Segist hafa verið stunginn í bakið af fólki sem hann taldi vini sína

Verkalýðsmál 4. des 2022

„Þessi stutti skammtímasamningur er sá langbesti sem ég hef komið að á mínum 20 árum sem forystumaður í verkalýðshreyfingunni, hvað verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði varðar. Það er staðreynd sem enginn getur andmælt,“ skrifar Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, á Facebook í færslu þar sem hann bæði mælir með samningnum sem hann undirritaði í gær og svarar gagnrýni á þá samninga.

„Ég skal fúslega viðurkenna að ég er sorgmæddur og dapur að sjá fólk sem ég taldi vera góða vini mína stinga mig í bakið með því að segja að ég hafi nánast framið „glæp“ með þessum samningi,“ skrifar Vilhjálmur og beinir þar orðum sínum fyrst og fremst að Sólveigu Önnu og Eflingu.

„Formaður Eflingar sem hefur m.a. gagnrýnt þennan kjarasamning harðlega hefur sagt að lífskjarasamningurinn frá 2019 hafi verið mjög góður og þar erum við sammála,“ skrifar Vilhjálmur. „Í ljósi þeirra ummæla formanns Eflingar skil ég ekki þessa gagnrýni á nýjan samning SGS sem inniheldur á þessum stutta samningstíma mun meiri launahækkanir en fengust í lífskjarasamningnum.

Ég vil líka að það komi fram að það var Efling sem ákvað að vera eitt og sér og skila ekki samningsumboðinu til Starfsgreinasambandsins en ég tel að það hefði verið mun skynsamlegra að þau hefðu verið með okkur til að hafa áhrif og koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Ég hélt hins vegar formanni Eflingar upplýstri allan tímann um það sem við værum að gera enda taldi ég það skyldu mína að halda stærsta aðildarfélagi innan SGS upplýstu.“

Vilhjálmur segir að upplýsingum um samninginn hafi verið lekið til fjölmiðla, en Samstöðin birti m.a. frétt um stöðuna í samningaviðræðunum, sjá hér: Starfsgreinasambandið að ljúka samningum, óvissa um þátttöku VR.

„Ég veit hins vegar að upplýsingum var lekið til fjölmiðla meðan viðræður okkar voru á viðkvæmu stigi og markmiðið getur ekki hafa verið annað en að skemma þá vinnu sem við vorum að vinna að og afvegaleiða það sem verið var að semja um. Ég veit líka að haft var samband við allavega tvo formenn innan SGS og þeir beðnir um að skrifa ekki undir nýjan samning. Hver var tilgangurinn annar en bara að eyðileggja það sem við vorum að gera. Það lá fyrir að öll aðildarfélög sem höfðu skilað umboði til félagsins voru yfir sig ánægð með innihaldið og kom fram á formannafundi að þau hafðu ekki séð svona launahækkanir til handa verkafólki. Ég sem formaður samninganefndar SGS fékk fullt umboð frá öllum um að ganga frá þessum samningi og því kom það á óvart að sjá að annað af þessum aðildarfélögum sem haft var samband við dró umboð sitt til baka,“ skrifar Vilhjálmur.

En meginefni færslu Vilhjálms er kynning hans á samningunum: „Ég vil byrja á því að segja að við í SGS lögðum gríðarlega áherslu á að ná nýjum samningi hratt og vel þar sem allar launahækkanir myndu gilda frá 1. nóvember 2022, með öðrum orðum nýr samningur myndi taka við af þeim sem var að renna sitt skeið. Takið eftir, þessi 20 ár sem ég hef komið að kjarasamningsgerð hefur það aldrei gerst enda hafa liðið tveir og allt upp í fimm mánuðir þangað til tekist hefur að ganga frá nýjum kjarasamningi á liðnum áratugum. Sú töf hefur leitt af sér fjárhagslegt tjón fyrir verkafólk og þær uppbætur sem stundum hafa komið hafa aldrei dugað til dekka þá mánuði sem kjarasamningsgerð dregst um.

Ég vil líka segja að við mátum það svo að lágtekjufólk sem tekur laun eftir kauptöxtum gæti alls ekki beðið eftir launahækkunum til að mæta þeim gríðarlegu kostnaðarhækkunum sem hafa dunið á lágtekjufólki sem og öðru launafólki. Þetta tókst okkur og ekki bara það heldur með mestu launahækkunum sem verkafólk hefur nokkurn tíma fengið og það í skammtímasamningi.

En förum þá yfir það sem þessi stutti samningur gefur verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði. Samningurinn byggist á krónutöluhækkunum enda koma þær sér langbest fyrir lágtekjufólk. Við urðum að lagfæra launatöfluna vegna þess að hún hafði þjappast svo saman á liðnum árum að nánast enginn ávinningur eða umbun var fyrir að hafa starfað lengi hjá sama fyrirtæki. Þessi töflubreyting skilar að meðaltali um 5.500 kr. hækkun fyrir launafólk en þeir sem hafa starfað t.d. í fimm ár eða lengur eru að fá „bara“ vegna þessara breytinga á launatöflunni frá 12 til 13 þúsund króna hækkun á mánaðarlaunum sínum.

Mikið hefur verið rætt um hagvaxtarauka sem við sömdum um í lífskjarasamningum 2019. Hann byggist á því að ef hagvöxtur er x mikið þá skilar hann upphæð sem fer eftir hversu mikill hagvöxtur er. Núna liggur orðið nokkuð ljóst fyrir hann mun skila 13.000 kr. hækkun sem átti að koma til útborgunar 1. maí 2023.

Það var skýlaus krafa Samtaka atvinnulífsins að þessi 13 þúsund kall yrði kostnaðarmetin og rök þeirra var að þessi upphæð væri kostnaðarauki fyrir fyrirtækin sem kæmi á árinu 2023. Þessu hafnaði SGS algerlega enda búið að semja um þennan hagvaxtarauka en við skiljum samt að þessi hækkun á hagvaxtaraukanum væri kostnaðarauki fyrir fyrirtækin sem kæmi inn 1. maí 2023.

Því þurfti að finna málamiðlanir um hvernig við gætum gert þetta og ein leið var að flýta honum þannig að hann kæmi fyrr inn til hækkunar á launum verkafólks. Um þetta var deilt fram og aftur og SA bauð okkur að flýta honum til 1. mars 2023 en því höfnuðum við algerlega og svona gekk þetta lengi. Að síðustu buðu þeir okkur að hann kæmi inn 1. janúar en við sögðum ef það á að kostnaðarmeta hagvaxtaraukann þá verður hann að gildi frá 1. nóvember 2022 eins og allar launahækkanir. Okkur tókst þetta eftir gríðarleg átök um þennan þátt samningsins og með því að flýta honum sex mánuði þá skilar hagvaxtaraukinn 78.000 kr. aukalega þar sem ekki þarf að bíða eftir honum til 1. maí 2023. Þessi flýting á hagvaxtaraukanum skilar því aukahækkun sem nemur 5.200 kr. á samningstímanum fyrir verkafólk á kauptöxtum.

Með því að flýta hagvaxtaraukanum og setja hann inn á kauptaxtana strax frá 1. nóvember 2022 þá hækka kauptaxtarnir sem honum nemur og munið að það leggst ofan á álagsgreiðslur t.d. yfirvinnutaxta og vaktaálög. Ávinningur fyrir vaktavinnufólk með því að flýta honum er umtalsverður og þessi aðgerð mun skila hærri álagsgreiðslum fyrir fólk sem er að vinna vaktavinnu og yfirvinnu sem nemur nokkrum þúsundum á mánuði. Ávinningurinn er því mikill við að flýta hagvaxtaraukanum um sex mánuði og munið að hagvaxtaraukinn er ekki eingreiðsla heldur kemur hann ofan á kauptaxta til frambúðar. Því hefur verið haldið fram að um eingreiðslu sé að ræða svo er alls ekki.

En hvað eru laun hópferðabílstjóra í 17. launaflokki að hækka um ef ekki er tekinn með 13.000 hagvaxtarauki. Jú 17. launaflokkur er að hækka um 40.000 krónur á mánuði í þessum stutta samningi en með flýttum hagvaxtarauka um sex mánuði er hann að hækka um rúmar 52.000 kr. á mánuði.

Takið eftir að nánast allir launaflokkar innan SGS þar sem fólk er með fimm ára starfsreynslu eru að hækka um 40 þúsund á mánuði án hagvaxtarauka og frá 50.000 kr. upp í 52.000 kr. með flýttum hagvaxtarauka. Hvenær hafa svona launahækkanir komið til lágtekjufólks, mitt svar er skýrt – aldrei!

Kauptaxtar verkafólks eru að meðaltali með breytingu á launatöflunni og flýttum hagvaxtarauka að skila 43.000 kr. hækkun á mánuði og ég spyr aftur – hvenær hafa svona hækkanir komið handa verkafólki? Enn og aftur skal ég svara, aldrei!

Þetta var ekki það eina sem við gerðum innan Starfsgreinasambands Íslands í þessum samningi því okkur tókst að lagfæra bónusa og akkorð í fiskvinnslu sem hafa á undanförnum árum setið eftir. Við hækkum alla bónusa um 8% sem mun skila fiskvinnslufólki vítt og breitt um landið umtalsverðum hækkunum.

Bónusar í fiskvinnslu er afar mismunandi en þeir eru hæstir hjá stórfyrirtækjum í sjávarútvegi. Rétt að geta þess að ekkert fiskvinnslufyrirtæki má greiða lægri bónus en 319 kr. á unna vinnustund eftir þennan samning.

Þetta mun skila sér til fiskvinnslufólks sem vinnur erfið störf og afkoma þessara fyrirtækja er almennt mjög góð.

En tökum nokkur dæmi. Sérhæft fiskvinnslufólk sem er á lágmarksbónus mun með lagfæringu á töflunni, flýtingu á hagvaxtaraukanum og hækkun á bónusnum fá um 55.000 kr. hækkun frá 1. nóvember 2022.

Hjá fyrirtæki sem er að greiða í dag 820 kr. að meðaltali í bónus mun launahækkunin, með lagfæringu á launatöflunni, flýtingu á hagvaxtaraukanum og hækkun á bónus, nema 62.000 kr. á mánuði.

Við vitum að eitt fyrirtæki er að greiða svokallaðan línubónus sem nemur 1500 kr. og einnig 1000 kr. í hópbónus en fiskvinnslufólk hjá því fyrirtæki getur verið að fá heildarlaunahækkun sem nemur 85.000 kr. á mánuði. Ég spyr enn og aftur, hvenær hefur fiskvinnslufólk séð svona launahækkanir í sínum kjarasamningi? Enn og aftur ætla ég að svara, aldrei!

Við í Starfsgreinasambandi Íslands erum gríðarlega stolt af þessum árangri sem við náðum en við lögðum líka gríðarlega hart að okkur. Fórum vart úr húsi ríkissáttasemjara, enda gekk okkar vinna út á að ná góðum kjarasamningi fyrir verkafólk á íslenskum vinnumarkaði. Vinnan gekk út á að ná samningi sem myndi berast hratt til okkar félagsmanna til koma til móts við þær miklu kostnaðarhækkanir sem dunið hafa á launafólki undanfarið. Það tókst án átaka og það tókst að láta allar kauphækkanir taka gildi frá þeim tíma sem eldri samningur rann út.“

Varðandi gagnrýni á veika aðkomu stjórnvalda skrifar Vilhjálmur: „Við höfum samhliða þessu verið í viðræðum við stjórnvöld um atriði til að styðja við kjarasamninginn og ég hef m.a. tekið þátt í þeirri vinnu. Í gær hringdi forsætisráðherra í mig og taldi það skynsamlegt að bíða með yfirlýsingu frá stjórnvöldum þar til allri vinnu væri lokið og fleiri landssambönd hafi klárað sína kjarasamningum.

Forsætisráðherra fullvissaði mig um að stjórnvöld muni koma með atriði til að styðja við samninginn en ég tel mikilvægt að því sé komið á framfæri og þeirri vinnu er ekki lokið og henni verður haldið áfram af öllum landssamböndum innan ASÍ.“

Færslu Vilhjálms má lesa hér á Facebook.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí