Það getur verið vandmeðfarið að beita kaldhæðni á internetinu. Það getur Lenya Rún Taha Karim, frambjóðandi Pírata, borið vitni um. Í gær hæddist hún að þeim sem vilja gera svokölluð woke-mál að kosningamáli, þegar flestum ætti að vera augljóst að mörg önnur mál eru mikilvægara í augum almennings. Lenya Rún skrifaði:
„stóru kosningamálin eru:
1) woke, með eða á móti
2) woke, hefur það gengið of langt
3) woke, er það að eyðileggja íslenska tungu?
verum óhrædd við að taka samtalið um wokeisma. húsnæðislánið þitt og verðbólgan geta beðið.“
Ef marka má athugasemdir við þessa færslu þá voru þó ótal margir sem misskildu þetta grín. Haukur Bragason, sem hefur verið lengi virkur á Twitter, vekur athygli á því og skrifar: „Það er alveg magnað að sjá fólkið í replies, það getur ekki lesið sér til gagns – skilur ekki augljósa kaldhæðni í texta. Þetta eru kjósendurnir sem íhaldið vill tryggja sér.“
Lenya Rún sjálf skrifar svo athugasemd við færslu Hauks og tekur undir. „Ég harma það hvað ég vanmat þann fjölda af fólki á þessu forriti sem er með greindarvísitölu á við teskeið en svona er þetta bara,“ skrifar hún.