Teitur Björn Einarsson, sem hefur tekið sæti á þingi fyrir Sjálfstæðisflokk í Norðvesturkjördæmi eftir að Haraldur Benediktsson hætti og gerðist bæjarstjóri Akraness, lýsti því yfir í umræðum á þingi að hann gæti ekki stutt frumvarp Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelginni, þar sem rýmkuð eru heimildir til togara til veiða á grunnslóð.
Breytingin felur í sér að felldar verða burt takmarkanir á svokölluðum aflvísi, en hann segir til um afl skipa og þar með toggetu. Margir hafa gagnrýnt þetta frumvarp og bent á að það muni leiða til þess að útgerðir láti smíða aflmikil skip sem falla undir stærðartakmarkanir og muni þá geta hafið stórfelldar veiðar á grunnslóð. Þetta voru einnig rök Teits. Hann vitnaði til speki úr sveitum landsins, um að ekki mætti fella girðingar nema vita til hvers hún var upphaflega reist og hvaða afleiðingar það myndi hafa að fella hana. Það sagði Teitur að höfundar þessa frumvarps hefðu ekki gert.
Sjá má og heyra ræðu Teits í spilarnum hér að neðan:
Margir aðrir hafa gagnrýnt þetta frumvarp og spáð stórfelldum togveiðum á grunnslóð ef það verður á lögum.
„Að óbreyttu verður frumvarpið til þess að þyngja sókn nær landi með togveiðarfærum,“ segir í umsögn Landssambands smábátaeigenda. „Það er gert á sama tíma og Hafrannsóknastofnunin stendur ráðþrota yfir því að stórir hrygningarstofnar þorsks hafi ekki skilað góðri nýliðun sl. fjörutíu ár. Óumdeilt er að á þeim slóðum sem lagt er til að auka skuli sókn með togveiðarfærum er lífríkið viðkvæmt fyrir öllu raski. Engu líkara en sú stefna hafi orðið ofan á að taka orkuskipti fram yfir lífríki hafsins. LS gagnrýnir þá stefnu harðlega.“
„Að afnema aflvísinn með öllu er því stórt skref sem ekki má stíga að vanhugsuðu máli. T.d. þarf að meta áhrif þess að aukin toggeta veldur því að skip geta dregið tvö troll, en ekki eitt. Þetta gerir það að verkum að meira kolefni losnar úr sjónum og áhrif á hafsbotninn aukast, til að mynda á setlög,“ skrifar Gísli Rafn Ólafsson þingmaður Pírata í álit minni hluta atvinnuveganefndar.