Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra virðist ekkert sérstaklega hrifin af áframhaldandi samstarfi við VG og Framsókn. Hún segist „þyrst í meira hægri“ og virðist horfa til samstarfs við Viðreisn í framtíðinni. Einnig stefnir hún á að taka við keflinu af Bjarna Benediktssyni sem formaður Sjálfstæðisflokksins.
Allt þetta kom fram í hlaðvarpsþættinum Chat after Dark en Viðskiptablaðið tók saman viðtalið við Þórdísi. Þegar Þórdís var spurð hvort hún ætlaði að taka við af Bjarna svaraði hún:
„Já, ég máta mig við það. Já, ég hef metnað til þess. Já, ég sé mig fyrir mér þar og er tilbúin. Við erum náttúrulega með formann sem stendur sig vel í sínu starfi en hefur verið lengi og verður ekki endalaust. Þá losnar stóllinn og ég veit að ég verði ekki sú eina sem mun sækjast eftir honum.“
Spurð um ríkisstjórnina sagðist Þórdís „þyrst í meira hægri“, líkt og fyrr segir. Svo virðist sem þar eigi hún við samstarf við Viðreisn. „Viðreisn er auðvitað flokkur sem sprettur út úr Sjálfstæðisflokknum og er á margan hátt nálægt okkur. Mér finnst líka stundum skrýtið þegar fólk fer alveg að gasa þegar það talar um Viðreisn.“