Enn er reynt að þvinga fatlaðar konur í legnám

Fatlað fólk er einn jaðarsettasti hópur samfélagsins og verður mun oftar fyrir ofbeldi en aðrir hópar. Ofbeldismálin eru af ýmsum toga en samkvæmt yfirmanni réttindagæslunnar er fatlað fólk ósýnilegt í réttarvörslukerfinu. 

Réttindagæslumenn fatlaðs fólks starfa samkvæmt lögum nr. 88/2011 og eiga að starfa í öllum landshlutum. Verkefni þeirra er að fylgjast með högum fólks og aðstoða það við hvers konar réttindagæslu. Þá getur fatlaður einstaklingur leitað til réttindagæslumanns með hvað eina sem varðar réttindi hans, fjármuni og önnur persónuleg mál eins og segir á vef stjórnarráðsins. Þar segir einnig að réttindagæslumaður skuli veita honum stuðning og aðstoða hann við að leita réttar síns eftir því sem við á. Einnig er gert ráð fyrir að hver sá sem telur að brotið sé á réttindum fatlaðs einstaklings geti tilkynnt það réttindagæslumanni og getur réttindagæslumaður tekið upp mál að eigin frumkvæði. Réttindagæslumaður skal vera sýnilegur og standa fyrir fræðslu fyrir fatlað fólk og þá sem starfa með því.

Ef fatlaður einstaklingur á erfitt með að berjast fyrir sínum eigin málum t.d. Vegna þroskahömlunar eða erfiðleika við tjáningu á hann rétt á því að fá skipaðan talsmann og sér réttindagæslumaður þá um að veita slíkum talsmanni viðeigandi fræðslu. 

Sá hængur er á að réttindagæslumenn fatlaðs fólks á landinu öllu eru einungis 8 manns. Það kemur því ekki á óvart að á borði Jóns Þorsteins Sigurðssonar yfirmanns réttindagæslunnar séu nú 79 ofbeldismál. Þar af eru 31 þeirra kynferðisbrotamál, 19 mál þar sem um líkamlegt ofbeldi er að ræða, 11 svokölluð almenn mál, 10 fjárhagsleg mál og 8 mál er varða nauðung. Jón Þorsteinn segir frá því í viðtali við RUV á dögunum að mikið sé um andlegt ofbeldi gagnvart fötluðu fólki, kynferðislegt ofbeldi og nauðung og jafnvel stafrænt ofbeldi. Hann segir ofbeldið eiga sér stað á vinnustöðum fatlaðs fólks sem og í íbúðakjörnum og sambýlum. Hann nefnir t.d. Dæmi um að forstöðukona í íbúðakjarna reyndi að þvinga konu í legnám. Þá beitir starfsfólk á vinnustöðum fatlað fólk einnig stundum ofbeldi sem og jafningjar þess en þurfa þeir gjarnan að halda áfram að mæta á vinnustaðinn og eða heimilið með geranda sínum til langs tíma eftir að ofbeldið á sér stað eða gerir það viðvarandi. 

Það sætir kannski furðu ða réttindagæslan heyrir undir félagsmálaráðuneytið þrátt fyrir að eiga að standa vörð um réttindi fatlaðs fólks gagnvart yfirvöldum einnig. Heyrst hafa þær raddir frá baráttufólki fyrir réttindum fatlaðs fólks að eðlilegra væri að skipaður væri umboðsmaður fatlaðra með tilskipunarvald og réttindagæslufólk starfaði undir honum, óháð stjórnvöldum. Þá gefur einnig auga leið að fjölga þurfi stöðugildum réttindagsæslufólks.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí