Efling hunsar óformlegan fund ríkissáttasemjara

Fulltrúar Eflingar mættu ekki á fund um fyrirkomulag atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins í morgun. Fundurinn hófst klukkan hálf tíu í morgun.  Efling segir að ekki hafi verið boðað til fundarins með formlegum hætti auk þess sem Eflingu hafi ekki verið gefið ráðrúm til að boða samninganefndinan með á fundinn.

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í gær að miðlunartillaga ríkissáttasemjara væri lögmæt og Eflingu bæri því að afhenda félagatal Eflingar sem ekki hefur enn orðið.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar skrifar á Facebook vegg sinn í morgun að það sé alrangt sem komi fram í fjölmiðlum að ekki verði af fundi hjá ríkissáttasemjara vegna fjarveru Eflingar. Hún segir ekkert formlegt fundarboð hafi borist frá embættinu. „Ég sendi ríkissáttasemjara póst síðast í gærkvöldi kl. 21 þar sem ég ítrekaði afstöðu Eflingar og tilkynnti um að félagið myndi krefjast þess að skipaður yrði staðgengill ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og SA, póst sem að ríkissáttasemjari hefur ekki svarað” segir hún.

Þá birti Efling eftirfarandi yfirlýsingu á heimasíðu sinni í gær:

„Efling – stéttarfélag hefur móttekið erindi frá Aðalsteini Leifssyni ríkissáttasemjara þar sem félagið er boðað á fund sem sagður er eiga að vera um atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu embættisins.

Efling mun að sjálfsögðu hlíta endanlegri niðurstöðu dómstóla. Sú niðurstaða liggur ekki fyrir þó ríkissáttasemjari láti sem svo sé.

Efling hefur þegar kært niðurstöðuna til Landsréttar enda mikilvægt að leyst sé úr málinu fyrir æðri dómstól. Allir eru sammála um að málið er án fordæma og um leið mjög mikilvægt.

Efling trúir því ekki að ríkissáttasemjari ætli að þvinga fram aðför á grundvelli niðurstöðu lægra dómstigs á meðan beðið er eftir endanlegri niðurstöðu æðri dómstóla. Með því væri ríkissáttasemjari sem stjórnvald að grípa fram fyrir hendur dómstóla og um leið að skerða rétt Eflingar til réttlátrar málsmeðferðar. Síðast en ekki síst væri ríkissáttasemjari að svipta allan vinnumarkaðinn tækifærinu á að fá skýrt fordæmi frá æðri dómstól.

Þar sem ríkissáttasemjari hefur auglýst opinberlega að hann hafi boðað fulltrúa Eflingar á sinn fund vill félagið birta opinberlega svar sitt við erindi hans. Fylgir það hér:

Sæll Aðalsteinn.

Niðurstaða héraðsdóms í dag er óumdeilanlega kæranleg til Landsréttar.

Efling lýsti því samstundis yfir í héraðsdómi í dag að úrskurðinn væri kærður.

Efling stefnir að því að leggja öll gögn fram í kærumálinu á morgun þannig að hraða megi málsmeðferð kærumálsins.

Ég minni á að þitt embætti lagði mikla áherslu á að málinu yrði hraðað verulega í héraðsdómi.

Efling gerði allt til að svo mætti vera. Efling skilaði greinargerð ásamt öllum sínum gögnum og flutti málið, allt á fjórum sólarhringum.

Efling gerir ráð fyrir að Ríkissáttasemjari sýni Eflingu sömu kurteisi og virðingu.

Fyrst og fremst gerir Efling ráð fyrir því að Ríkissáttasemjari hafi ekki af stéttarfélaginu þá réttlátu málsmeðferð sem felst í úrlausn á tveimur dómstigum.

Efling mun að sjálfsögðu hlíta niðurstöðu dómstóla, verði hún endanleg.

Eins og bent hefur verið á er hin umbeðna kjörskrá ekki til en hana þarf að útbúa sérstaklega.

Verði Ríkissáttasemjari ekki við þessari sjálfsögðu ósk um að klára málið endanlega er óskað eftir rökstuðningi fyrir því. Ég er tilbúin að mæta á fund á morgun til þess að ræða málin frekar. Ég kemst aftur á móti ekki kl. 10.15 eins og þú leggur til þar sem að ég er önnum kafin við að undirbúa verkfallsaðgerðir og fundahöld þeim tengd fyrir hádegi og fram eftir degi. Einnig tekur það mig tíma að boða samninganefnd á fundinn sem hér um ræðir.

Kveðja, Sólveig Anna Jónsdóttir
Efling – stéttarfélag Formaður“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí