Vg í andstöðu við eigin ungliða og mannúðarsamtök

Flóttafólk 24. jan 2023

Ungliðahreyfingar mannúðarsamtaka og stjórnmálasamtaka hafa myndað hóp sem kallast Fellum útlendingafrumvarpið og er ætlað að koma í veg fyrir samþykkt Alþingis á frumvarpi Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum. Ráðherrar Vg hafa samþykkt framlagningu frumvarpsins. Ung vinstri græn eru meðal samtakanna sem standa að samtökunum Fellum útlendingafrumvarpið.

Í yfirlýsingu hópsins segir að samtökin styðji og taki undir umsagnir Íslandsdeildar Amnesty International, Kvenréttindafélags Íslands, SOLARIS, Rauða krossins, Unicef á Íslandi, UN Women og Þroskahjálpar. Öll þessi mannúðarsamtök hafa hafnað frumvarpinu.

„Við sem ungmenni í landinu höfum verulegar áhyggjur af skelfilegri þróun núverandi ríkisstjórnar í málefnum útlendinga,“ segir í yfirlýsingu ungmennasamtakanna. „Við krefjumst þess að allar lagabreytingar sem standa til skulu vera gerðar með mannréttindi að leiðarljósi. Frumvarpið stangast á við ákvæði í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er lögfestur í íslenskum lögum. Þar með ber stjórnvöldum skylda til að fylgja honum. En í 3. gr. Barnasáttmálans kemur fram að stjórnvöld eigi að taka ákvarðanir sem varða börn, byggt á því sem er börnunum fyrir bestu. Auk þess þá brýtur frumvarpið 1. gr. jafnréttislaga. Frumvarpið veitir stjórnvöldum heimild til að senda flóttamenn til ríkja sem ekki eru talin örugg móttökuríki eins og Rauði krossinn hefur bent á.“

Tekin eru dæmi af Ungverjalandi og Grikklandi. „Þetta er brot á mannréttindum og réttindum barna,“ segir í yfirlýsingunni. „Með þessu frumvarpi verða konur á flótta settar í enn viðkvæmari stöðu og þá eykst hættan að þær verði fyrir ofbeldi í sínu heimalandi eða öðrum óöruggum móttökuríkjum. Einnig hefur þetta áhrif á aðra jaðarhópa og fólk í viðkvæmri stöðu og þetta frumvarp stefnir þeim í hættu. Frumvarpið tekur ekki tillit til fatlaðs fólks, hinsegin og trans einstaklinga. Það verður að taka tillit til sérstöðu fólks þar sem lagabreytingarnar munu ekki hafa sömu áhrif á allt fólk.“

„Við teljum að harkalegri og strangari stefna í málefnum flóttafólks og umsækjanda um alþjóðlega vernd sé röng leið að skilvirkari kerfi,“ segir í yfirlýsingu samtakanna. „Það að skerða verulega rétt flóttamanna að fá mál sín skoðuð nægilega vel, á grunni rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar og réttlátrar málsmeðferðar, er mannréttindabrot. Í frumvarpinu kemur fram að heilbrigðisþjónusta, lágmarksaðstoð og réttur til húsnæðis falli niður 30 dögum eftir synjun á alþjóðlegri vernd. Það veldur okkur miklum áhyggjum að velferð og öryggi flóttamanna sé hunsað í þessu frumvarpi og að þau njóti ekki grundvallarmannréttinda.“

Undir þetta skrifa Ungliðahreyfing Íslandsdeild Amnesty International, Ungmennaráð Þroskahjálpar, Ungmennaráð Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, Ungmennaráð UN Women á Íslandi, Ungir umhverfissinnar, Röskva – stúdentahreyfing, Háskólafélag Amnesty, Femínistafélag Háskóla Íslands, Q – félag hinsegin stúdenta / Q – Queer Student Association, Ung vinstri græn – UVG, ROÐI – Ungir Sósíalistar, Ungt jafnaðarfólk, Ungir Píratar og Uppreisn: Ungliðahreyfing Viðreisnar. Skorað er á dómsmálaráðuneytið, forseta Alþingis Birgi Ármannsson og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að draga frumvarpið til baka og vinna það upp á nýtt í samstarfi við fagaðila þar sem virðing fyrir jafnrétti og mannréttindum eru höfð í hávegum.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí