Yfirstéttin á íslandi fær lúxusíbúðir með sjávarútsýni og yndisreiti sem það braskar með á meðan unga fólkið og þeir tekjulægstu komast ekki í gegnum greiðslumat né ná að eignast húsnæði með hlutdeildarlánum.
Á topp 10 listanum yfir dýrustu íbúðir á Íslandi sem Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum eru lúxusíbúðir við Austurhöfn. Þar er dýrasta íbúðin 354 fermetra þakíbúð við Bryggjugötu 6, í eigu Dreisam ehf., í eigu Jónasar Hagan Guðmundssonar fjárfestis sem einnig er einn af eigendum hótelsins við Hörpu. Fermetraverð íbúðarinnar var 1,75 milljónir króna þegar félagið festi kaup á henni fokheldri í mars 2022 og greiddi þá fyrir hana 620 milljónir króna. Hún hefur verði kölluð dýrasta íbúð íslandssögunnar.
Fyrirtækið Dreisam ehf. er skráð sem fjármálafyrirtæki sem hefur m.a. staðið í fjárfestingum á laxám en auk þess rekur Jónas Hagan fjárfestingafélagið Varða Capital sem hefur m.a. átt í fjárfestingum á dýrum þakíbúðum áður. Jónas keypti ásamt viðskiptafélaga sínum og einum ríkasta manni í Kanada Edward Mac Gillivray Schmidt, þrjár efstu hæðirnar á Lindargötu 37, sem er ellefu hæða íbúðaturni í Skuggahverfinu árið 2015. Íbúðirnar sem voru sameinaðar að hluta eru nýttar sem orlofsíbúðir en húsbúnaður þeirra hljóp einnig á annað hundrað milljónum króna samkvæmt Morgunblaðinu á sínum tíma.
Næst stærsta og dýrasta íbúðin við Austurhöfn var einnig seld í fyrra K&F ehf. en félagið er í eigu hjónanna Kesara Margrét Jónsson, prófessors í grasa- og plöntuerfðafræði og Friðriks Ragnars Jónssonar, verkfræðings og forstjóra.
Hverfi sem þessi við Austurhöfn eru skýr merki um aukningu misskiptingar í okkar svo greinilega stéttskipta samfélagi en meðal þess sem kemur fram á sölusíðu Austurhafnar er að þar séu sett ný viðmið í þjónustu við íbúa. Innangengt er í íbúðir beint úr lyftu og eru allar sameignir þjónustaðaðr af starfsmanni húsfélags auk alls viðhalds. Þá býðst íbúum sérstakt aðgengi að alls kyns þjónustu Reykjavík Edition, kaup á veitingum, leigubílaþjónustu, þrifum og þvottaþjónustu. Íbúum mun einnig bjóðast afnot af líkamsrækt og heilsulind hótelsins á góðum kjörum auk þesss að geta pantað herbergisþjónustu af matseðli hótelsins. Þá er stutt í Hörpu og glæsiverslanir auk veitingaþjónustu í mathöll á neðstu hæð hússins.
Einnig má finna dýr einbýlishús í sölu í dag svo sem Sunnakur 1 í Garðabæ sem Viðskiptablaðið fjallaði um á dögunum sem var dýrasta einbýlishús sem selt var á síðasta ári. Húsið, sem er 451 fermetri að stærð, seldist á 375 milljónir króna í lok síðasta árs og nam því fermetraverð eignarinnar tæplega 831 þúsund krónum. Kaupendur hússins voru Hjónin Páll Snorrason, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs sjávarútvegsfyrirtækisins Eskju, og Málmfríður Lilly Einarsdóttir, fótaaðgerðafræðingur en seljendur þess voru hjónin Hreinn Jakobsson, framkvæmdastjóri fjárfestingafélagsins Fjárstreymis, og Aðalheiður Ásgrímsdóttir, framhaldsskólakennari.
Félagið Laug ehf., sem er í eigu Kristjáns Magnasonar og Jóhanns Guðlaugs Jóhannssonar, seldu einnig húseign að Tjaldanesi 15 á Arnarnesi hjónunum Andra Gunnarssyni, lögmanni, og Rakel Hlín Bergsdóttir, eiganda Snúrunnar fyrir 370 milljónir króna sem eru 867 þúsund krónur á fermetrann. Húsið var fyrr á árinu í eigu Róberts Wessman sem seldi félaginu Laug ehf. það á 350 milljónir króna í apríl. Þannig hagnaðist félagið um 20 milljónir á kaupunum á nokkrum mánuðum.
Af tíu dýrustu einbýlishúsum sem seld voru á síðasta ári var kaupverð tveggja þeirra undir 300 milljónunum.
Ef hinn endi fasteignamarkaðarins er skoðaður er vandfundin sú eign á fasteignasíðunum sem á að geta uppfyllt skilyrði fyrir hlutdeildarláni. Hægt er að finna lóð á réttu verðbili og jafnvel litla íbúð á landsbyggðinni en enga íbúð á höfuðborgarsvæðinu í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðis og mannvirkjastofnun (HMS) voru 67 hlutdeildarlán samþykkt á síðasta ári en árið þar á undan voru þau 361 svo fækkunin er gríðarleg.
Samkvæmt stofnuninni voru kaupsamningar á höfuðborgarsvæðinu 5.672 á síðasta ári en 8.454 árið 2021 og fækkaði þeim því um nærri þriðjung á milli ára en hlutdeildarlánum fækkað hátt í sexfalt.
Efnaminna fólk er því fastara á leigumarkaði en nokkru sinni fyrr þrátt fyrir að húsaleiga sér sums staðar orðin hærri en lágmarkslaun.