Tillögur kvótanefndar Svandísar í algjörri andstöðu við stefnu Vg

Sigurjón Þórðarson fyrrum þingmaður frjálslynda flokksins, segir tillögur starfs­hóp­a um stefnu­mót­un í mál­um fiskveiðiauðlind­ar­inn­ar vera algjörlega þvert á stefnu Vg í sjávarútvegsmálum. Með því að taka undir þessar tillögur sé Svandís Svavarsdóttir að tala gegn stefnunni sem flokkssystkini hennar hafa mótað. Sigurjón segir réttast af Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að reka Svandísi úr ríkisstjórninni.

Sigurjón segir eitt af einkennum tillagnanna að þar séu kvenréttindi, réttindi hinsegin fólks og umhverfissjónarmið breidd yfir mesta óréttlæti samfélagsins, sem sé hvernig sameiginlegri auðlind landsmanna sé færð örfáum sem hafi auðgast af nýtingu hennar. Þetta fólk auki síðan enn við auð sinn með því að selja afurðirnar í gegnum sölufyrirtæki í skattaskjólum. Það myndi engin önnur þjóð líða. En á því er ekkert tekið í tillögunum. Starsfhóparnir blessa það allt.

Starf nefndarinnar er ósnert af Samherjamálinu, segir Sigurjón. Og það er eins og nefndarfólkið hafi ekki séð Verbúðina, sem snerti við öllum öðrum landsmönnum. Þessi vinna snýr ekki að neinu sem hneykslar allan almenning.

Kannanir hafa sýnt að mikill meirihluti landsmanna er andvígur kvótakerfinu og aðeins örlítill minnihluti ver það og styður. Hvernig má það þá vera nefnd sem byggja á upp sátt um sjávarútveginn komist að þeirri niðurstöðu að kvótakerfið sé í öllum meginatriðum gott og að litlu þurfi að breyta og engu í grundvallaratriðum?

Sigurjón segist hafa farið yfir fólkið í starfshópunum þegar þeir voru skipaðir. Meðal almennings er fáir sem styðja kvótakerfið en meginþorrinn er á móti því. Meðal nefndarmanna er hlutfallið þveröfugt. Meginþorri nefndarfólks er fólk sem hefur starfað í eða við sjávarútveg og aldrei andmælt kerfinu á nokkurn hátt. Þeir fáu í hópunum sem hafa lýst yfir efasemdum um kerfið eru í miklum minnihluta. Lýðræðinu hefur því verið snúið á haus, búinn til hópur til að leita að sátt sem endurspeglar þjóðina alls ekki og snýr í raun öllu á hvolf.

Sigurjón segir það undarlegasta að ráðherra Vg skuli tala fyrir stefnu sem í öllum meginatriðum er þvert á þá stefnu sem flokkur hennar hefur mótað. Hann segist vilja heyra afstöðu annarra þingmanna Vg, hvort þeir sætti sig við þetta. Og segir að ef Katrín Jakobsdóttir vilji verja flokk sinn ætti hún að reka Svandísi úr ríkisstjórninni. Það geti ekki gengið að flokkar móti stefnu í mikilvægum málum en síðan tali ráðherra fyrir stefnu sem tekur ekkert tillit til stefnu síns flokks, þeirra sem kusu hana. Þessar tillögur geri lítið úr Vg og því sem sá flokkur segist standa fyrir.

Það má hlusta og horfa á samtalið við Sigurjón í spilaranum hér að ofan.

Hér má lesa tillögurnar: Bráðabirgðaniðurstöður Auðlindarinnar okkar

Myndin sem fylgir fréttinni er af Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra og Eggerti Benedikt Guðmundssyni, sem er formaður eins af starfshópunum fjórum á kynningarfundi bráðabirgðatillagna.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí