Söluhagnaður Haga sem rekur Bónus og Hagkaup eða alls 37 matvöruverslanir, 27 Olís þjónustustöðvar og 42 ÓB stöðvar jókst um 13.5% milli áranna 2021 og 2022 og hagnaðist samstæðan um 4 þúsund milljónir. Eignir og eigið fé jókst einnig á sama tíma og skuldsetning dróst saman.
Festi sem rekur Bakkann, Elkó, Krónuna og N1 býr við sambærilegt góðæri en hjá þeirri samstæðu vörusala um 29,9% milli ára á 3ja ársfjórðungi og hefur aldrei verið hærri. Fyrirtækið greiddi ma. hluthöfum sínum arð að fjárhæð 1.563 milljarða á síðasta ári.
Þetta er staðan sem almenningur býr við auk þess sem heildsöluverð á matvöru hækkaði töluvert um áramótin. Gera má ráð fyrir því að matvöruverð hækki því enn meira á næstunni.
Auður Alfa Ólafsdóttir verkefnisstjóri verðlagseftirlits ASÍ bendir á góða stöðu matvöruverslana í morgunútvarpi Rásar 2 og að neytendur ættu ekki að taka allan skellinn af verðbólgunni. Matvöruverð hafi hækkað um rúmlega tuttugu prósent frá upphafi covid-faraldursins og sé enn að hækka. Staða verslana á matvörumarkaði sé mjög góð eins og kemur fram í nýrri skýrslu á vegum Samkeppniseftirlitsins. Þar kemur fram að síðustu fjögur árin hefur hagnaður aukist töluvert á dagvörumarkaði.
Auður gagnrýnir að matvöruverslanir taki ekki skellinn með neytendum en hún segir: „Þegar það koma verðhækkanir inn að utan þá hafa verslanir, já og heildsalar, tvo möguleika. Það er að taka á sig höggið með neytendum og í raun og veru lækka þá hagnað, eða velta öllum kostnaði yfir á neytendur og jafnvel eitthvað umfram það. Þetta bendir svona til þess að dagvöruverslanir séu í meira mæli að velta þessu yfir á neytendur. Og bara miðað við stöður þessara fyrirtækja, ég meina hagnaðartölur sem hafa verið að koma fram, þá virðist vera fullt svigrúm til þess að matvöruverslanir fari að taka þennan skell með neytendum.“
Auður segir að neytendur séu augljóslega að taka allan skellinn núna, enda hafi hagnaður verslananna aukist á undanförnum árum. Verð hér á landi gangi svo síður til baka við það að verðbólga hjaðni og neytendur þurfi að treysta á samvisku stjórnenda matvöruverslana.
Auður vill að farið verði í langtíma aðgerðir til að draga úr líkunum á að neytendur þurfi einir að mæta verðbólgu og hækkunum á matvöru en hún segir: „Og í svona verðbólguástandi eins og er núna þá auðvitað slævist verðvitund neytenda líka, sem hefur áhrif og getur minnkað aðhald.“
Mestu hækkanirnar í dag eru búvöruhækkanir en bæði mjólkurvörur og kjötvörur hafa hækkað umtalsvert. Þar hefur skortur á samkeppni og hækkun á áburðar- og olíuverði haft töluverð áhrif
„Við erum auðvitað með mjög verndað landbúnaðarkerfi og við sjáum það að matvöruverð á Íslandi er það þriðja hæsta í Evrópu. Einungis Sviss og Noregur eru með hærra matvöruverð en við, og þessi tvö lönd eru líka með mjög mikla landbúnaðarvernd. Þannig að þetta er auðvitað eitt af því sem við þurfum að skoða líka, til þess að lækka hér matvöruverð til lengri tíma.“
Þá hafa VR, Landssamband íslenzkra verzlunarmanna, Rafiðnaðarsambandið og Félag atvinnurekenda óskað eftir fundi með Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra og Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra til að ræða aðgerðir á lækkun og niðurfellingu tolla í þágu neytenda.
Verkalýðsfélögin og atvinnurekendur sendu frá sér sameiginlega tilkynningu þess efnis en þar er einnig vísað til bókunar við kjarasamninga sem undirritaðir voru í síðasta mánuði, þar sem samningsaðilar sammæltust um að fara þess á leit við stjórnvöld að unnið verði að því að afnema og lækka tolla í þágu neytenda.
Í bókuninni segir að lækkun tolla sé ein skilvirkasta leiðin til að bæta hag launþega og að mati samningsaðila væri góð byrjun að afnema tolla sem vernda enga hefðbundna innlenda landbúnaðarframleiðslu.
Þá eru stjórnvöld hvött til að leita allra leiða til þess að lækka vöruverð í því verðbólguástandi sem nú ríkir svo vernda megi kaupmátt þeirra kjarabóta sem um var samið í nýliðnum kjarasamningum eða eins og segir í bréfinu; „Með lækkun tolla má ná miklum árangri í þeim efnum án þess að ríkissjóður tapi tekjum sem neinu nemur. Þá er ástæða til að ræða framkvæmd á útboðum tollkvóta út frá hagsmunum neytenda. Neðangreind samtök óska eftir að fá fund með ráðherra sem allra fyrst til að ræða hvernig gera megi breytingar á skipan tollamála í þágu neytenda og launafólks.“