„Við ættum að styðja hvert það verkalýðsfélag láglaunafólks sem fer fram með launakröfur – jafnvel þó við höfum sjálf samið um annað og lægra. Þannig náði verkalýðshreyfingin árangri á fyrstu áratugum baráttunnar – sigrar unnust í mörgum smáorustum og launahækkun sem samið er um á einum stað – smitast fljótt út til annarra,“ skrifar Sverrir Albertsson, framkvæmdastjóri Afls stéttarfélags á Austurlandi og fyrrum frambjóðandi til forseta Alþýðusambandsins, í Kjarnann.
Tilefni eru viðbrögð þeirra Aðalsteins Árna Baldurssonar formanns Framsýnar á Húsavík og Vilhjálms Birgissonar formanns Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akranes við kröfum Eflingar í viðræðum við Samtök atvinnulífsins, en þær byggja meðal annars á að framfærslukostnaður er hærri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðunum.
Sverrir segir að launagreiðendur hafi lært að skipuleggja sig gegn ólíkum kröfum ólíkra félaga og hafi unnið hörðum höndum að því að smala öllu launafólki í eina rétt.
„Því miður með aðstoð frá verkalýðshreyfingunni,“ segir Sverrir. „Margumrætt Salek samkomulag snerist einmitt um að smala öllum í eina rétt og það sem samið væri fyrir einn – myndi svo gilda um alla. Salek þýðir því og hefur alltaf þýtt að sjálfstæði hvers verkalýðsfélags er skert og samningsrétturinn færður í einhverja „sátt“ sem snýst um niðurstöðu úr excel skjali sem sýnir hvað er eftir til ráðstöfunar eftir m.a. arðgreiðslur og ofurlaun stjórnenda.“
„Verkalýðsbarátta á ekki að snúast um persónur og leikendur heldur félagsmennina sem fá laun skv. gerðum kjarasamningum,“ skrifar Sverrir. „Hvort fólki líkar við formann Eflingar eða ekki, eða er sammála málflutningi hennar eða ekki – skiptir bara engu máli. Það eru komandi kjarasamningar Eflingar sem skipta máli og ekki bara fyrir félagsmenn Eflingar heldur alla félagsmenn í aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins. Því nái Efling betri samningi en aðrir hafa gert er næsta víst að eitthvað af þeim hækkunum munu ganga út til annarra félaga í formi launaskriðs og annað mun nást í samningum eftir 12 mánuði.
Nú þegar ljóst er að það stefnir í verkfallsátök í Reykjavík er fullt tilefni til að blása til samstöðu innan Starfsgreinasambandsins og að aðildarfélög þess veiti Eflingu þann stuðning sem þarf.“