Veifuðu bréfi frá Halldóri Benjamín sér til varnar

Verkalýðsmál 8. feb 2023

„Verkfallsverðir Eflingar urðu í dag vitni að ásetningsbrotum Íslandshótela gagnvart verkfallsaðgerðum félagsins,“ segir í yfirlýsingu Eflingar. „Var verkfallsvörðum meinaður aðgangur að rýmum og fyrirskipað án raka að aðeins mættu tveir verkfallsverðir fara inn á hvert hótel í einu. Tilgangur fyrirtækisins með þessu var augljóslega að hlyma yfir verkfallsbrotum. Fulltrúar Íslandshótela veifuðu bréfi undirrituðu af Halldóri Benjamín Þorbergssyni framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins sér til varnar.

Áfram heldur tilkynningin: „Verkfallsverðir Eflingar sinntu verkfallsvörslu í dag eftir hádegið á Grand Hótel, en einungis tveimur var hleypt inn. Var þeim fylgt um húsnæðið af öryggisverði í hverju fótmáli. Verkfallsverðir komu á 6. hæð hótelsins að starfsfólki sem hafði verið fyrirskipað af stjórnendum að ganga í störf Eflingarfélaga í verkfalli, sem er verkfallsbrot. Óskuðu verkfallsverðir eftir að ræða við starfsfólkið og biðja það að taka ekki þátt í verkfallsbrotum. Ýtti þá öryggisvörður Íslandshótela verkfallsvörðum með handafli af vettvangi.

Eflingarfélagar komu saman um hálf þrjú leytið við Fosshótel Reykjavík, þar sem sama framganga hafði verið viðhöfð gegn verkfallsvörðum. Var framkomu fyrirtækisins mótmælt og Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar ávarpaði hópinn. Hvatti hún jafnframt gesti hótelsins til að standa með Eflingarfélögum og líða ekki verkfallsbrot. Komu þar fljótlega aðvífandi lögmenn Samtaka atvinnulífsins og var dyrum hótelsins læst. Stóð nærvera Eflingarfélaga við hótelið yfir í nokkra stund og voru sóttar kaffiveitingar.

Sólveig Anna setti á staðnum fram þá kröfu að verkfallsverðir fengju að fara inn á hótel Íslandshótela fimm saman í hóp. Eftir nokkra stund var orðið við kröfunni og fóru Eflingarfélagar þá af vettvangi að frátöldum fimm verkfallsvörðum sem sinntu í kjölfarið verkfallsvörslu eins og eðlilegt er.

Félagið hafnar með öllu ósannindum sem Íslandshótel hafa sent til fjölmiðla í dag um að verkfallsverðir Eflingar hafi haft uppi ótilgreindar „hótanir“. Slíkt er hreinræktaður uppspuni og dæmigert fyrir villandi upplýsingar fyrirtækisins til starfsfólks síns og almennings á síðustu viku.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí