Yfirstéttahverfi á yndisreitum en lágstéttir á leigumarkaði

Yfirstéttin á íslandi fær lúxusíbúðir með sjávarútsýni og yndisreiti sem það braskar með á meðan unga fólkið og þeir tekjulægstu komast ekki í gegnum greiðslumat né ná að eignast húsnæði með hlutdeildarlánum.

Á topp 10 listanum yfir dýrustu íbúðir á Íslandi sem Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum eru lúxusíbúðir við Austurhöfn. Þar er dýrasta íbúðin 354 fermetra þakíbúð við Bryggjugötu 6, í eigu Dreisam ehf., í eigu Jónasar Hagan Guðmundssonar fjárfestis sem einnig er einn af eigendum hótelsins við Hörpu. Fermetraverð íbúðarinnar var 1,75 milljónir króna þegar félagið festi kaup á henni fokheldri í mars 2022 og greiddi þá fyrir hana 620 milljónir króna. Hún hefur verði kölluð dýrasta íbúð íslandssögunnar.

Fyrirtækið Dreisam ehf. er skráð sem fjármálafyrirtæki sem hefur m.a. staðið í fjárfestingum á laxám en auk þess rekur Jónas Hagan fjárfestingafélagið Varða Capital sem hefur m.a. átt í fjárfestingum á dýrum þakíbúðum áður. Jónas keypti ásamt viðskiptafélaga sínum og einum ríkasta manni í Kanada Edward Mac Gillivray Schmidt, þrjár efstu hæðirnar á Lindargötu 37, sem er ellefu hæða íbúðaturni í Skuggahverfinu árið 2015. Íbúðirnar sem voru sameinaðar að hluta eru nýttar sem orlofsíbúðir en húsbúnaður þeirra hljóp einnig á annað hundrað milljónum króna samkvæmt Morgunblaðinu á sínum tíma.

Næst stærsta og dýrasta íbúðin við Austurhöfn var einnig seld í fyrra K&F ehf. en félagið er í eigu hjónanna Kesara Margrét Jónsson, prófessors í grasa- og plöntuerfðafræði og Friðriks Ragnars Jónssonar, verkfræðings og forstjóra.

Hverfi sem þessi við Austurhöfn eru skýr merki um aukningu misskiptingar í okkar svo greinilega stéttskipta samfélagi en meðal þess sem kemur fram á sölusíðu Austurhafnar er að þar séu sett ný viðmið í þjónustu við íbúa. Innangengt er í íbúðir beint úr lyftu og eru allar sameignir þjónustaðaðr af starfsmanni húsfélags auk alls viðhalds. Þá býðst íbúum sérstakt aðgengi að alls kyns þjónustu Reykjavík Edition, kaup á veitingum, leigubílaþjónustu, þrifum og þvottaþjónustu. Íbúum mun einnig bjóðast afnot af líkamsrækt og heilsulind hótelsins á góðum kjörum auk þesss að geta pantað herbergisþjónustu af matseðli hótelsins. Þá er stutt í Hörpu og glæsiverslanir auk veitingaþjónustu í mathöll á neðstu hæð hússins.

Einnig má finna dýr einbýlishús í sölu í dag svo sem Sunnakur 1 í Garðabæ sem Viðskiptablaðið fjallaði um á dögunum sem var dýrasta einbýlishús sem selt var á síðasta ári. Húsið, sem er 451 fermetri að stærð, seldist á 375 milljónir króna í lok síðasta árs og nam því fermetraverð eignarinnar tæplega 831 þúsund krónum. Kaupendur hússins voru Hjónin Páll Snorrason, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs sjávarútvegsfyrirtækisins Eskju, og Málmfríður Lilly Einarsdóttir, fótaaðgerðafræðingur en seljendur þess voru hjónin Hreinn Jakobsson, framkvæmdastjóri fjárfestingafélagsins Fjárstreymis, og Aðalheiður Ásgrímsdóttir, framhaldsskólakennari.

Félagið Laug ehf., sem er í eigu Kristjáns Magnasonar og Jóhanns Guðlaugs Jóhannssonar, seldu einnig húseign að Tjaldanesi 15 á Arnarnesi hjónunum Andra Gunnarssyni, lögmanni, og Rakel Hlín Bergsdóttir, eiganda Snúrunnar fyrir 370 milljónir króna sem eru 867 þúsund krónur á fermetrann. Húsið var fyrr á árinu í eigu Róberts Wessman sem seldi félaginu Laug ehf. það á 350 milljónir króna í apríl. Þannig hagnaðist félagið um 20 milljónir á kaupunum á nokkrum mánuðum.

Af tíu dýrustu einbýlishúsum sem seld voru á síðasta ári var kaupverð tveggja þeirra undir 300 milljónunum.

Ef hinn endi fasteignamarkaðarins er skoðaður er vandfundin sú eign á fasteignasíðunum sem á að geta uppfyllt skilyrði fyrir hlutdeildarláni. Hægt er að finna lóð á réttu verðbili og jafnvel litla íbúð á landsbyggðinni en enga íbúð á höfuðborgarsvæðinu í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðis og mannvirkjastofnun (HMS) voru 67 hlutdeildarlán samþykkt á síðasta ári en árið þar á undan voru þau 361 svo fækkunin er gríðarleg.

Samkvæmt stofnuninni voru kaupsamningar á höfuðborgarsvæðinu 5.672 á síðasta ári en 8.454 árið 2021 og fækkaði þeim því um nærri þriðjung á milli ára en hlutdeildarlánum fækkað hátt í sexfalt.

Efnaminna fólk er því fastara á leigumarkaði en nokkru sinni fyrr þrátt fyrir að húsaleiga sér sums staðar orðin hærri en lágmarkslaun.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí