Jón „hefur ekki bara útvegað VG líkkistu heldur einnig rekið síðasta naglann í kistuna“

Alþingi samþykkti í kvöld útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra, Jóns Gunnarssonar. Allir þingmenn stjórnarflokkanna greiddu atkvæði með frumvarpinu, þar með taldir þingmenn VG.

Eiríkur Rögnvaldsson, fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands, segir á Facebook að það sé viðeigandi að Jón selji líkkistur í hjáverkum. Því með þessu frumvarpi Jóni hafi tekist að reka síðasta naglann í kistuna hjá VG.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Eiríks um málið í heild sinni.

Fyrir Landsfundi VG sem á að halda um helgina liggur eftirfarandi ályktun um útlendingamál, lögð fram af fólki í grasrót flokksins:

„Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 leggur áherslu á mikilvægi þess að öll stjórnsýsla sé vönduð er varðar málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd, flóttafólks og innflytjenda. Allar lagabreytingar í málaflokknum þarf að vanda vel og vinna í tengslum við móttöku og inngildingu innflytjenda í samfélagið.

Landsfundurinn fagnar vandaðri vinnu við gerð fyrstu heildarstefnumótunar í málefnum innflytjenda sem félagsmálaráðherra setti af stað í ársbyrjun, og undirstrikar að sú stefnumótun skuli vera lögð til grundvallar öllum lagabreytingum í málaflokknum. Leggst landsfundurinn eindregið gegn frumvarpi dómsmálaráðherra til breytinga á lögum um útlendinga sem lagt hefur verið ítrekað fram á Alþingi. Jafnframt fordæmir landsfundurinn þá útlendingaandúð sem hefur verið viðhöfð í tengslum við umræðu um frumvarpið. Er það sérstaklega alvarlegt þegar kjörnir fulltrúar nýta sér valdastöðu sína til að dreifa röngum upplýsingum og gróusögum um málaflokkinn. Öll samfélagsumræða um jaðarsetta og viðkvæma hópa, ekki síst fólk á flótta, verður að byggja staðreyndum og virðingu.“

Þetta er fín ályktun. En hvað með fólkið sem leggur hana fram? Ætlar það að mótmæla því að þingflokkurinn skuli hafa samþykkt frumvarp sem „einkennist af útlendingaandúð og virðist hafa það eitt að markmiði að neita fleirum, enn hraðar, um hæli“ um leið og fólki er „refsað með ómannúðlegri og ómanneskjulegri meðferð“? Eða ætlar það bara að láta eins og ekkert hafi í skorist? Var þetta bara smásprikl til að róa grasrótina?

Það var mjög táknrænt þegar það kom fram um daginn að dómsmálaráðherra hefði innflutning á líkkistum sem aukabúgrein. Nú hefur hann ekki bara útvegað VG líkkistu heldur einnig rekið síðasta naglann í kistuna eftir að hafa aðstoðað dyggilega við kistulagninguna með því að niðurlægja VG í rafbyssumálinu og láta flokkinn kokgleypa útlendingafrumvarpið.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí