6,75% grunnhækkun í 9,3% verðbólgu

Verkalýðsmál 12. des 2022

Samningar hafa náðst á milli samflots verslunar- og iðnaðarmanna og samtaka atvinnulífsins. Samið var um 6,75% grunnhækkun auk tilfærslna á launatöflum. Áður umsaminn hagvaxtarauki fellur niður. Að baki þessa samninga standa tvöfalt fleira launafólk en að baki samningi Starfsgreinasambandsins, sem Efling var ekki aðili að. Samningar við Eflingu eru stærsti bitinn sem út af stendur, varðandi samninga við fólk á almennum vinnumarkaði.

Samningurinn mun fela í sér 6,75% launahækkun en inn í þeirri tölu er hagvaxtaraukinn frá fyrri samningi. Samtök atvinnulífsins vildu að þessi samningur yrði í takt við samning sem Starfsgreinasambandið gerði fyrr í mánuðinum. Þar var samið um 22 þús. kr. almenna hækka, sem jafngildir 4,4% á 500 þús. kr. laun. Hugmynd SA var að sú hækkun gengi síðan upp að einn milljón, en væri síðan föst krónutala eftir það. Til viðbótar kom svo hagvaxtarauki upp á 13 þús. kr., sem tilheyrði eldri samningi. Meta má hann sem 2,6% á 500 þús. kr. mánaðarlaun eða 1,7% á 750 þús. kr. Umsamdar hækkanir nú eru því í takt við samning starfsgreinasamnings, sem gaf 7,0% í grunnhækkun á 500 þús. kr. að hagvaxtaraukanum meðtöldum.

Áætla má að miðgildi heildarlauna séu í dag um 780 þús. kr. Miðgildi segir að helmingur launamanna sé með meira en helmingur með minna. Miðgildið gefur betri mynd af hinu almenna en meðaltalið, þar sem hin betur launuðu hífa það upp. Meðaltalið leggst yfirleitt um 65 prósentin, þannig að 35% launafólks er með meira en meðaltalið en 65% minna.

Hugmynd SA var að miðgildislaunin myndu hækka upp í um 830 þús. kr. sem er aðeins um 6,4%. Og miðað við 6,75% hækkun í nýjum samningi hefur það svo til gengið eftir.

Með tilfærslu innan launaflokka og aldurshækkana tókst Starfsgreinasambandinu síðan að ná þessu hjá sér upp í um 10% hækkun hjá fólki með minnsta starfsreynslu en allt að 12,5% hjá þeim sem eru með mesta reynslu. Og það var samið um það sama í samningi verslunar- og iðnaðarmanna, tilfærslur á launaflokkum og aldurshækkunum sem ætla má að gefi svipaða niðurstöðu.

Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að taxtatilfærslur verði ekki meiri en svo að enginn fái meira en 66 þús. kr. launahækkun samkvæmt nýjum samningi. Í samningi Starfsgreinasambandsins voru mestu hækkanir 52 þús. kr. Gátu mögulega orðið hærri hjá fiskverkafólki en bónusinn í fiskvinnslu hækkaði. Í báðum tilfellum er miðað við grunnlaun. Hækkun vaktavinnufólks og þeirra sem vinna mikla yfirvinnu getur auðvitað orðið meiri í krónutölu, en ekki hlutfallslega.

Miðað við verðbólguna það sem af er ári og spár um verðbólgu næsta árs myndi það rétt halda verðgildi launa miðað við stöðuna síðastliðið vor. Og margt bendir til að verðbólgan á næsta ári verði meiri en spárnar frá í haust sögðu til um, 5,6%.

Samkvæmt heimildum Samstöðvarinnar var það mat samninganefndar VR að til þess að losna út úr þeirri klemmu sem samningar Starfsgreinasambandsins hafa sett öll verkalýðsfélög í hafi þurft aðgerðir sem gætu orðið harðvítugar og langar. Og þótt þær gætu skilað árangri myndu tapast launahækkanir frá 1. nóvember síðastliðnum. Og í ljósi þess að samningurinn væri stuttur væri best að sætta sig við vondan samning í von um að Samtökum atvinnulífsins takist ekki að sundra verkalýðshreyfingunni aftur næsta haust. Það er því meðvitund innan samninganefndar VR að þetta séu lakir samningar og það sem ríkisstjórnin kemur með að borðinu sé þunnt og verra en að var stefnt.

Ríkisstjórnin boðaði strax til kynningarfundar um aðgerðir hennar í tengslum við kjarasamninga eftir að ljóst var að samningar væru í höfn. Þar er búist við hækkun barnabóta, lagfæringu á vaxtabótum, hækkun húsaleigubóta og aukin framlög til bygginga óhagnaðardrifinna leigufélaga á borð við Bjarg.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí