Um helgina fór fram merkilegur fundur í húsakynnum Washington háskóla í Seattle. Þar voru komnir saman fulltrúar fjölda verkalýðsfélagar víðs vegar í Bandaríkjunum auk baráttufólks eins og Chris Hedges sem hvatti fundarfólk áfram á upptöku sem sýnd var á stórum skjá. Fundurinn var upphaf nýrrar hreyfingar, Workers Strike Back (WSB), sem sósíalistinn Kshama Sawant hefur forgöngu um með stuðningi flokks síns Socialist Alternative. Kshama tilkynnti nýlega að hún hygðist ekki bjóða sig fram til borgarráðs Seattle borgar þar sem hún hefur setið í áratug.
Hugmyndin er að byggja upp öfluga hreyfingu vinnandi fólks sem hafi afl til að styðja kröftuglega við baráttu láglaunafólks í Bandaríkjunum. Aðeins um 7-8% Bandaríkjamanna eru í verkalýðsfélagi en áhugi og stuðningur við verkalýðsfélög hefur farið vaxandi undanfarin ár. Ætla má að ástæðan sé sívaxandi ójöfnuður, dýrtíð og stéttaskipting innan Bandaríkjanna sem hefur valdið miklum samdrætti í millistéttinni þar í landi.
Verkafólk slær til baka
Á næstu vikum fara samskonar fundir fram í mörgum borgum Bandaríkjanna en á fundinum í Seattle voru sem dæmi mættir fulltrúar verkafólks sem berjast gegn sumum stærstu fyrirtækjum heims líkt og Starbucks og Amazon. Þar má nefna fulltrúa Starbucks Workers United og Unionize Amazon. Workers Strike Back er ætlað að styðja verkafólk sem berst fyrir grunnréttindum sínum og því að skipuleggja og stofna verkalýðsfélög. Hreyfingin hefur að auki sett fram fimm kröfur sem á að berjast fyrir en skýrar og öflugar kröfur eru eitt af því sem myndar kjarnann í baráttu hreyfingarinnar. Skýrar og öflugar kröfur séu nauðsynlegar til að sameina hreyfinguna um vel skilgreind baráttumál.
Hreyfingin vill raunverulegar launahækkanir fyrir verkafólk. Að allt verkafólk hafi aðgang að góðum störfum sem séu innan verkalýðsfélaga. Að berjast gegn rasisma, kynjamismunun, og kúgun hvers konar. Að allir hafi rétt á góðu húsnæði á viðráðanlegu verði og ókeypis heilbrigðisþjónustu. Og síðast en ekki síst vill hreyfingin stefna að stofnun nýs stjórnmálaflokks fyrir verkafólk sem geti verið valkostur við Demókrata og Repúblikana.
Auk fulltrúa frá framangreindum verkalýðsfélögum var mættur á fundinn Mike Forster frá systurhreyfingunni í Bretlandi sem nefnist Enough is Enough. Mike, eins og fleiri á fundinum, lagði mikla áherslu á aflið sem felst í verkfallsvopninu og benti fundargestum á að á Bretlandi hafi ekki verið fleiri verkföll í fjörutíu ár.
Þegar við berjumst, þá sigrum við
Mikill samhljómur var meðal þeirra sem komu fram á fundinum. Margir töluðu um mikilvægi þess að verkafólk berjist sjálft fyrir réttindum sínum og að tilgangslaust sé að bíða eftir hetju sem komi og færi verkafólki aukin réttindi á silfurfati. Það sé undir verkafólki sjálfu komið að berjast fyrir frelsi og réttlæti. Í því samhengi sé nauðsynlegt að byggja á baráttusækni. Atvinnurekendur munu aldrei gefa neitt eftir nema í fulla hnefana og það sé mikilvægt að óttast ekki átök. Það sé með átökum og baráttu sem verkafólk vinni sigra. Ekki með samvinnu við atvinnurekendur eða með því að höfða til samvisku þeirra. „Þegar við berjum, þá sigrum við“ (When we fight, we win) er einmitt slagorð hreyfingarinnar.
Barátta byggð á stétt ekki sjálfsmynd
Nina Wurz, meðlimur Carpenters Union, lagði í sinni ræðu áherslu á að skipuleggja baráttuna á grunni stétta en ekki sjálfsmyndar. Það þýði ekki að hreyfingin muni ekki einmitt berjast gegn hvers konar kúgun og ofbeldi, svo sem kynbundinni kúgun og rasisma. Það sé stétt sem sameini verkafólk þvert á kyn og bakgrunn. Ein af kröfum Workers Strike Back er að berjast gegn hvers konar kúgun. Nina Wurz sagði svo í sinni ræðu að það væri kominn tími til að verkafólk taki verkalýðsfélögin í eigin hendur „og geri þau að þeim lýðræðislegu og herskáu baráttutækjum sem þau eiga að vera“.
Hafna samvinnu við atvinnurekendur
Annað þema sem kom skýrt fram á fundinum var höfnun hvers konar samvinnu við atvinnurekendur og höfnun verkalýðsbaráttu sem hefur verið kennd við „business unionism“. Það er sú tegund verkalýðsbaráttu sem tekið hefur yfir stærstan hluta verkalýðshreyfingarinnar á Vesturlöndum, í Bandaríkjunum og á Íslandi, og byggir á samvinnu og samtali við atvinnurekendur í von um að þeir sættist á aukin réttindi og hærri laun án verkfalla og herskárrar baráttu. Það sé kominn tími til að viðurkenna raunveruleikann og þá staðreynd að atvinnurekendur séu andstæðingar verkafólks en ekki samherjar. Einn þeirra sem gagnrýndi slíka verkalýðsbaráttu var Connor Brennan fulltrúi Starbucks Workers United sem benti á tengsl Demókrataflokksins við hina stofnanavæddu verkalýðshreyfingu sem neiti að berjast og stundi frekar stéttasamvinnu.
Samhljóða baráttu Sólveigar Önnu og Baráttulistans
Athyglisvert er að fylgjast með íslenskri verkalýðsbaráttu í þessu samhengi. Miðað við það sem kom fram á viðburðinum berjast þessar hreyfingar í Bretlandi og Bandaríkjunum að stórum hluta fyrir því sama og Baráttulisti Sólveigar Önnu og byggja á sömu hugmyndum um endurvakningu róttækrar verkalýðsbaráttu. Það er að verkafólk sjálft taki við stjórn verkalýðshreyfingarinnar og leiði áfram róttæka og herskáa baráttu byggða á verkfallsvopninu og baráttusækni og hafni því sem ræðufólkið á fundi Workers Strike Back kallaði einróma „business unionism“. Hafni stéttabaráttu sem byggir á samvinnu við atvinnurekendur, baráttu sem fer fram í bakherbergjum og sem setji ekki fram neinar róttækar kröfur til að sameina verkafólk um.