Reiði blandast sorg í Grikklandi

Sviplegt lestarslys hefur sett sitt mark á grískt samfélag undanfarnar vikur. Minnst 57 létu lífið þegar lestir milli Aþenu og Þessalóniku skullu saman þann 28.febrúar síðastliðinn. Meðfram þjóðarsorg hefur blossað upp reiðialda meðal ungs fólks, sem er sannfært um að koma hefði mátt í veg fyrir slysið.

Raunar fóru lestarstarfsmenn í verkfall árið 2020 þar sem krafist var bætts öryggis í Grikklandslestum. Gríska lestarkerfið, sem var einkavætt árið 2017 að kröfu evrópskra lánadrottna, hefur legið undir ámæli frá almenningi fyrir að sinna almannaþjónustu – og öryggi illa, í gegnum vanfjármagnaðar ríkisstofnanir, en leggja þess í stað áherslu á að skila hluthöfum sem hæstum arðgreiðslum. Þess vegna sé fólk ekki aðeins sorgmætt yfir atburðunum heldur líka reitt.

Um helgina sóttu tugþúsundir Grikkja fjöldasamkomur í Þessalóniku og Aþenu í samstöðu með þeim sem eiga um sárt að binda. Krafa mótmælenda var skýr: að þeir sem bæru ábyrgð yrðu dregnir til ábyrgðar og að ferðaöryggi vegfarenda yrði tryggt, þannig að fleiri þyrftu ekki að syrgja sína nánustu.

Mótmælendur í Aþenu halda á borðum þar sem á stendur: Þau voru námsfólk. Vagnarnir sukku í blóð námsfólksins.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí