Mynd: Þýskur Leopard 2 skriðdreki í notkun Úkraínuhers.
Samkvæmt drögum að fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2025 ætlar Þýskaland að draga úr hernaðaraðstoð til Úkraínu um helming, eða úr 8 milljörðum evra niður í 4 milljarða evra.
Þýskaland er næststærsti stuðningsaðili Úkraínu á eftir Bandaríkjunum þegar kemur að því að senda vopn og hernaðaraðstoð.
(en hið sama á við um Ísrael, þar sem Þýskaland er einnig næststærsti stuðningsaðili Ísrael á eftir Bandaríkjunum þegar kemur að hernaðaraðstoð).
Þessi fyrirhugaði niðurskurður Þýskalands á hernaðaraðstoð til Úkraínu kemur á sama tíma og margir búast við því að Donald Trump muni sigra forsetakosningar í Bandaríkjunum í nóvember, en þegar hans ríkisstjórn tekur við í janúar 2025 munu Bandaríkin koma til með að draga verulega úr sínum stuðningi við Úkraínu og leitast eftir samningaviðræðum við Rússa til að binda enda á stríðið, eins og Trump hefur sjálfur margoft lýst yfir. Einnig J. D. Vance, varaforsetaefni hans, sem er algjörlega á móti því að senda neina peninga til Úkraínu.
Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, var upphaflega tregur til að senda vopn til Úkraínu og var á móti því að senda þung vopn eins og skriðdreka. Hann vísaði þess að slík ákvörðun gæti leitt til þriðju heimsstyrjaldarinnar. En hann lét á endanum undan og árið 2023 var Þýskaland orðið helsta Evrópuríkið sem sendi vopn til Úkraínu. Þjóðverjar hafa m.a. sent sína Leopard 2 skriðdreka, sem þykja vera háþróuðustu og flottustu skriðdrekarnir í Evrópu.
Þeir voru m.a. notaðir í gagnsókn Úkraínumanna sumarið 2023, en virtust ekki hafa breytt miklu þar sem sú sókn náði engum árangri.
Samkvæmt þýska dagblaðinu Sueddeutsche Zeitung missti Úkraínuher 20 slíka skriðdreka í gagnsókninni sumarið 2023, þar af 7 bara í einni orrustu um þorpið Robotyne.
Þá hefur Þýskaland (eins og önnur lönd) svo gott sem tæmt sínar vopnabirgðir eftir að hafa sent þær nær allar til Úkraínu, þar sem þær hafa verið brenndar upp og ekki orðið til þess að færa Úkraínu sigur í stríðinu við Rússland.