum vinnumarkaði. Þessi sérstaki ábati fyrir verkafólk á landsbyggðinni myndi því ekki skila sér á sambærilegan hátt til almenns Eflingarfólks á höfuðborgarsvæðinu.
Ef þessir tveir stóru ábataþættir væru jafnaðir milli SGS-félaga á landsbyggðinni og verkafólks á höfuðborgarsvæðinu þá þyrftu launatöflur Eflingar að hækka í grunninn um 20-30.000 krónum meira en er í launatöflu SGS-félaganna. Í raun þyrfti launatafla Eflingar að hafa aðra uppbyggingu sem skilaði fólki með skemmri starfsaldur meiri hækkunum og sem tæki meira tillit til ólíkra samsetninga starfa á höfuðborgarsvæði og landsbyggð.
Mun hærri húsnæðiskostnaður á höfuðborgarsvæðinu
Í Kjarafréttum Eflingar nr. 4 (Hallarekstur á heimilum láglaunafólks) var sýnt að talsvert vantar uppá að heimili fullvinnandi láglaunafólks á höfuðborgarsvæðinu nái endum saman, jafnvel þó fólk leggi á sig umtalsverða aukavinnu. Þetta á bæði við um einhleypa, einstæða foreldra og hjón með 2 börn sem bæði vinna fulla vinnu á lágum launum, með og án aukavinnnu. Óvenju mikill húsnæðiskostnaður á höfuðborgarsvæðinu er stór áhrifavaldur þessa ástands.
Samkvæmt tölum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun var meðalupphæð greiddrar leigu á höfuðborgarsvæðinu 220.000 krónur í október síðastliðnum. Á landsbyggðinni er meðalleigan hins vegar einungis um 152.000 krónur á mánuði. Munurinn er 68.000 krónur. Leiga á höfuðborgarsvæðinu er að jafnaði um 45% hærri en leiga á landsbyggðinni. Þetta er risastór munur á kjörum verkafólks eftir landshlutum. Sambærilegur munur er hjá fólki sem glímir við að kaupa íbúðarhúsnæði.
Af þessum sökum fór Efling fram á sérstaka framfærsluuppbót fyrir verkafólk á höfuðborgarsvæðinu í kröfugerð sinni vegna komandi kjarasamninga.
Talsmenn samtaka atvinnurekenda (SA) hafa sagt að sjálfsagt sé að taka tillit til sérstakra aðstæðna þegar kjarasamningar eru gerðir – og fjölmörg fordæmi eru auðvitað fyrir slíku í framkvæmd.
Í komandi viðræðum Eflingar við SA hlýtur að þurfa að taka fullt tillit til ofangreindra atriða til að jafna ábata Eflingarfólks og landsbyggðarfólks af kjarasamningi í anda SGS-samningsins. Jafnframt að tekið verði tillit til hins gríðarlega aðstöðumunar milli verkafólks á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni þegar litið er til húsnæðiskostnaðar.