Sósíalistaflokkur Íslands er sex ára í dag. Af því tilefni rifjaði Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar, upp í Facebook-umræðuhópi flokksins. stofnfundinn og það sem hefur gerst síðan.
Sósíalistaflokkurinn var stofnaður af 1367 stofnfélögum á þessum degi fyrir sex árum, 1. maí 2017. Stofnfundurinn var haldinn í Tjarnarbíó, við þéttskipaðan sal. Í gær gekk félagi nr. 3063 í flokkinn. Flokkurinn hefur því stækkað og dafnað vel.
Ráðagerð um stofnun flokksins var tilkynnt í pólitískum umræðuhópi á Facebook, sem síðar fékk nafn flokksins: Sósíalistaflokkur Íslands. Þar eru meðlimir nú 12.004, auk þess sem 1381 gestur tekur þátt í umræðunni og fylgist með. Þetta er lang öflugasti opni umræðuvettvangurinn á Facebook sem fjallar um íslensk samfélagsmál og pólitík. Aðrir stjórnmálaflokkar leggja lítið sem ekkert upp úr svona opinni samfélagsumræðu, vilja fremur messa yfir lýðnum en hlusta á hann.
Sama dag og flokkurinn var stofnaður stóð undirbúningshópurinn að útifundi á Austurvelli undir yfirskriftinni: Endurreisn verkalýðshreyfingarinnar. Þar var ræðufólk Ragnar Þór Ingólfsson, þá nýkjörinn formaður VR, Sólveig Anna Jónsdóttir verkakona og síðar formaður Eflingar, Ellen Calmon, þáverandi formaður Öryrkjabandalagsins, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, kennari og síðar formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og enn síðar þingkona, Heiðveig María Einarsdóttir, sjómaður sem síðar gerði tilraun til að bjóða sig fram til formanns Sjómannafélags Íslands en var þá rekinn úr félaginu, og Gunnar Smári Egilsson blaðamaður og síðar formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins.
Fyrstu mánuðina var skipulag flokksins markað. Sósíalistaflokkurinn er öðruvísi uppbyggður en aðrir flokkar og innan hans eru margar miðjur. Málefnastjórn heldur utan um mótun stefnu flokksins, sem mörkuð er af hópum slembivalinna félaga. Baráttustjórn styður við stofnun nýrra hagsmunafélaga og uppbyggingu eldri. Félagastjórn heldur utan um félagatalið og tengsl félaga inn í starf flokksins og hvetur þá til þátttöku í almannasamtökum og hagsmunafélögum. Framkvæmdastjórn heldur utan um fjármál og skipulag flokksins. Sósíalistaþing er aðalfundur flokksins. Í tengslum við málefnastarfið stendur flokkurinn fyrir ráðstefnum og fundum um einstök málefni. Innan flokksins starfa Roði – félag ungra sósíalista, Sósíalískir feministar og aðrir smærri óformlegir hópar um einstök málefni og hagsmuni.
Sósíalistaflokkurinn stuðlaði að framboði B-listans í Eflingu snemma árs 2018 þar sem Sólveig Anna Jónsdóttir var kjörinn formaður.
Sósíalistaflokkurinn fékk kjörinn fulltrúa í borgarstjórn 2018: Sönnu Magdalenu Mörtudóttur. Og annan mann til í kosningunum árið 2022: Trausta Breiðfjörð Magnússon.
Sósíalistaflokkurinn stuðlaði að endurreisn Leigjendasamtakanna síðla árs 2018 og aftur seint árinu 2021 þegar fyrri tilraun hafði runnið út í sandinn. Þar er nú formaður Guðmundur Hrafn Arngrímsson.
Sósíalistaflokkurinn lagði styrki frá Reykjavíkurborg í sérstakan sjóð, Vorstjörnuna, og síðar einnig helminginn af styrk flokksins frá ríkinu. Vorstjarnan er styrktarsjóður fyrir hagsmunabaráttu hópa sem ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að fjármagna nauðsynlega baráttu. Vorstjarnan hefur stutt og styrkir fjárhagslega félög og samtök fátækra, flóttamanna, innflytjenda, leigjenda hjá Félagsbústöðum, Strætófarþega, íbúa í hjólhýsum og húsbílum, leigjendur o.s.frv. Kjörnir fulltrúar Sósíalistaflokksins leggja hluta af launum sínum inn í Vorstjörnuna og ýta með því undir öflugri hreyfingu.
