Sólveig Anna segir forystu SGS gengna af göflunum

Verkalýðsmál 12. jan 2023

„Forysta Starfsgreinasambandsins er gengin af göflunum í baráttu sinni gegn því að Eflingar fái betri samning en þau,“ skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar á Facebook.

„Nú er nýjum framkvæmdastjóra sambandsins att á foraðið til að lýsa því fyrir Mbl.is hvernig skrifstofu SGS berist gríðarlegt magn símtala frá félagsfólki Eflingar sem í örvæntingu sinni vegna kjaradeilu félagsins vilji leita á náðir annara SGS félaga og þess kjarasamnings sem þau hafa gert,“ skrifar Sólveig Anna og vísar í frétt Moggans: Uggandi félagsfólk Eflingar í pattstöðu.

„Framkvæmdastjórinn segist ekki geta ráðlagt félagsfólki að skipta um félag sem er auðvitað rétt; ekki aðeins er óheimilt að skipta um félag í kjaradeilu heldur er það svo að ekkert æsir SGS-formenn meira upp en það að fólk sé skráð í vitlaus félög,“ heldur Sólveig Anna áfram. „Mörg er formannsins mæða þung en ekkert þungbærara en að missa félagsmann yfir á annað félagssvæði. Oft hef ég á SGS-fundum starað í forundran á fullorðna formenn gráti næst yfir því virðingarleysi sem verkafólk sínir félagssvæðum þeim sem formennirnir vaka yfir, teljandi félagsgjöldin kvölds og morgna.

Framkvæmdastjóri SGS ráðleggur því félagsfólki Eflingar ekki að skipta um félag en segir að „Við vonum aftur á móti að félagsmenn Eflingar taki afstöðu innan síns félags, með því að láta í sér heyra og taka þátt í atkvæðagreiðslum.“ Það er ekkert annað en magnað að upplifa þennan nýfundna áhuga framkvæmdastjórans á Eflingu, hann hefur hingað til bara alls ekki verið til staðar. Og það eru engar ýkjur.

Vissuð þið að Efling bókstaflega heldur SGS uppi með geigvænlegum fjáraustri á ári hverju sem Eflingar-fólk fær ekkert fyrir? Af þeim 19 félögum sem tilheyra SGS borgar Efling ein 46% af skattinum sem félögin greiða til að fjármagna fyrirbærið. Og ég er ekkert að ýkja, við fáum bókstaflega ekkert fyrir tug-milljónirnar okkar (nema auðvitað tækifæri til að kjósa formann SGS sem að auðvitað kann okkur Eflingar-fólki miklar þakkir fyrir að hafa komið sér til valda…). Þrátt fyrir að við séum langstærsta SGS-félagið, í hlutverki einhverskonar sponsors sem SGS gæti ekki rekið sig án og þrátt fyrir að við höfum ekkert fengið fyrir endalausar hrúgur af peningum Eflingar-fólks erum við svo lítils virði í augum þessa fólks að það er ekkert mál fyrir hvern formanninn á fætur öðrum og nú framkvæmdastjórann, að stíga fram til að reyna eftir bestu getu að grafa undan baráttu okkar fyrir því að Eflingar-fólk fái mannsæmandi laun.

Er þetta ekki magnað? Í stað að sýna smá manndóm og smá virðingu fyrir því sem að samninganefnd Eflingar tekst á við, er ráðist á okkur af öllu SGS-fyrirbærinu eins og ekkert sé. Þau, líkt og SA, sjá Eflingar-fólk aðeins sem eitthvað til að græða á. Ég vona að sá tími renni upp að við þurfum ekki lengur að láta þau hafa okkur að féþúfu. Sjálfsvirðing okkar hlýtur að beina okkur burt frá þeim sem vilja aðeins nota okkur í eigin þágu,“ lýkur Sólveig Anna pistli sínum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí