60% verðmunur á nautalund

Dýrtíðin 30. mar 2023

Bónus var með lægsta meðalverð á matvöru í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ sem framkvæmd var 28. mars. Verð í Bónus var að meðaltali 4% frá lægsta verði og verð í Krónunni 8%. Fjarðarkaup var 13% frá lægsta verði, Nettó 15% og Kjörbúðin og Hagkaup 22%. Heimkaup var með hæsta meðalverð sem var að meðaltali 36% hærra en lægsta verð en verð í Iceland var 35% frá lægsta verði. Yfir 40% munur var á hæsta og lægsta verði á helmingi varanna í könnuninni eða á 73 vörum af 142. Þar af var yfir 60% verðmunur á 47 vörum. Sem dæmi má nefna 101% verðmun á kílóverði af ódýrasta samlokubrauði sem fékkst í verslununum, 60% verðmun á frosinni nautalund, 48% verðmun á kjúklingastrimlum og 166% verðmun á lægsta kílóverði af rauðkáli.

Meðalverð í Fjarðarkaup og Nettó á svipuðum slóðum

Bónus var með lægsta meðalverðið sem var 4% frá lægsta verði. Lægsta verð á hverri vöru tekur gildið 0 sem þýðir að ef ein verslun hefði verið með lægsta verð á öllum vörum hefði hún fengið gildið 0. Krónan var 8% frá lægsta verði, Fjarðarkaup 13% og Nettó 15%. Heimkaup var lengst frá lægsta verði, að meðaltali 37% og Iceland 35%. Meðalverð varpar betra ljósi á verðlag á vörum í könnuninni í öllum verslunum en talning á fjölda tilfella þar sem verslanir eru með hæsta og lægsta verð. Fjöldi tilfella segir lítið til um verðlag í þeim verslunum sem eru hvorki oft með hátt né lágt verð.

Bónus var oftast með lægsta verðið, í 78 tilvikum, Fjarðarkaup næst oftast, í 33 tilvikum og Krónan í 22 tilvikum. Iceland var oftast með hæsta verðið, í 53 tilvikum, Heimkaup í 44 tilvikum og Hagkaup í 28 tilvikum. Af þeim vörum sem voru til skoðunar í könnuninni átti Fjarðarkaup flestar, 139 af 140 en Hagkaup fæstar, 100.

126% munur á kílóverði af kleinum og 265% munur á lítraverði af fljótandi þvottaefni

Oft var mikill munur á hæsta og lægsta verði á kjöt- og fiskvöru. Þannig var 60% munur á hæsta og lægsta kílóverði af frosinni nautalund. Lægst var verðið í Nettó, 4.999 kr. en hæst í Heimkaup, 7.998 kr. Þá var 67% verðmunur á frosinni kalkúnabringu en lægsta kílóverðið var að finna í Fjarðarkaup, 2.869 kr. en það hæsta í Nettó og Iceland, 4.799 kr. Mikill munur var á fleiri vörum þar sem lægsta kílóverð var skoðað en sem dæmi var 126% munur á kílóverði á kleinum sem var lægst í Iceland, 1.373 kr. en hæst í Kjörbúðinni, 3.102 kr. Þá var 72% verðmunur á hæsta og lægsta kílóverði á frosnum croissant. Lægst var verðið í Bónus, 1.269 kr. en hæst í Fjarðarkaup, 2.179 kr.

Þá var 166% munur á lægsta kílóverði á rauðkáli í krukku eða dós, 206% verðmunur á hæsta og lægsta kílóverði af frosnu mangói, 117% munur á kílóverði af haframjöli og 265% munur á lítraverði af fljótandi þvottaefni frá Neutral. Í töflunni má skoða öll verð en með því að ýta á nafnið á vörunni raðast verslanirnar eftir hæsta og lægsta verði.

Einnig var mikill verðmunur á vörum af sömu stærð og frá sama vörumerki og var til að mynda 48% munur á hæsta og lægsta verði á Hellmanns majonesi sem kostaði minnst, 399 kr. í Fjarðarkaup og mest í Hagkaup, 589 kr. Þá má nefna 70% eða 724 kr. verðmun á Gretti osti Goðadala sem kostaði minnst, 1.035 kr. í Fjarðarkaup en mest, 1.759 kr. í Iceland. Þá var 50% munur á hæsta og lægsta verði á Úrvals flatkökum, 49% verðmunur á kanilsnúðum frá Kexsmiðjunni, 57% verðmunur á Capri sun djús, 77% munur á karamellu Nóa kroppi, 96% verðmunur á Stjörnu osta poppi, 42% munur á Lavazza kaffihylkjum og 78% verðmunur á Nivea kremi svo dæmi séu tekin.

Um könnunina

Ýmsar aðferðir eru til að varpa ljósi á niðurstöður í verðkönnunum með mörgum vörum og verslunum. Til að skýra betur verð hjá þeim verslunum sem eru hvorki oft með hæsta né lægsta verðið í verðkönnun og finna út meðalverð má reikna út hlutfallslegt frávik frá lægsta verði hverrar vöru. Þannig raðast verslanirnar eftir því hversu langt verð á vörum í könnuninni er að meðaltali frá lægsta verði.

Í könnuninni var hilluverð á 140 vörum skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina.

Frétt af vef Alþýðusambandsins.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí