Ringulreið og úrræðaleysi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur

Efnahagurinn 24. mar 2023

„Nú er búið að semja að stærstum hluta við launafólk á almennum vinnumarkaði. Síðan þeir samningar voru undirritaðir hefur verðbólga aukist, stýrivextir hækkað og kaupmáttur launa dregist saman. Við þurfum ekki að kalla til neina sérfræðinga til að sjá að kjarasamningar sem undirritaðir voru eru brostnir í þessari ringulreið og úrræðaleysi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur formanns Vinstri grænna, sem vel á minnst kenna sig við félagshyggju. Þvílík öfugmæli,“ skrifar Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis í tilefni af vaxtahækkun Seðlabankans.

„Við erum ekki í þessu saman eins og ríkisstjórnin vill vera láta, heldur eru láglauna- og millitekjuhóparnir það fólk sem þessi hagstjórn bitnar verst á,“ skrifar Þórarinn í grein á Vísi. „Ungar fjölskyldur sem hafa á undanförnum árum fjárfest í dýru húsnæði eru komnar í mikinn vanda vegna ört vaxandi kaupmáttarrýrnunar því ríkisstjórnin vill ekki skattleggja fjármagnseigendur, hækka bankaskatt, gera kröfur á arð stórútgerðarinnar og stórfyrirtækja og allra síst styggja vini sína í fjármagnstekjukampavínsbaðinu. Hér er verið að hlífa breiðu bökunum og varpa ábyrgðinni á þá hópa samfélagsins sem bera nú þegar þyngstu byrðarnar. Þetta getur ekki haldið svona áfram. Núverandi ríkisstjórn vinnur að sundrungu á vinnumarkaði og sundrungu í samfélaginu þegar við þurfum samstöðu til að mæta framtíðinni.

Við þessar aðstæður vex verðbólgan hratt því fyrirtækin velta bæði stýrivaxtahækkunum og launahækkunum beint ofan í buddu almennings. Okkur er talin trú um að við búum við svokallaðan frjálsan markað en ríkisstjórnin hefur skapað hér á landi reglulausan markað án eftirlits. Kjörveiðilendur kapítalistanna.

Ef ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur væri umhugað um þjóðina myndi hún styrkja samstöðuna og vinna að jafnara samfélagi. Í samvinnu við fólkið í landinu, almennt launafólk, yrðu settar hér haldgóðar reglur um hinn frjálsa markað og réttláta skiptingu auðlegðar lands og þjóðar.

Bankarnir stórgræða á vaxtaákvörðunum Seðlabankans. Þrír stærstu bankarnir högnuðust um 70 milljarða króna á síðasta ári og vaxtatekjur þeirra, sem eru stærsta tekjulind bankanna, jukust um 24 prósent milli ára. Þá greiddu þessir þrír bankar sér út samtals 64,8 milljarða króna í arð og þar fór Arion banki hamförum í arðgreiðslum og greiddi út 32,3 milljarða til eigenda sinna.“

Greinin má lesa í heild hér: Látum þau bara borga brúsann

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí