Útlendingafrumvarpið fer til atkvæðagreiðslu í byrjun næstu viku þrátt fyrir mikla andstöðu Pírata en Allsherjar- og menntamálanefnd hefur lokið umfjöllun um það. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, segir að frumvarpið hafi verið afgreitt úr nefnd með miklum fantahætti.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra mælti fyrir frumvarpinu í lok október en annari umræðu lauk í byrjun febrúar eftir að þingmenn höfðu rætt það í á hundrað klukkustundir. Píratar sem sakaðir voru um málþóf hafa gagnrýnt frumvarpið harðlega og telja það mögulega stangast á við stjórnarskrána. Milli annarrar og þriðju umræðu fór það til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd sem lauk umfjöllun sinni í lok síðustu viku.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir þingmaður Pírata telur afgreiðsluna hafa verið gerða í miklum flýti en í viðtali við RUV segir hún „Það er einfaldlega ekki tilbúið. Það er afgreitt úr nefndinni með miklum fantahætti. Við fengum að sjá breytingartillögur og nefndarálit meirihlutans bara seint að kvöldi, daginn fyrir síðasta fund. Fengum ekki að kynna okkur það. Það komu gestir á þennan sama fund. Ég veit ekki til þess að það sé nokkurn tímann gert nema þegar er algjör sátt um afgreiðslu mála. Við erum enn að bíða eftir gögnum frá ráðuneytinu og öðrum aðilum.“. Þá segir hún meirihlutann ekki séð neina ástæðu til að kynna sér málið til hlítar áður en því sé þvingað í gegnum þingið og engar stórar breytingatillögur hafi heldur verið gerðar sem geti haft áhrif á frumvarpið heildrænt.
„Það voru gerðar ákveðnar orðalagsbreytingar og annað, lagfæringar, sem við vissum af. En engar efnislegar breytingar sem breyta neinu um afleiðingar þessa frumvarps. Það voru tvær breytingartillögur sem við hefðum gjarnan viljað fá umsagnir um og fá gesti til að koma og fara yfir það hvaða afleiðingar það mun raunverulega hafa en því var neitað sömuleiðis,“ segir Arndís enn fremur.