Sósíalistaflokkurinn leigir aðstöðu ásamt öðrum félögum í Vorstjörnunni – Alþýðuhúsi í Bolholti 6, sem opnaði haustið 2019, skömmu fyrir cóvid. Þar eru nú fjölmörg félög til húsa sem vinna að réttinda- og hagsmunabaráttu almennings. Vorstjarnan – Alþýðuhús mun þroskast í að verða félasgheimili félagshyggjunnar.
Sósíalistaflokkurinn átti frumkvæði að stofnun Samstöðvarinnar í mars 2020 og hefur síðan styrkt uppbyggingu þessa vettvangs umræðu og frétta. Í dag á og rekur Alþýðufélagið Samstöðina, félagsskapur hlustenda og lesenda Samstöðvarinnar. Samstöðin er eini fjölmiðillinn sem er í eigu notenda. Innan tíðar munu þættir Samstöðvarinnar verða sendir út á útvarpsbylgjum og vonandi einnig í hefðbundinni sjónvarpsdreifingu innan tíðar. Flesta daga eru þættir Samstöðvarinnar stærstu fundir um samfélagsmál þann daginn. Þau viðtöl og sú umræða sem dreifist víðast á Facebook, youtube og á hlaðvarpsveitum nær til þúsunda hlustenda.
Sósíalistaflokkurinn bauð fram til þings í öllum kjördæmum haustið 2021 og fékk 4,1% atkvæða. Það fylgi hefði fleytt flokknum á þing á öllum Norðurlöndunum en kosningalögin á Íslandi verja sérstaklega eldri og stærri flokka fyrir nýjum framboðum. Frá kosningum hafa kannanir sýnt að Sósíalistaflokkurinn á sér traust fylgi, mælist stundum með meira fylgi en einn eða tveir þingflokkar og með meira fylgi en fjórir þeirra í könnunum um fylgi til borgarstjórnar.
Frá upphafi hefur Sósíalistaflokkurinn ræktað mótmæli og önnur stjórnmál götunnar. Fyrir cóvid stóð fólk í flokknum að Hungurgöngum til að sameina baráttu lágtekjufólk, verkafólks, öryrkja og fátæks eftirlaunafólks fyrir að eiga í sig og á. Og flokksfólk hefur verið virkt í fjölda annarra mótmæla. Síðasta vor stuðlaði Sósíalistaflokkurinn að mótmælum gegn sölunni á Íslandsbanka og mótaði upp úr þeim félagsskapinn Við, fólkið í landinu, sem mun stuðla að mótmælum gegn stjórnvöldum í málum þar sem stjórnarstefnan gengur þvert á ljósan vilja mikils meirihluta almennings. Á sjómannadaginn mótmælti Við fólkið í landinu kvótakerfinu, fyrirbrigði sem mikill meirihluti þjóðarinnar vill losna við.
Eins og sjá má af þessari yfirferð er Sósíalistaflokkurinn ólíkur öðrum flokkum. Áherslur hans er ekki aðeins borgarleg stjórnmál, þátttaka í kosningum til þings og sveitarstjórna. Sósíalistaflokkurinn er ekki fámenn klíka sem vill komast á þing eða í sveitarstjórn. Í stað þess að leggja alla áherslu á borgaraleg stjórnmál hefur flokkurinn verið virkur í endurreisn verkalýðshreyfingarinnar og annarrar hagsmunabaráttu almennings, stofnun og uppbyggingu ýmissa félaga og samtaka sem virkjað hafa fólk til þátttöku í baráttunni fyrir betra samfélagi. Og stuðlað að virkni almennings í mótmælum á götum úti og í samfélagsumræðu á vettvangi flokksins á Facebook og á vegum Samstöðvarinnar.
Á síðustu sex árum hefur Sósíalistaflokkurinn haft mikil áhrif, í raun umbreytt umræðunni í samfélaginu. Fyrir sex árum var auðvaldið varla nefnt á nafn, arðrán aldrei og engum leyfðist að efast um að stýra ætti samfélaginu eftir kröfum fjármagns- og fyrirtækjaeigenda. Sú hugmynd er enn ríkjandi á þingi, en er hægt og örugglega að falla í samfélaginu. Andstaðan er þó mikil, þau sem með völdin fara ætla ekki að gefa þau eftir. Það sést vel á því hversu sjálfsagðar kröfur Sósíalista, sem án undantekninga er byggðar á miklum meirihlutavilja almennings, er mætt af mikilli hörku.
Við höfum náð miklum árangri á þessum sex árum. Á næstu sex árum munum við uppskera í takt við vel grundaðan undirbúning. Fram undan er baráttan um framtíðina.