Verfallsbylgjan er komin á fullan skrið í Bretlandi á nýju ári. Fyrstu verkföllin hefjast á Norður Írlandi í þessum mánuði og munu þá 4000 heilbrigðisstarfsmenn bætast við hóp verkfallsmanna á Englandi. Ríkisstjórnin stendur föst fyrir og krefst þess að launahækkanir verði töluvert undir verðbógunni sem eðlilega leggst illa í verkafólk. Á sama tíma er ágóði fyrirtækja í hæstu hæðum.
Heilbrigðisstarfsmenn, lestarstarfsmenn, póstberar og háskólastarfsmenn hafa verið áberandi í baráttunni með verkföllum í tæpa tvo mánuði. Í Bretlandi er algengast að verkalýðsfélög fari í verkfall í 24-48 stundir í senn og endurtaki leikinn þar til skriður kemst á viðræður. Harkan er að aukast. Ríkisstjórnin boðar löggjöf sem myndi þvinga starfsfólk til að hunsa verkfallsvörslu og ganga í störf verkfallsmanna eða vera rekið úr starfi. Verkalýðsforystan er æf yfir þessu. Paul Nowak, nýr leiðtogi TUC (ASÍ Bretland), fordæmdi „ólýðræðislegar, óframkvæmanlegar og ólöglegar“ fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar og sagði hana „staðráðna í að ráðast á grundvallarréttindi Breta, réttinn til að fara í verkfall“. Hann bætti við að „ráðherrar Íhaldsflokksins hafa farið frá því að klappa fyrir lykilstarfsfólki yfir í að reka það“.
Ríkisstjórnin heldur því fram að ekki sé til fjármagn til að hækka laun starfsfólks. Á móti hefur verið bent á bruðl ráðherra með almannafé í milljarðasamningum við vini og vandamenn stjórnarinnar þar sem tugum milljarða var hent í ónýta samninga og ónothæf kerfi, sérstaklega í Kóvidfaraldrinum. Ofsagróði fyrirtækja, sérstaklega í orkugeiranum er ekki skattlagður meðan að heilbrigðiskerfið er í rúst. Sharon Graham, leiðtogi stærsta verkalýðsfélags Bretlands, bendir á að ríkisstjórnin sé viljandi að láta almenning borga meðan þeir ríkari verði sífellt ríkari. Það sé vel hægt að bjarga NHS, til þess þarf einungis pólitískan vilja. Yfirlýsingu Graham má horfa á hér:
Unite Investigates Budget context and why different choices can be made.
Í dag hófu sjúkrabílaökumenn verkfall en það er mjög sjaldgæft að þeir neyðist til þess. Jeremy Corbyn, fv. leiðtogi Verkamannaflokksins vær mættur í verkfallsvörslu í kjördæmi sínu í Islington eins og hann gerir nær undantekningalaust. Hann benti á að það eru ekki verkafólk í verkfalli sem skapa hættu heldur eru það meðvitaðar stjórnvaldsaðgerðir sem svelt hafa almannaþjónustuna í árafjölda.
Það er ljóst að verkafólk er alls ekki að gefast upp í Bretlandi, þrátt fyrir stanslausar árásir stjórnvalda og hægripressunar á verkföllin. Stanslaust er ráðist að róttækum verkalýðsleiðtogum eins og Sharon Graham og Mark Lynch, en þrátt fyrir það njóta verkföllin mikils stuðnings og skilnings almennings og hefur ríkisstjórnin aldrei verið óvinsælli.