„Það hafa verið nefndar ýmsar tölur eins og að Vesturlönd hafi fryst 300 milljarða bandaríkjadala af gjaldeyrisforða Rússlands. Ef Vesturlönd ætla að taka alla þá peninga myndu varla nást neinir samningar við rússnesk stjórnvöld um stríðslok og óvissa væri um til hvaða ráða þau myndu grípa og með hvaða afleiðingum. Endanlegt hrun rússneska hagkerfisins myndi líka hafa áhrif á Vesturlönd, bæði hið opinbera og einkageirann,“ segir Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor í alþjóðaviðskiptum og hagfræði við Háskólann á Akureyri, í samtali við Moggann eftir fund Evrópuráðsins í Hörpu.
„Þetta gæti líka þýtt að hin BRICS-löndin utan Rússlands – Brasilía, Indland, Kína og Suður Afríka – myndu aldrei treysta Vesturlöndum eða vestrænum bönkum,“ segir Hilmar. „Það eru líka ýmis lögfræðileg álitaefni um þetta mál, að frysta fyrst gjaldeyrisforða lands og taka hann svo endanlega. Ég er ekki að segja að þetta sé ekki hægt, eða að það eigi ekki að gera þetta, en það þarf að hugsa svona aðgerð til enda. Þetta hefði bæði afleiðingar fyrir Rússland og Vesturlönd.“
Aðspurður um hversu líklegt sé að þetta fjármagn berist til Úkraínu og þá hvenær, bendir Hilmar á að Úkraína fái þegar aðstoð úr ýmsum áttum. Alþjóðabankinn hafi t.d. veitt Úkraínu verulega neyðaraðstoð. Sama megi segja um Fjárfestingabanka Evrópu, sem er banki Evrópusambandsins, og Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu. Svo hafi ýmis lönd veitt tvíhliða neyðaraðstoð, þar á meðal í samvinnu við Alþjóðabankann, og er Ísland í þeim hópi. Aðaluppbyggingin í Úkraínu hljóti samt að fara fram að stríði loknu.
Hilmar er spurður hversu raunhæft sé að Úkraína gangi í Nató og ESB. Og hann svarar: „Í yfirlýsingu leiðtogafundar NATO í Búkarest 2008 var sagt að Úkraína myndi ganga í NATO. Nú, 15 árum síðar, er Úkraína ekki í NATO. Ákvörðun um NATO-aðild Úkraínu er fyrst og fremst í höndum Bandaríkjanna. Ég sé ekki fyrir mér að Úkraína sé á leið í NATO á næstunni. Varðandi ESB þá eru umsóknarríkin auk Úkraínu orðin mörg: Albanía, Moldóva, Norður-Makedónía, Serbía, Svartfjallaland og Tyrkland. Mörg þessi lönd hafa beðið ansi lengi eftir aðild, Tyrkland síðan 1999. Væntanleg umsóknarríki eru Bosnía og Hersegóvína, Georgía og Kósovó. Ég sé ekki fyrir mér að Úkraína fái aðild að ESB á næstunni. Það gæti tekið 10 til 20 ár að minnsta kosti.“