Fleiri Úkraínumenn vilja friðarviðræður við Rússa og segjast tilbúnir að gefa eftir landsvæði – óánægja eykst um herkvaðningu

More-Ukrainians-Want-Peace-Talks

The Telegraph greinir frá niðurstöðum nýrrar könnunar á vegum ZN news, sem sýnir að 44% Úkraínumanna vilja friðarviðræður við Rússa. Þetta er tvöföld aukning frá síðustu könnun (í maí 2023) þegar aðeins 22% sögðu hið sama.

Kyiv Post hefur einnig birt nýja könnun. Samkvæmt henni hefur fjöldi þeirra Úkraínumanna þrefaldast sem eru tilbúnir að gefa eftir landsvæði til að semja um frið. 32% eða þriðjungur Úkraínumanna segjast tilbúnir að gefa eftir landsvæði til að semja um frið. Þetta er þreföld aukning á einu ári, þar sem fyrir 12 mánuðum síðan sögðust aðeins 10% Úkraínumanna tilbúnir að gefa eftir landsvæði til að semja um frið þegar þeir voru spurðir.

The Telegraph greinir einnig frá því að liðhlaupi í úkraínska hernum hafi verið skotinn til bana á landamærunum þegar hann reyndi að flýja land, og að mikil óánægja sé í Úkraínu um herkvaðningu í landinu. Fregnir berast af því að úkraínskir karlmenn séu að flýja yfir landamærin til að forðast það að vera kvaddir í herinn og sendir á vígvöllinn.

The Telegraph segist hafa heimildir sem benda til þess að Úkraína sé að senda menn á fremstu víglínu sem eru læknisfræðilega óhæfir til að gegna herþjónustu.

The New York Times greinir frá því að Rússar séu að sækja hart fram í Donbas héraði, þar sem þeir hafa á undanförnum vikum og mánuðum náð ótal þorpum og bæjum á sitt vald, eða ætíð síðan að Avdiivka féll í febrúar á þessu ári.

Í þessari sömu grein The New York Times segir einnig að „Úkraína sé núna að sækjast eftir því að semja um vopnahlé til að binda enda á átökin“.

Ukraine is pursuing a plan for a negotiated end to the fighting.

Þessi staðhæfing hefur vakið athygli, m.a. í rússneskum fjölmiðlum eins og TASS. En deilt er um hvort að þessi fullyrðing The New York Times sé rétt.

Það sem rennir kannski stoðum undir þessa fullyrðingu er að í gær (miðvikudag 24. júní) fór utanríkisráðherra Úkraínu, Dmytro Kuleba, í heimsókn til Kína, og gaf þar frá sér tilkynningu sem segir að „Úkraína sé tilbúin að hefja viðræður við Rússland“. Reuters og The New York Times greina frá þessu (ásamt fleirum). Þetta er fyrsta heimsókn hjá háttsettum embættismanni í Úkraínu til Kína eftir að innrás Rússa hófst í febrúar 2022.

 Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, átti fund í gær (miðvikudag 24. júní) með Wang Yi, utanríksráðherra Kína.

Kína hafði áður (í febrúar 2023) lagt fram sitt friðartilboð í tíu liðum, sem var umsvifalaust hafnað af Vesturlöndum.

Það virðist þó ekki vera samræmi í skilaboðum æðstu ráðamanna í Úkraínu um þessi mál. Vegna þess að á sama tíma og Kuleba utanríkisráðherra var í heimsókn í Kína að tala um að Úkraína væri tilbúin til að hefja samningaviðræður við Rússa, þá hefur Volodymyr Zelenský, forseti Úkraínu, komið með yfirlýsingar á Twitter (m.a. eftir fund hans við utanríkisráðherra Vatíkansins), þar sem hann talar um að Úkraína standi ennþá við sína svokölluðu friðarformúlu (Peace Formula).

Friðarformúla Úkraínu (sem hefur tekið ýmsum breytingum í gegnum tíðina) var upphaflega skilgreind þannig að Rússar verði að draga herlið sitt til baka frá allri Úkraínu áður en friðarviðræður geta hafist. Ísland hefur skuldbundið sig til að styðja við þessa friðarformúlu Úkraínu með tvíhliða varnarsamningi sem Bjarni Benediktsson undirritaði með Zelenský þann 31. maí, eins og fjallað var um á Samstöðinni.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí